Takk fyrir allt sem ég hef

30. apr. 2007

Hlutverkaleikurinn Á flótta var leikinn á Norðurlandi dagana 17. og 18. mars í samstarfi Ungmennadeildar Reykjavíkurdeildar og Skagafjarðardeildar Rauða kross Íslands við áfanga FLÓ 101 í Fjölbrautaskóla Norðurlands vestra.

Skólinn gaf nemendum sínum eina einingu fyrir að taka þátt og skrifa greinagerð um leikinn og upplifun sína á meðan á honum stóð.

Ingunn Kristjánsdóttir, Ingvi Aron og  Hekla Sigurðardóttir skrifuðu stórgóðar lýsingar og skemmtilegt er að sjá hvað frásagnirnar eru ólíkar

Höfundur: Ingunn Kristjánsdóttir
Laugardaginn 17. mars síðastliðinn upplifði ég svolítið stórskemmtilegt sem fékk mig einnig til þess að sjá hversu gott ég hef það í rauninni. Ég er að tala um áfanga í FNV sem heitir fló 101 og er samstarfsverkefni Rauða krossins og Fjölbrautarskólans. Áfanginn er byggður á leik sem heitir Á FLÓTTA og er hlutverkaleikur þar sem þátttakendurnir leika flóttamenn og fá ný nöfn, kennitölu fjölskyldu og einnig þjóðerni.

Leikurinn byrjaði í Sómalíu þar sem við þurftum að byrja á því að safna fullt af eyðublöðum til þess að geta farið úr landinu og þar sáum við hversu spilltu umhverfi flóttamenn þurfa að þvælast í til þess að verða sér út um þau gögn sem þeir þurfa til að komast úr landi. Sum eyðublöðin voru frekar furðuleg en við fengum að vita það eftir leikinn að öll áttu þau við rök að styðjast einhverstaðar í heiminum. Áður en við náðum að safna þeim fjölda eyðublaða sem þurfti réðust hermenn á bygginguna sem við vorum í svo við neyddumst til að leggja á flótta.

Þá tók við löng ganga þar sem við vissum ekki hvert við vorum að fara eða hvort eða hvenær við fengjum eitthvað að borða. Svo þegar við vorum búinn að ganga í eitthvað um þrjár klst. (tekið skal fram að allt tímaskyn var horfið) komum við að landamærum þar sem leitað var á okkur og allt sem hefði geta komið að einhverjum notum, matur eða eitthvað var fjarlægt og að sjálfsögðu var tækifærið notað til þess að gera lítið úr okkur. Svo vorum við rekin áfram eftir stutt og niðurlægjandi stopp á landamærunum. Þaðan hélt gangan áfram og við komust í flóttamannabúðir sem hétu No Hope (enginn von) og í raun var það réttnefni en í þessu stóra kalda tjaldi var okkur skipað að sitja, halda hópinn og tala ekki við neinn og ekki hafa neinn hávaða. Þarna fengum við að borða en það var nú ekki mikið skammtað fyrir hvern og einn. Eftir að hafa borðað smá þá náðu sum okkar aðeins að blunda eða þar til var ráðist á búðirnar og við þurftum að yfirgefa þær og leggja aftur á flótta. Þá tók við enn ein gangan og við hétum því þegar við komum í síðustu búðirnar þar sem við sváfum á hálmi innan um kindur að ef við þyrftum að ganga meira þá gæfumst við upp.

En þegar þar var komið sögu vorum við kominn á Ísland. Í fjárhúsunum sváfum við í einhverja stund eða þar til lögreglan kom og handtók fólkið sem við vorum hjá og við vorum flutt í flóttamannabúðir Rauða kross Íslands þar sem við tóku yfirheyrslur og svefn. Ekki fengu allir hóparnir hæli en einhverjir þó.

Þetta er reynsla sem ég tel að allir hafi gott af að upplifa. Maður er uppgefinn, pirraður en samt svo þakklátur fyrir eitthvað sem manni er alveg sama um venjulega eins og til dæmis smá hrísgrjón. Í þessum leik sér fólk að það eru ekki allir hlutir jafn sjálfsagðir og við teljum þá vera. Það er fullt af flóttamönnum sem ferðast langar leiðir og jafnvel labba í mörg ár, við lifðum sem flóttamenn í 24 klukkustundir og ég var uppgefin!!

Höfundur: Ingvi Aron
Áður en leikurinn hófst óttaðist ég helst að hann yrði líkamlega erfiður. Kuldi, næringarleysi og þreyta voru aðal áhyggjuefnin. Ég undirbjó mig því vel í samræmi við það, var í hlýjum vindstopp flíkum, var með föt til skiptanna og laumaði smá Orku í bakpokann.

Í byrjun leiksins voru leikreglurnar kynntar, við fengum hlutverk og fjölskyldumeðlimi, öll gögn (sem voru ekki mörg) og fengum að kynna okkur sögu fjölskyldunnar. Þennan sólahring sem við vorum á ferli lentum við í alls kyns hindrunum og erfiðleikum. Verst fannst mér þó að horfa á eftir matnum mínum í hendurnar á bláókunnugu fólki og ég sá fyrir mér heilan sólahring án matar.

Í pappírsvinnuhluta leiksins lentum við í alls kyns ógöngum þar sem við vorum svikin, rænd og okkur mútað. Þegar út var komið þurftum við að treysta bláókunnugum manni fyrir því að koma okkur á áfangastað. Á landamærum lentum við í alls kyns vandræðum þ.á.m. pyntingum og niðurlægingu. Á ákveðnu tímabili í leiknum komum við í Rauða kross flóttamannabúðir þar sem komið var fram við okkur eins og manneskjur og fengum við örfáar hrísgrjónaskeiðar og að hvílast um stund. Þaðan þurftum við að flýja og við tók löng og ströng ganga í vonsku veðri þar sem við vorum undir stöðugri ógnun. Að henni lokinni fengum við að hvílast örlítið í fjárhúsi, en Adam var ekki í Paradís. Lögreglan ruddist inn og fór með okkur í aðstöðu fyrir ólöglega innflytjendur. Þar tók við endalausar skýrslugerðir og spurningaflóð

Eftir að hafa gengið í gegnum þessa mögnuðu lífsreynslu komst ég að því hvað við höfum það gott hér á Íslandi. Þetta var stórgóður, en erfiður leikur þar sem hugsunin um að gefast upp gerðist áleitin hvað eftir annað.

Höfundur: Hekla Sigurðardóttir
Helgina 17.-18. mars tók ég þátt í skemmtilegum hlutverkaleik í Skagafirði sem haldinn var á vegum Rauða krossins. Leikurinn ber nafnið ,,Á flótta” og snýst um að leika flóttafólk í einn sólarhring til að setja okkur í þeirra spor.

Við mættum í bóknámshús FNV á hádegi á laugardegi og fengum í upphafi peninga og eitt vegabréf á mann. Við áttum að vera að flýja úr landi og reyna að komast til Íslands. Þeim sem tóku þátt var skipt í fjölskyldur sem stóðu saman og hjálpuðust að næstu 24 tímana í bæði myrkri og birtu á göngu og á hlaupum og alltaf í algerri óvissu. Í leiknum var manni falið að vera í hlutverki karls eða konu barns eða fullorðins. Ég hét Sabri Khalio 13 ára frá Kismaya í S-Sómalíu. 

Svo var að reyna að komast úr landi !  Við lentum í miklu skrifræði og eyðublaða vandamálum. Hremmingarnar voru rétt að byrja því á vegabréfaskrifstofunni kom ,,hreingerningakona” (karl klæddur sem hreingerningarkona) og gerði sér lítið fyrir og hellti djús yfir öll vegabréf fjölskyldunnar minnar ,,óvart”. Loks komumst við af stað og tók nú við mikil ganga. Ég held að ég hafi aldrei borðað svona mikinn snjó því við fengum ekki mikið vatn að drekka. Orðið matartími missti líka alla merkingu og það var bara hvort, sem átti við í því samhengi. Þessa klukkutíma reyndum við sannarlega á takmörk okkar því auðvitað getur maður ekki bara sótt sér mat í ískápinn eða skrúfað frá krananum þegar maður er á flótta.

Síðar um daginn fengum við að fara í flóttamannabúðir og vera þar í einhvern tíma en ég veit ekki hve lengi því við vissum aldrei hvað klukkan var. Þar fengum við svo smá að borða og áfallahjálp frá stórundarlegum ,,barnasálfræðingi”. 

Í lok leiksins má segja að ég hafi verið alveg dofin af hungri, þorsta, þreytu og orkuleysi.  Maður finnur til vanmátar því að þó að þetta sé bara leikur þá er til fólk sem þarf að ganga í gegnum sömu hlutina langtímum saman í alvöru. Maður finnur líka fyrir vanmætti því staðan er svo vonlaus, þú getur ekkert nema halda áfram og treyst því fólki sem vísar veginn. Leikurinn snýst í sjálfu sér ekki um að komast fyrst á áfangastað heldur, um að komast í gegnum hann, halda hópinn við fjölskylduna og upplifa raunir flóttamans í 24 tíma.

Við fengum að kynnast þakklæti fyrir það smæsta svo sem bara að fá að stoppa og hvíla sig í smá stund. Eða fá að leggjast niður í svefnpoka inni í tjaldi þar sem kannski fjórar aðrar fjölskyldur eru. Eða að leggjast örmagna í svefnpokann sin á gólfið í fjárhúsi. 

,,Á flótta” er bæði eitt af því erfiðasta og skemmtilegasta sem ég hef gert og vil ég hvetja öll til að taka þátt næst.