Rauði kross Íslands 80 ára

Marinó Þorisson

10. des. 2004

Karl les upp úr sögu Rauða krossinsFöstudaginn 10 des. 2004 átti Rauði kross Íslands 80 ára afmæli.
Skagafjarðardeild var með opið hús og sérstaka dagskrá í tilefni dagsins. 
Dagskráin samanstóð af mörgum stuttum og fróðlegum erindum, söng- og tónlistaratriði og nýtt kynningarmyndband Rauða krossins var sýnt meðan gestir voru að koma sér fyrir.
Starfsmaður deildarinnar og sjálfboðaliði, Marinó Þórisson, bauð fólk velkomið og kynnti dagskrána.
Formaður, Karl Lúðvíksson, fór nokkrum orðum um stofnun Rauða kross Íslands og Skagafjarðardeildar.  Fram kom að Sveinn Björnsson fyrsti forseti lýðveldisins var fyrsti formaður Rauða kross Íslands og ásamt fleirum aðalhvatamaður að stofnun landsfélagsins.  Einnig kom fram að Skagafjarðardeild var stofnuð 11. júní 1940 af þeim Helga Konráðssyni sóknarpresti, Jóni Þ. Björnssyni skólastjóra og Torfa Bjarnasyni héraðslækni.
Eitt af markmiðum með stofnun Skagafjarðardeildar var að koma á fót ungliðastarfi og hinn 24. nóvember 1944 varð sá draumur að veruleika er ungliðahreyfingin Árvakur var stofnuð á 40 ára afmæli þáverandi formanns. Aðalhvatamaður að stofnun ungliðadeildar var Jón Þ. Björnsson.
Rúmlega 500 félagsmenn eru nú í deildinni og starfsemin mjög fjölþætt.
Ingunn Kristjánsdóttir í stjórn ungliðahreyfingarinnar söng nokkur jólalög við undirleik Geirmundar Valtýssonar á harmoniku og það kunnu áheyrendur vel að meta.
Fjórar stúlkur frá ungliðahreyfingunni þær Fjóla, Guðný , Ingun og Anna komu upp og sögðu frá sjálfboðastarfi sínu á vegum deildarinnar m.a. fjáröflunarleiðum til mannúðarmála og kynningarstarfi.
Eftir áramótin mun ungliðahreyfingin vera með opið hús á föstudögum frá klukkan 20.00 – 23.00 og er öllum velkomið að kíkja inn.  Nánari tilhögun auglýst síðar.
Gestur Þorsteinsson gjaldkeri flutti fróðlegt erindi um sögu sjúkrabílanna í Skagafirði.
Í fundargerð aðalfundar 20.mars 1944 er getið um fyrsta sjúkrabílinn.  Fram kom að   Knattspyrnufélagið Máninn lagði til stofnfé upp í bílinn eða krónur. 145,03  sem ánafnað var deildinni eftir að knattspyrnufélagið var leyst upp.
Soffía Þorfinnsdóttir ritari sagði frá starfi heimsóknarvinanna en það er samstarfs-verkefni deildarinnar, Kirkjunnar og félagsþjónustu Skagafjarðar.
Heimsóknarvinir heimsækja aldrað fólk í sveitarfélaginu sem kemst lítið út á meðal annarra og vilja félagsskap.
Gísli Árnason form. neyðarnefndar deildarinnar sagði frá nýuppfærðri neyðaráætlun fyrir Skagafjörð.  Fram kom að fjöldahjálparstöðvar í Skagafirði eru fimm talsins: Fjölbrautaskólinn á Sauðárkróki, Varmahlíðarskóli, Akraskóli, Grunnskólinn á Hofsósi og Sólgarðar í Fljótum.
Jón Ormar Ormsson flutti mjög skemmtilegt erindi sem fjallaði meðal annars öfluga fjáröflun á Öskudegi 1943 en þá söfnuðust 214 krónur með merkjasölu Rauða krossins en það var mikill peningur og sýndi því góðan hug Króksara til deildar sinnar það árið.
Kaffi og kökur voru á boðstólnum og gaman er að geta þess að 2 nýir félagar gengu í deildina.

Hér getur að líta myndir frá afmælinu.