22. okt. 2007 : Sjálfboðaliðar Skagafjarðar

Í tilefni af lokadegi í landsátaki sjálfboðaliðasöfnunar  Rauða krossins, voru sjálboðaliðar deildarinnar mjög áberandi í Skagfirðingabúð sl.laugardag. Voru þar kynnt 5 helstu verkefnin sem deildin fer fyrir. Heimsóknarvinir,  Neyðarvarnir, Föt sem framlag, Þjóðir Skagafjarðar og Tómstundahópur Rauða krossins.  Hátt á annan tug sjálfboðaliða komu og spjölluðu við gesti og gangandi frá  kl 10 til 14.  „Það er búið að vera fínt rennsli á fólki hérna til okkar og margir áhugasamir um verkefnin sem við erum að kynna hér“, sagði Gunnar Rögnvaldsson formaður Skagafjarðardeildar sem gekk á milli manna og útbreiddi boðskap  Rauða krossins.

22. okt. 2007 : Kvenfélag Sauðárkróks gaf Skagafjarðardeild RKÍ stóla

Á fundi hjá Kvenfélagi Sauðárkróks sem haldinn var síðastliðinn miðvikudag afhenti Kvenfélagið, Skagafjarðardeild Rauða krossins nýja stóla til að nota á skrifstofu sinni. Það var Branddís Benediktsdóttir formaður félagsins sem afhenti Soffíu Þorfinnsdóttur stólana. „Kærar þakkir,  þessi gjöf kemur sér mjög vel í því öfluga starfi sem fer fram hjá Skagafjaðardeild“, sagði Soffía sem hélt stutta kynningu ásamt Jóni Þorsteini Sigurðssyni, á starfi Rauða krossins í Skagafirði. Kvenfélag Sauðárkróks hefur undanfarin ár styrkt starf Rauða krossins með því að hlúa að starfi deildarinnar og bæta þá aðstöðu sem félagið hefur komið sér upp í húsnæði sínu að Aðalgötu 10b, á Sauðárkróki.

16. okt. 2007 : Prjónað til góðs

Prjónakaffi hóf göngu sína hjá Skagafjarðardeild í dag.  Komu þrír frumkvöðlar því á með Ágústu Sigurbjörgu í fararbroddi. Í tilefni kynningarviku komu þær saman og ætla að koma aftur saman n.k. fimmtudag frá kl 14:00 - 16:00 til að kynna þetta fyrir þeim sem vilja prjóna til góðs. „Við komum hér saman til að prjóna til góðs og sjalla saman um daginn og veginn, ætlum við svo að vera með bakkelsi meðferðis í vetur þegar við hittumst,“ segir Ágústa sem sat í sófanum í Rauða krossinum á Aðalgötu 10b og prjónaði barnatrefil.

3. okt. 2007 : Heimsóknavinanámskeið í Skagafrði

Námskeið fyrir heimsóknavini var haldið hjá Skagafjarðardeild Rauða krossins á þriðjudaginn. Góður andi var á námskeiðinu og hugur í konunum. Heyrðist á þeim að þær hefðu mikla ánægju af að vera í verkefninu og góð tilfinning að geta látið eitthvað gott af sér leiða og fá það margfalt til baka.

Heimsóknaþjónusta hefur verið starfrækt hjá deildinni frá því árið 2001 í samvinnu við Sauðárkrókskirkju og Fjölskylduþjónustu Skagafjarðar.

Sjálfboðaliðar heimsækja gestgjafa og veita félagsskap eftir samkomulagi, svo sem að spjalla eða lesa. Hlutverk þeirra er fyrst og fremst að veita félagsskap, nærveru og hlýju.