22. okt. 2007 : Sjálfboðaliðar Skagafjarðar

Í tilefni af lokadegi í landsátaki sjálfboðaliðasöfnunar  Rauða krossins, voru sjálboðaliðar deildarinnar mjög áberandi í Skagfirðingabúð sl.laugardag. Voru þar kynnt 5 helstu verkefnin sem deildin fer fyrir. Heimsóknarvinir,  Neyðarvarnir, Föt sem framlag, Þjóðir Skagafjarðar og Tómstundahópur Rauða krossins.  Hátt á annan tug sjálfboðaliða komu og spjölluðu við gesti og gangandi frá  kl 10 til 14.  „Það er búið að vera fínt rennsli á fólki hérna til okkar og margir áhugasamir um verkefnin sem við erum að kynna hér“, sagði Gunnar Rögnvaldsson formaður Skagafjarðardeildar sem gekk á milli manna og útbreiddi boðskap  Rauða krossins.

22. okt. 2007 : Kvenfélag Sauðárkróks gaf Skagafjarðardeild RKÍ stóla

Á fundi hjá Kvenfélagi Sauðárkróks sem haldinn var síðastliðinn miðvikudag afhenti Kvenfélagið, Skagafjarðardeild Rauða krossins nýja stóla til að nota á skrifstofu sinni. Það var Branddís Benediktsdóttir formaður félagsins sem afhenti Soffíu Þorfinnsdóttur stólana. „Kærar þakkir,  þessi gjöf kemur sér mjög vel í því öfluga starfi sem fer fram hjá Skagafjaðardeild“, sagði Soffía sem hélt stutta kynningu ásamt Jóni Þorsteini Sigurðssyni, á starfi Rauða krossins í Skagafirði. Kvenfélag Sauðárkróks hefur undanfarin ár styrkt starf Rauða krossins með því að hlúa að starfi deildarinnar og bæta þá aðstöðu sem félagið hefur komið sér upp í húsnæði sínu að Aðalgötu 10b, á Sauðárkróki.

16. okt. 2007 : Prjónað til góðs

Prjónakaffi hóf göngu sína hjá Skagafjarðardeild í dag.  Komu þrír frumkvöðlar því á með Ágústu Sigurbjörgu í fararbroddi. Í tilefni kynningarviku komu þær saman og ætla að koma aftur saman n.k. fimmtudag frá kl 14:00 - 16:00 til að kynna þetta fyrir þeim sem vilja prjóna til góðs. „Við komum hér saman til að prjóna til góðs og sjalla saman um daginn og veginn, ætlum við svo að vera með bakkelsi meðferðis í vetur þegar við hittumst,“ segir Ágústa sem sat í sófanum í Rauða krossinum á Aðalgötu 10b og prjónaði barnatrefil.

3. okt. 2007 : Heimsóknavinanámskeið í Skagafrði

Námskeið fyrir heimsóknavini var haldið hjá Skagafjarðardeild Rauða krossins á þriðjudaginn. Góður andi var á námskeiðinu og hugur í konunum. Heyrðist á þeim að þær hefðu mikla ánægju af að vera í verkefninu og góð tilfinning að geta látið eitthvað gott af sér leiða og fá það margfalt til baka.

Heimsóknaþjónusta hefur verið starfrækt hjá deildinni frá því árið 2001 í samvinnu við Sauðárkrókskirkju og Fjölskylduþjónustu Skagafjarðar.

Sjálfboðaliðar heimsækja gestgjafa og veita félagsskap eftir samkomulagi, svo sem að spjalla eða lesa. Hlutverk þeirra er fyrst og fremst að veita félagsskap, nærveru og hlýju.

25. sep. 2007 : Tómstundahópur fyrir fatlaða Skagafirði

Skagafjarðardeild Rauða kross Íslands fór árið 2006 af stað með verkefni sem kallast „Tómstundahópar fyrir fatlaða".  Þau fóru meðal annars til Spánar í sumar.

20. ágú. 2007 : Tombólubörn Skagafjarðar

Í sumar hafa Tombólubörn í Skagafirði safnað rúmlega 20.000 kr til styrktar Rauða kross Íslands. Árlega halda tvö til þrjú hundruð börn tombólur og safna 400 - 500 þúsund krónum sem varið er til aðstoðar börnum víðsvegar í heiminum sem eiga um sárt að binda.

Hefur skrifstofa Skagafjarðardeildar tekið á móti nokkrum hópum sem hafa haldið tombólu fyrir utan verslanir Hlíðarkaup og Skagfirðingabúð.  Hjördís, Inga M, Lovísa H og Þóranna söfnuðu 9548 kr fyrr í sumar.  Sunna Líf safnaði 6053 kr og þessi fríði hópur hér á myndinni til hliðar safnaði 4697 kr.

Vill Skagafjarðardeild Rauða kross Íslands færa öllum þeim sem hafa gefið tombólupening í sumar miklar þakkir.

17. júl. 2007 : Hlýlegt andrúmsloft á sumarbúðum Rauða krossins

Það er líf og fjör á Löngumýri í Skagafirði þessa dagana þar sem sumarbúðir Rauða krossins fyrir fatlaða einstaklinga standa yfir.

Dagskráin er hlaðin skemmtilegum uppákomum. Fyrsta daginn var farið yfir undirstöðuatriði skyndihjálpar og horft á mynd um sögu og starf Rauða krossins. Eftir það var farið í leik sem byggir á grundvallarmarkmiðunum sjö um mannúð, óhlutdrægni, hlutleysi, sjálfstæði, sjálfboðna þjónustu, einingu og alheimshreyfingu. Síðar verður farið á hestbak, í flúðasiglingar, sjóferð, fjallgöngu og ýmsa leiki. Daglega er farið í sund í Varmahlíð og endað með kvöldvöku þar sem flestir leggja til efni.

„Það er einstakt andrúmsloft á sumarbúðunum. Allir fá að spreyta sig á verkefnum við sitt hæfi og eru virkir í leikjum dagsins. Það sem stendur upp úr er lífsgleðin sem skín úr hverju andliti,” segir Gunnar Rögnvaldsson formaður Skagafjarðardeildar Rauða krossins.

15. jún. 2007 : Tómstundarhópur fyrir fatlaða skellti sér til Spánar

 

Verða í 14 daga á Alicante
Skagafjarðardeild Rauða kross Íslands fór í fyrra af stað með verkefni sem kallast Tómstundarhópar fyrir fatlaða. Hópur þessi, ásamt 18 fylgdarmönnum hélt af stað til Spánar þann 7. júní s.l. og ætlar sér að dvelja þar í 14 daga.

Til þess að allir meðlimir hópsins geti tekið þátt í ferðinni var nauðsynlegt að finna hóp góðs og hæfs fólks sem var tilbúið að leggja sitt af mörkum fyrir þátttakendurna. Einir 18 sjálfboðaliðar starfa í ferðinni sem allir hafa reynslu af því að starfa með þeim þátttakendum, en lagt var upp með það að þátttakendur í Tómstundahópnum þyrftu ekki að greiða fyrir fylgdarmenn sína.

Hópur þessi heldur úti skemmtilegri síðu, www.thrki.net, en þar er hægt að nálgast fjöldan allan af skemmtilegum myndum frá ferðinni og auk þess sem nýjar færslur koma daglega um gang mála á Alicante. 

22. maí 2007 : Skagfirskur sjálfboðaliðadagur

Þann 22 maí s.l. hélt stjórn Skagafjarðardeildar lokahóf fyrir sjálfboðaliða í Skagafirði. Þar grilluðu Gestur gjaldkeri og Marinó Þórisson af stakri snilld skagfirskt lambakjöt ofaní sjálfboðaliða deildarinnar. Tæplega 60 sjálfboðaliðar mættu úr heimsóknarþjónustunni, ungmennahreyfingunni og fjöldahjálpinni og gæddu sér á matnum. Þessi siður er komin á hjá deildinni að ljúka starfsárinu að vori með grilli til að þakka fyrir vel unnin störf sjálfboðaliða hjá deildinni. Vonast stjórn deildarinnar svo til að sjá sem flest andlit aftur að hausti og hefja þá en öflugra starf en áður.

3. maí 2007 : Þjóðir Skagafjarðar

Rauði krossinn stóð að samkomu á Sæluviku Skagfirðinga sem bar yfirskriftina Þjóðir Skagafjarðar. Markmiðið var að sýna fram á hversu margir íbúar Skagafjarðar eru af erlendu bergi brotnir og hversu fjölbreytt þjóðerni er um að ræða. Jafnframt var markmiðið að kynnast hvert öðru og opna augun fyrir áhugaverðri menningu hvers annars. Fólk kom með rétti frá sínu heimalandi, muni og myndir og sumir tróðu upp með myndasýningu, söng og spili. Það var gaman að sjá hve fólk lagði sig fram við þetta allt.

Samkoman var haldin á Kaffi Krók. Skemmst er frá því að segja að mjög vel tókst til. Um hundrað manns mætti og voru þjóðernin 15 fyrir utan Íslendinga. Stemningin var góð. Fólk mætti með jákvætt hugarfar, bæði forvitið og opið. Gleði og ánægja ríkti. Þannig viljum við hafa það!

 

30. apr. 2007 : Vel heppnuð flugslysaæfing á Sauðárkróki

Umfangsmikil flugslysaæfing fór fram á Sauðárkróki á laugardaginn. Skagafjarðardeild Rauða krossins og áhöfn félagsins í Samhæfingarstöðinni tóku þátt fyrir hönd Rauða krossins.
 
Flugvél með 28 farþega auk tveggja í áhöfn hlekktist á við lendingu á flugvellinum og eldur braust út. Unnið var eftir drögum að flugslysaáætlun Sauðárkróksflugvallar.

Sjálfboðaliðar Skagafjarðardeildar voru 19 talsins þennan dag og mönnuðu þeir nokkra pósta svo sem stjórnstöð fjöldahjálpar, söfnunarsvæði aðstandenda og fjöldahjálparstöð. Skyndihjálparhópur Rauða krossins starfaði á söfnunarsvæði slasaðra á flugvellinum og sjálfboðaliðar aðstoðuðu við skráningu og gæslu á spítalanum. Þá átti deildin tvo fulltrúa í aðgerðastjórn almannavarna.

30. apr. 2007 : Takk fyrir allt sem ég hef

Hlutverkaleikurinn Á flótta var leikinn á Norðurlandi dagana 17. og 18. mars í samstarfi Ungmennadeildar Reykjavíkurdeildar og Skagafjarðardeildar Rauða kross Íslands við áfanga FLÓ 101 í Fjölbrautaskóla Norðurlands vestra.

Skólinn gaf nemendum sínum eina einingu fyrir að taka þátt og skrifa greinagerð um leikinn og upplifun sína á meðan á honum stóð.

Ingunn Kristjánsdóttir, Ingvi Aron og  Hekla Sigurðardóttir skrifuðu stórgóðar lýsingar og skemmtilegt er að sjá hvað frásagnirnar eru ólíkar.

20. mar. 2007 : Nemendur Fjölbrautaskóla Norðurlands vestra tók þátt í hlutverkaleiknum Á flótta

Hlutverkaleikurinn Á flótta var leikinn á Norðurlandi síðastliðna helgi í samstarfi Ungmennadeildar Reykjavíkurdeildar og Skagafjarðardeildar Rauða kross Íslands og Fjölbrautaskóla Norðurlands vestra. Er þetta í fyrsta sinn sem slíkt samstarf hefur verið með uppsetningu leiksins.

13. feb. 2007 : 112 dagurinn í Skagafirði

112 dagurinn var haldinn hátíðlegur hér í Skagafirði líkt og víðar á landinu á sunnudaginn. Af því tilefni hópuðust björgunarliðar í Skagafirði saman og efndu til dagskrár í Sveinsbúð, húsnæði björgunarsveitarinnar. Þar var boðið upp á vöfflukaffi og kynningu á búnaði og starfi Björgunarsveitarinnar Skagfirðings og Skagafjarðardeildar Rauða krossins. Björgunarliðar tóku sig til og óku í einni lest hringinn í Skagafirði á neyðarbílum sínum og kynntu þá fyrir heimamönnum á Hólum, á Hofsósi og í Varmahlíð.

Ungliðahreyfing Rauða kross deildarinnar var með sviðsetningu á ýmsum áverkum slysa og sá Karl Lúðvíksson skyndihjálparfrömuður og leiðbeinandi um að farða 7 stelpur úr ungliðahreyfingunni og svo útskýrðu hann og Jón Þorsteinn fyrir gestum og gangandi hvernig veita ætti skyndihjálp hjá hverjum sjúklingi. Einnig fór Karl yfir helstu viðbrögð á slysstað og hvernig ætti að veita neyðarhjálp. Að mati Gunnars Rögnvaldssonar tókst dagurinn með sóma og voru þátttakendur ánægðir eftir að hafa þvegið af sér sár dagsins og tilbúnir til að taka þátt í næstu slysasviðsetningu. Vill Rauði krossinn koma á framfæri miklum þökkum til Björgunarsveitarinnar Skagfirðings og sjúkraflutningsmönnunum fyrir aðstöðu og aðstoð.

18. jan. 2007 : Öflugur skyndihjálparhópur meðal deilda Rauða krossins á Norðurlandi

Deildir Rauða krossins á Norðurlandi hafa unnið að því á undanförnum mánuðum að koma á fót viðbragðshópi í skyndihjálp. Aukin þörf er fyrir vel þjálfað fólk í skyndihjálp á fjöldahjálparstöðvum.

11. jan. 2007 : Öflugt starf heimsóknavina í Skagafirði

Mánaðarlegur samverufundur heimsóknavina í Skagafjarðardeild Rauða krossins var haldinn í vikunni. Að þessu sinni mættu góðir gestir frá landsskrifstofunni, Linda Ósk verkefnisstjóri í heimsóknaþjónustu og Guðný svæðisfulltrúi. Auk þeirra mættu 14 konur.