18. ágú. 2010 : Mikilvægir þátttakendur í hjálparstarfi Rauða krossins

Þær Ásta Lilja Gísladóttir og systurnar Sigrún og Guðrún Vernharðsdætur , taldar frá vinstri á myndinni,  söfnuðu saman dóti í herbergjunum sínum og héldu tombólu.  Þetta dót voru þær hættar að leika sér með, en töldu að einhverjir aðrir mundu vilja nota það.  Reyndist þetta rétt hjá þeim því tombólan gekk vel og þær færðu Skagafjarðardeild Rauða krossins alla peningana, sem reyndist vera kr. 5.500,-

Þær tóku fram að þær vildu að peningarnir færu í hjálpargögn fyrir fólkið í Pakistan sem er í nauðum statt vegna mikilla flóða.. Rauði kross Íslands er einmitt með söfnun í gangi og  þakkar vinkonunum fyrir hugulsemina.

Tombólubörn á Íslandi leggja sitt af mörkum við hjálparstarf með því að gefa Rauða krossinum það fé sem safnast þegar þau halda tombólur.

Árlega halda um fjögur hundruð börn tombólur og safna allt að milljón krónum sem varið er til að aðstoða börn víðsvegar í heiminum sem eiga um sárt að binda.

18. ágú. 2010 : Góðar gjafir

Birta Rós Daníelsdóttir, Anna Margrét Hörpudóttir, Sólveig Birta Eiðsdóttir, Ástrós Baldursdóttir, Björg Þóra Sveinsdóttir, Hallgerður Erla Hjartardóttir og Ásthildur Ómarsdóttir héldu tombólu og afhentu Skagafjarðardeild Rauða krossins afraksturinn, sem reyndist vera kr. 9.458,-

Deildin þakkar stúlkunum dugnaðinn, og áætlar að nota peningana til að kaupa garn fyrir konurnar í Prjónahópnum, svo þær geti haldið áfram að útbúa fatapakka fyrir smábörn í Afríku.

16. júl. 2010 : Fjölbreytt dagskrá á sumarbúðum Rauða krossins

Sumarbúðir Rauða krossins fyrir fatlaða einstaklinga sem haldnar eru á Löngumýri og í Stykkishólmi ljúka sínu þriðja tímabili í dag. Sumarbúðirnar eru byggðar upp á skemmtun, fræðslu og afþreyingu þar sem allir fá að njóta sín miðað við fötun hvers og eins.

Dagskráin er fjölbreytt. Auk skoðunarferða er farið á hestbak, í flúðasiglingar og sjóstangaveiði, golf, júdó, leiki og kennd er skyndihjálp, auk fræðslu um Rauða krossinn. Flesta daga er farið í sund og kvöldvaka með þátttöku sumarbúðagesta hvert kvöld.

29. jún. 2010 : Safna fyrir börn á Haítí

Þorbjörg Ingvarsdóttir og Kamilla Brá Brynjarsdóttir efndu til tombólu við Hlíðarkaup á Sauðarkróki og söfnuðu á tveimur tímum 8.156 krónum fyrir hjálparstarf Rauða krossins.

Þeir peningar sem tombólubörn safna á árinu fer til hjálpar börnum á Haítí. Rauði krossinn þakkar þessum duglegu stelpum innilega fyrir framtakið og fallega hugsun.

16. mar. 2010 : Vel heppnaður Aðalfundur

Aðalfundur deildarinnar var haldinn síðastliðinn miðvikudag við góðar undirtektir en vel var mætt á fundinn og einn sá fjölmennasti Aðalfundur á norðurlandi vestra.

Þökkum við fyrirlesurunum kærlega fyrir upplýsandi og skemmtilega fyrirlestra og jafnframt er nýliðum í stjórn boðnir velkomnir til starfa hjá deildinni.

Hér fyrir neðan má svo sjá árskýrsluna og framkvæmdaáætlunina fyrir árið 2009.

8. mar. 2010 : Aðalfundur 10. mars kl.20.00

Aðalfundur

Hinn árlegi aðalfundur Skagafjarðardeildar Rauða kross Íslands verður haldinn í húsnæði deildarinnar, Aðalgötu 10b Sauðárkróki            miðvikudaginn 10. mars kl. 20.00

Almenn aðalfundarstörf og fræðsluerindi

Hörður Sveinsson félagi í Björgunarsveitinni Ársæli og meðlimur í Íslensku alþjóðabjörgunarsveitinni mun mæta á fundinn og segja frá ferð Íslendinganna til Haíti og björgunarstörfum þar ytra.

Hlín Baldvinsdóttir sendifulltrúi mun halda erindi og sjálfboðaliðar á vegum verkefnisins Evrópa unga fólksins sem dvalist hafa í Skagafirði undanfarna tvo mánuði og munu verða hér fram á haust segja frá störfum sínum.

kaffiveitingar verða í boði

Verið velkomin, félagar jafn sem annað áhugafólk,

Stjórn Rauða kross Íslands Skagafjarðardeild

19. jan. 2010 : Sjálfboðaliðar Rauða krossins pökkuðu 1.000 skyndihjálpargögnum til Haítí

Deildir á höfuðborgarsvæðinu brugðust skjótt við í gærkvöldi og virkjuðu sjálfboðaliða til að pakka skyndihjálpargögnum fyrir fórnarlömb jarðskjálftans á Haítí.  Þrátt fyrir mjög stuttan fyrirvara mættu yfir 50 sjálfboðaliðar í Rauðakrosshúsið til að útbúa pakkana sem settir voru saman samkvæmt lista frá Alþjóða Rauða krossinum.  

„Sjálfboðaliðarnir sýndu með þessu í verki samstöðu sína með sjálfboðaliðum Rauða krossins í Haítí sem staðið hafa vaktina sólarhringum saman frá því jarðskjálftinn reið yfir," segir Kristján Sturluson, framkvæmdastjóri Rauða kross Íslands. „Það var ekki ljóst fyrr en eftir klukkan fimm í gær að nægar birgðir af þessum sjúkragögnum væru til í landinu til að uppfylla skilyrði Alþjóða Rauða krossins, og því gífurlega ánægjulegt að sjá hversu margir sáu sér fært að taka þátt í þessu verkefni."

14. jan. 2010 : Íslenskur sendifulltrúi á leið til Haítí í dag

Hlín Baldvinsdóttir, með reyndustu sendifulltrúum Rauða kross Íslands, heldur til Haítí í dag.  Hún mun gegna stöðu fjármálastjóra í sérfræðingateymi Alþjóða Rauða krossins sem meta mun þörf á aðstoð næstu vikna og mánaða. Hlín hefur unnið að fjölmörgum verkefnum fyrir Rauða kross Íslands og Alþjóða Rauða krossinn frá árinu 1998, jafnt í þróunarstarfi sem neyðaraðgerðum í kjölfar hamfara.

Tíu neyðarteymi Alþjóða Rauða krossins eru nú á leið á vettvang. Þar er um að ræða sérfræðinga í dreifingu hjálpargagna, heilsugæslu, uppsetningu neyðarskýla, birgðaflutningum og hreinsun vatns, auk sérhæfðra lækna og hjúkrunarfræðinga sem munu setja upp tjaldsjúkrahús í höfuðborginni Port-au-Prince.

13. jan. 2010 : Alþjóðleg neyðarteymi og hjálpargögn á leiðinni til Haítí

Tíu alþjóðleg neyðarteymi Rauða krossins eru nú á leið til Haítí, en samgöngur þangað eru að mestu leyti rofnar landleiðis og í lofti. Alþjóða Rauði krossinn hefur sent átta manna matsteymi á vettvang, og níu neyðarteymi frá Evrópu og Norður-Ameríku sem skipuð eru heilbrigðisstarfsfólki og sérfræðingum til að mynda í hreinsun vatns, byggingu neyðarskýla, birgðaflutningum og fjarskiptum.

Sjálfboðaliðar Rauða krossins á Haítí vinna nú í kapp við tímann við björgun og aðhlynningu slasaðra. Rauða kross félög á svæðinu hafa einnig sent sjálfboðaliða og hjálpargögn áleiðis til Haítí. Erfiðlega reynist að fá upplýsingar af hamfarasvæðunum þar sem símalínur eru slitnar í sundur og rafmagnslaust er að mestu.