22. maí 2007 : Skagfirskur sjálfboðaliðadagur

Þann 22 maí s.l. hélt stjórn Skagafjarðardeildar lokahóf fyrir sjálfboðaliða í Skagafirði. Þar grilluðu Gestur gjaldkeri og Marinó Þórisson af stakri snilld skagfirskt lambakjöt ofaní sjálfboðaliða deildarinnar. Tæplega 60 sjálfboðaliðar mættu úr heimsóknarþjónustunni, ungmennahreyfingunni og fjöldahjálpinni og gæddu sér á matnum. Þessi siður er komin á hjá deildinni að ljúka starfsárinu að vori með grilli til að þakka fyrir vel unnin störf sjálfboðaliða hjá deildinni. Vonast stjórn deildarinnar svo til að sjá sem flest andlit aftur að hausti og hefja þá en öflugra starf en áður.

3. maí 2007 : Þjóðir Skagafjarðar

Rauði krossinn stóð að samkomu á Sæluviku Skagfirðinga sem bar yfirskriftina Þjóðir Skagafjarðar. Markmiðið var að sýna fram á hversu margir íbúar Skagafjarðar eru af erlendu bergi brotnir og hversu fjölbreytt þjóðerni er um að ræða. Jafnframt var markmiðið að kynnast hvert öðru og opna augun fyrir áhugaverðri menningu hvers annars. Fólk kom með rétti frá sínu heimalandi, muni og myndir og sumir tróðu upp með myndasýningu, söng og spili. Það var gaman að sjá hve fólk lagði sig fram við þetta allt.

Samkoman var haldin á Kaffi Krók. Skemmst er frá því að segja að mjög vel tókst til. Um hundrað manns mætti og voru þjóðernin 15 fyrir utan Íslendinga. Stemningin var góð. Fólk mætti með jákvætt hugarfar, bæði forvitið og opið. Gleði og ánægja ríkti. Þannig viljum við hafa það!