13. feb. 2007 : 112 dagurinn í Skagafirði

112 dagurinn var haldinn hátíðlegur hér í Skagafirði líkt og víðar á landinu á sunnudaginn. Af því tilefni hópuðust björgunarliðar í Skagafirði saman og efndu til dagskrár í Sveinsbúð, húsnæði björgunarsveitarinnar. Þar var boðið upp á vöfflukaffi og kynningu á búnaði og starfi Björgunarsveitarinnar Skagfirðings og Skagafjarðardeildar Rauða krossins. Björgunarliðar tóku sig til og óku í einni lest hringinn í Skagafirði á neyðarbílum sínum og kynntu þá fyrir heimamönnum á Hólum, á Hofsósi og í Varmahlíð.

Ungliðahreyfing Rauða kross deildarinnar var með sviðsetningu á ýmsum áverkum slysa og sá Karl Lúðvíksson skyndihjálparfrömuður og leiðbeinandi um að farða 7 stelpur úr ungliðahreyfingunni og svo útskýrðu hann og Jón Þorsteinn fyrir gestum og gangandi hvernig veita ætti skyndihjálp hjá hverjum sjúklingi. Einnig fór Karl yfir helstu viðbrögð á slysstað og hvernig ætti að veita neyðarhjálp. Að mati Gunnars Rögnvaldssonar tókst dagurinn með sóma og voru þátttakendur ánægðir eftir að hafa þvegið af sér sár dagsins og tilbúnir til að taka þátt í næstu slysasviðsetningu. Vill Rauði krossinn koma á framfæri miklum þökkum til Björgunarsveitarinnar Skagfirðings og sjúkraflutningsmönnunum fyrir aðstöðu og aðstoð.