31. des. 2008 : Nýárskveðjur

Skagafjarðardeild Rauða krossins óskar öllum skagfirskum sjálfboðaliðum farsældar og gleði á nýju ári með von um heillaríkt komandi ár.

Stjórn Skagafjarðardeildar Rauða krossins.

25. des. 2008 : Jóla kveðjur

Stjórn Skagafjarðardeildar Rauða kross Íslands óskar Skagfirðingum gleðilegra jóla.

25. des. 2008 : Góð gjöf fyrir jólin

Sóknarnefnd Glaumbæjarkirkju afhenti á dögunum Skagafjarðardeild Rauða krossins peningagjöf að upphæð kr. 100.000.- Ósk gefenda var að upphæðinni yrði varið til að styrkja þá sem eru þurfandi nú fyrir jólin. Það hefur verið árvisst að Rauði krossinn styrki þá sem eiga fjárhagslega erfitt með að halda jólin hátíðleg. Búast má við að fleiri þurfi að leita til okkar nú en áður og því er gjöfin frá Glaumbæjarkirkju þörf og ákaflega vel þegin.

8. nóv. 2008 : Rauði krossinn á góða að

Þessir duglegu strákar úr 6. bekk Árskóla héldu tombólu á dögunum til styrktar Rauða krossi Íslands.

Alls söfnuðu kapparnir kr. 24.478.- sem þeir afhentu RKÍ í gær. Vel gert hjá þeim!

5. okt. 2008 : Færri Gengu til góðs en fengu frábærar móttökur

Um 1000 sjálfboðaliðar Gengu til góðs í gær með Rauða krossinum til styrktar verkefnis um sameiningu fjölskyldna í Kongó sem sundrast hafa vegna stríðsátaka. Reynslan hefur sýnt að það þarf að minnsta kosti um 2000 manns til að ganga í öll hús á landinu, og því er ljóst að einungis tókst að ná til um 50% landsmanna í söfnuninni í gær. Rauði krossinn er mjög þakklátur þeim sem gáfu af tíma sínum í gær og Gengu til góðs, og vill einnig þakka þeim sem tóku á móti sjálfboðaliðunum og gáfu í söfnunina.

Rauði krossinn hvetur þá sem ekki gafst tækifæri til að gefa í söfnunina í gær að hringja í söfnunarsíma Rauða krossins 903 1010, 903 3030 og 903 5050. Þá dragast frá kr. 1000 kr., kr. 3000 kr. eða kr. 5000 frá næsta símreikningi. Símarnir verða opnir út þessa viku.

24. sep. 2008 : Sjálfboðaliðar óskast til að Ganga til góðs laugardaginn 4. október

Rauði krossinn þarf að minnsta kosti 2,500 sjálfboðaliða til að Ganga til góðs laugardaginn 4. október  svo að hægt sé að ná til allra heimila á landinu.

Við hvetjum fólk til að sameinast í hressandi göngu og stuðningi við gott málefni. Aðeins er gert er ráð fyrir að hver gangi í um 1-2 klukkustundir, eða eins lengi og hver og einn óskar.
 
Söfnunarféð rennur óskert til verkefnis Rauða krossins um sameiningu fjölskyldna í Kongó.  Það er því sérlega vel til þess fallið að Íslendingar noti tækifærið til að sameinast um að ganga til góðsog leggja sitt að mörkum til að sameina fjölskyldur á átakasvæðum.

15. sep. 2008 : Blóðgjöf er lífgjöf - Gefum Skagfirskt blóð

Á morgun þriðjudag og á miðvikudaginn mun Blóðbankabíllinn koma og vera hjá Skagfirðingabúð á Sauðárkróki. Viljum við hvetja þig til að kíkja við og gefa af þér þar sem það er lífsnauðsinlegt fyrir okkur öll að gefa blóð.

 

Einnig hvetjum við fyrirtæki að senda starfsmenn sína í bílinn til að gefa blóð.

 

Þar sem bílinn tekur ekki marga í einu er gott að dreifa því yfir daginn að koma og mun hann vera með opið frá 11:30 til 18:00 fyrri daginn og frá 9 til 11:30 á miðvikudeginum þannig að nægur tími er til stefnu.

 

Fjölgum skagfirskum hetjum og gefum blóð.

19. ágú. 2008 : Mikið fjör á sumarmóti Ungmennahreyfingarinnar

Ungmennahreyfing Rauða krossins stóð fyrir bráðskemmtilegu sumarmóti fyrir unglinga dagana 13.-17. ágúst á Löngumýri í Skagafirði. Leiðbeinendur voru sjálfboðaliðar frá Ungmennahreyfingu Rauða krossins og systursamtökum á Norðurlöndum.

Dagskrá mótsins einkenndist bæði af gamni og alvöru. Unnið var með viðhorf þátttakenda til ýmissa hópa með námsefninu Viðhorf og virðing og var mikið lagt upp úr hvers kyns leikjum og útiveru. Á Löngumýri er prýðileg sundlaug og var hún óspart notuð til að fá útrás eftir annir dagsins. Hápunktarnir voru flúðasigling niður Vestari Jökulsá og klettasig á Hegranesi.

Síðasta kvöldið var svo haldin mikil kvöldvaka með varðeldi, gítarspili, söngvakeppni og öðru sem einkennir allar sumarbúðir.

 

30. júl. 2008 : Allir taka þátt á sumarbúðum Rauða krossins

Sumarbúðum Rauða krossins á Löngumýri í Skagafirði fyrir fatlaða lauk um helgina en þær voru nú haldnar tíunda sumarið í röð. Einnig hafa verið reknar sumarbúðir í Stykkishólmi síðustu fjögur sumur.

 

18. jún. 2008 : Minjagripir úr perlum og steinum

Þessar dugmiklu Hólastelpur seldu minjagripi sem þær bjuggu til sjálfar úr perlum, steinum og skeljum. Söfnuðu þær heilmiklum peningum eða samtals kr. 2432 auk 5 evra! Ákváðu þær að gefa Rauða krossinum það sem safnaðist. Stúlkurnar heita: Anna Guðrún, Margrét Helga og Sigríður Vaka.Skagafjarðardeild Rauða krossins þakkar þeim innilega fyrir framtakið.

3. jún. 2008 : Prjónahópar á Norðurlandi hittast

Þátttakendur í prjónahópum deilda Rauða krossins á Norðurlandi brugðu undir sig betri fætinum og hittust til að bera saman prjónauppskriftir. Ferðalagið byrjaði með því sjálfboðaliðar í prjónahóp Skagafjarðardeildar fóru til Akureyrar þar sem félagar þeirra buðu þeim upp á hádegismat.
 
Síðan var ferðinni heitið til Dalvíkur og dvalarheimilið Dalbær sótt heim. Þar hafa íbúar prjónað til góðs í vetur og gefið til verkefnisins „Föt sem framlag”. Eftir heimsóknina á Dalbæ fengu hóparnir leiðsögn um Dalvík og Svarfaðardal, en Símon Páll og Rögnvaldur Skíði sögðu frá staðháttum og ábúendum.

31. maí 2008 : Kiwanis afhentir Tómstundahópnum styrk

Á Kiwanisþingi sem haldið er á Sauðárkróki þessa helgi afhenti styrktarsjóður umdæmisþingsins Tómstundahóp Rauða kross Íslands styrk að upphæð 100.000 kr.  Voru það Kristján Heiðar, Sólveig Harpa og Jón Þorsteinn sem tóku á móti styrknum. Er það venja hjá þinginu að afhenda góðu málefni á því svæði sem þingið er haldið hverju sinni styrk sem þennan.

5. mar. 2008 : Fjöldahjálparstjórar á Norðurlandi æfa hópslys

Námskeið fyrir fjöldahjálparstjóra var haldið í safnaðarheimilinu á Sauðárkróki síðastliðinn laugardag. 24 þátttakendur víðsvegar af Norðurlandi hlýddu á fyrirlestra og fóru í verklegar hópslysaæfingar.

Í upphafi námskeiðsins var farið í æfingu sem gengur út á að þátttakendur raða sér upp í hlutverk sem þarf að sinna samkvæmt SÁBF kerfinu. Gekk æfingin út á að rúta hafði oltið og þurftu allir sem á námskeiðinu voru að setja sig í þær aðstæður að um neyðartilfelli væri að ræða. Skemmst er að segja frá því að allt gekk upp þó mikill hamagangur væri á tímabili við að koma slösuðum á viðeigandi staði.

29. feb. 2008 : Sjálfboðaliði heiðraður

Aðalfundur Skagafjarðardeildar var haldinn s.l. miðvikudag í húsnæði deildarinnar. Ágætis mæting var eða um 16 félagar.

Auk venjulegra aðalfundarstarfa kom góður gestur Paola Cardenas frá landsskrifstofu Rauða krossins með fræðandi erindi um málefni innflytjenda, auk þess sem hún kynnti ný verkefni félagsins Sjálfboðaliðinn Ragnar Berg Andrésson var heiðraður fyrir vel unnin störf í þágu deildarinnar. Hann hefur um áraraðir selt dagatöl í Skagfirðingabúð fyrir hver jól frá Þroskahjálp ásamt skyndihjálpartöskum. Tók Ragnar við viðurkenningu ásamt nýrri Rauða kross peysu sem hann getur notað í óeigingjörnu sjálfboðastarfi fyrir deildina.

18. jan. 2008 : Skagafjarðardeild bregst við vegna bruna á Kaffi Krók

Skagafjarðardeild Rauða krossins var kölluð út af Brunavörnum Skagafjarðar um klukkan 1:30 í nótt vegna bruna á Kaffi Krók. Tveir sjálfboðaliðar deildarinnar voru mættir í húsnæði deildarinnar, sem er við hlið Kaffi Króks, tveimur mínútum síðar. Húsið var opið fyrir slökkviliðsmönnum og öðrum sem á þurftu að halda.
 
Stanslaus umferð fólks var fram yfir klukkan 5 þegar slökkvistarfi var formlega hætt.

Neyðarskipulag deildarinnar virkaði vel. Auðveldlega gekk að útvega nauðsynjar þar sem N1 og Bakarí Sauðárkróks brugðust vel við  þegar leitað var til þeirra.