Rauði krossinn tók þátt í Multi Musica

Sólrún Harðardóttir

5. nóv. 2009

 Á fyrsta vetrardag var haldin skemmtileg hátíð í Miðgarði.

Forsprakkinn var Ásdís Guðmundsdóttir söngkona. Dagskráin var helguð konum og tónlist þeirra víðsvegar úr heiminum. Lögin sem flutt voru komu frá Mexíkó, Kúbu, Argentínu, Chile, Grænhöfðaeyjum, Portúgal, Túnis, Indlandi, S- Afríku, Benin og Rúmeníu. Falleg og glaðleg lög sem voru flutt vel og af mikilli innlifun og gleði.

Rauði krossinn tók þátt í verkefninu með því að sjá um matarsmakk í hléinu frá ýmsum heimshornum. Fólk af erlendu bergi brotið sem býr í Skagafirði var fengið til liðs og töfraði það fram fjölbreytta rétti af ýmsum toga. Markmiðið með að taka þátt í skemmtuninni var að vekja athygli á Rauða krossinum og hlutverki hans í að styðja við innflytjendur. Virk þátttaka útlendinga í atburði sem þessum getur slegið á fordóma og stuðlað að gagnkvæmri aðlögun auk þess sem samskipti af þessu tagi er dýrmæt fyrir sálina! Sólrún Harðardóttir sem situr í stjórn Skagafjarðardeildar ávarpaði samkomuna og skipulagði "hléið". Þátttakendur voru frá 9 löndum: Ástralíu, Bandaríkjum Norður Ameríku, Danmörku, Frakklandi, Ítalíu, Suður Afríku, Sviss, Svíþjóð og Þýskalandi.

Óhætt er að segja að vel hafi tekist til. Tónleikarnir voru frábærir og hléið setti punktinn yfir i-ið!

Multi Musica eru:

Ásdís Guðmundsdóttir, söngur og ásláttur Sorin Lazar, gítar og flauta, tónlistarstjórn Jóhann Friðriksson, trommur Rögnvaldur Valbergsson, hljómborð,gítar og harmonikka Sigurður Björnsson, bassi Sveinn Sigurbjörnsson, bongó og trompet Íris Baldvinsdóttir, bakraddir og ásláttur Jóhanna Marín Óskarsdóttir, bakraddir, strengir og ásláttur Ólöf Ólafsdóttir, bakraddir og ásláttur Þórunn Valdimarsdótir, bakraddir og ásláttur

Fulltrúar frá UNIFEM og Félagi kvenna af erlendum uppruna mættu einnig og kynntu starfsemi sína.