Konur verða fyrir barðinu á stríði.

17. sep. 2004

Þessi grein er tekin úr fræðsluriti Rauða krossins sem gefið var út árið 2003 og dreift var í skóla.

Konur verða fyrir barðinu á stríði og taka þátt í stríði. Þær missa ástvini, flýja heimili sín, verða fyrir ofbeldi og er haldið föngnum. Þær bera líka vopn og berjast. Hvort sem konur eru í hlutverki geranda eða þolanda í stríði njóta þær sérstakrar verndar að alþjóðalögum.


Þær aðstæður og þau vandamál sem konur þurfa að búa við vegna stríðsátaka hafa hlotið sífellt meiri athygli á síðustu árum, bæði innan og utan Alþjóðasambands Rauða krossins og Rauða hálfmánans. Á ráðstefnu samtakanna árið 1996 var því heitið að „… gripið verði til róttækra aðgerða til að veita konum þá vernd og aðstoð sem þær eiga rétt á samkvæmt alþjóðalögum og landslögum“. Auk þess hafa málefni þeirra verið rædd meðal stjórnvalda víða um heim.

Alþjóðaráð Rauða krossins ákvað í febrúar 1998 að athuga sérstaklega stöðu kvenna sem hafa lent í stríðsátökum, beint eða óbeint. Árið eftir kynnti Alþjóðasamband Rauða krossins og Rauða hálfmánans aðgerðaáætlun og fór fram á það við Alþjóðaráðið að það setti fram tillögur um hvernig ætti að mæta þörf kvenna og stúlkubarna fyrir vernd og umönnun. Í kjölfarið ákvað Alþjóðaráðið að gera ítarlega rannsókn þar sem meðal annars er kannað persónulegt öryggi, kynferðislegt ofbeldi, brottflutningur, aðgangur að heilbrigðisþjónustu, mat og húsaskjóli, og að auki ýmsir aðrir þættir sem minna er rætt um, meðal annars hvarf ættingja og áhrif þess á þá sem lifa af, en þar eru konur í miklum meirihluta.

Markmið þessarar rannsóknar voru að greina þarfir kvennanna, athuga hvernig alþjóðleg mannréttindalög og flóttamannalög mæta þeim þörfum og komast að lokum að niðurstöðu um hvað best væri að gera. Meginmarkmiðið var að bæta aðstoð við konurnar og auka verndarmátt laganna með því að gera þá sem aðstoðina veita næmari fyrir þörfum hvers einstaklings.

Hinn 17. október 2001 gaf Alþjóðaráðið út skýrslu byggða á rannsókninni og bar hún nafnið Konur og stríð.  Athugun um áhrif stríðsátaka á konur (e. Women Facing War. A study on the impact of armed conflict on women). Í skýrslunni er rækilega gerð grein fyrir aðstæðum kvenna sem hafa lent í stríðsátökum, og koma upplýsingarnar beint frá konunum sjálfum. Skýrslan byggist að stórum hluta á reynslu starfsmanna Rauða krossins um heim allan. Það sem kemur fram í þessu fræðsluriti er að mestu leyti byggt á skýrslunni.

Skýrslan hefur þegar orðið til þess að Rauði krossinn hefur skipulagt aðgerðir til úrbóta. Breytingar til batnaðar eru háðar því að stjórnvöld, önnur félagasamtök og hersveitir bregðist við, vakni til vitundar um þarfir kvenna og tryggi að farið sé að lögunum sem vernda þær. 

 
Hvernig upplifa konur stríð?
Konur upplifa stríð á mismunandi hátt, allt frá því að vera skotmark sem óbreyttir borgarar til þess að vera beinir þátttakendur sem hermenn. Stríðsátök þýða aðskilnað frá maka og fjölskyldu, menn missa ástvini og lífsviðurværi, og hætta eykst á kynferðislegu ofbeldi, meiðslum og jafnvel dauða. Stríð neyðir konur til að sinna áður óþekktu hlutverki og það reynir mjög á þær í daglegri lífsbaráttu. Allir verða að bera ábyrgð á því að bæta aðstæður kvenna á stríðstímum, og það þarf að hvetja konurnar sjálfar til að verða virkari við að leita aðstoðar.

Stríð hefur annarskonar áhrif á karla en konur og oft eru þarfir konunnar vanræktar. Að greina þarfir kynjanna getur dregið úr þeim skaða sem stríð veldur bæði körlum og konum.

Konur eru ekki bara fórnarlömb heldur líka þátttakendur. Sumar taka beinan þátt í bardögum, aðrar veita hermönnum húsaskjól og mat.

Hér fara á eftir helstu dæmi þess hvernig stríð snýr að konum:

1. Sem hluti af her
„Mér fannst að mér bæri skylda til að hefna föður míns og frænda og þeirra sem voru drepnir þegar stríðið hófst.“ Þetta eru orð konu sem tók beinan þátt í hernaði. Konur hafa tekið þátt í stríði frá ómunatíð en heimsstyrjöldin síðari markaði þó þáttaskil. Konur voru í varaliði breska hersins og hins þýska en beinir þátttakendur í sovéska hernum, og er talið að um 8% af herafla Sovétmanna hafi verið konur. Síðan hefur þáttur kvenna í stríðsátökum farið vaxandi.
Nokkur dæmi eru um að konur séu vitorðsmenn þeirra sem standa fyrir voðaverkum í styrjöld og jafnvel gerendur, og má meðal annars nefna stríðsglæpina í Rúanda. Konur veita einnig mikinn stuðning, bæði andlegan og efnislegan. Þær skjóta oft skjólshúsi yfir hermenn, ýmist vegna þess að þær styðja málstað þeirra eða þá tilneyddar. Þetta gerir konur jafnvel enn berskjaldaðri en karla því að kona í hópi með hermönnum er oftast talin vera að aðstoða andstæðinginn, jafnvel þó að hún sé þar gegn vilja sínum.

Mannúðarlög veita konum sem taka beinan þátt í stríðsátökum vernd. Þær eiga rétt á sömu læknishjálp og andlegum stuðningi og karlmenn og bannað er að nota vopn sem gera meiri skaða og valda meiri meiðslum en nauðsynlegt er talið. Þá eiga allir hermenn rétt á mannúðlegri meðferð ef þeir falla í hendur andstæðingunum.

2. Í baráttu fyrir friði
Konur hafa verið í framvarðarsveit í friðarbaráttu. Þær vilja ekki að eiginmenn þeirra, feður, synir eða bræður taki þátt í stríðsátökum og mótmæla einnig þarflausu ofbeldi. Mótmælahreyfingar sem eingöngu eru skipaðar konum hafa stundum verið áberandi. Þessa barátta sýnir konum að þær þurfa ekki að líta svo á að þær séu áhrifalausar gagnvart átökum heldur geta þær átt mikinn hlut að varanlegum friði. Þær geta einnig hjálpað til við að ná sáttum, sérstaklega ef þær hafa orðið fyrir því að missa ástvin í stríðsátökum, og komið í veg fyrir ofbeldi í framtíðinni.

3. Konur verða berskjaldaðar
Konur hafa yfirleitt verið settar í flokk með börnum þegar stríð geisar en karlar settir undir sama hatt rétt eins og þeir séu allir þátttakendur. Þá gleymist að margir karlmenn eru í hópi óbreyttra borgara og margar konur taka beinan þátt í stríðsrekstri. Þá hafa konur aðrar þarfir og hlutverk en börn.

En eru konur berskjaldaðri en karlar í stríðsátökum? Þessu má svara bæði játandi og neitandi. Til þess er engin sérstök ástæða en samt er staðreyndin sú að konur eru líklegri til að verða fyrir mismunun, lenda í fátækt eða öðrum þjáningum sem stríðsátök leiða af sér, ekki síst ef ójöfnuður einkenndi sambúð kynjanna í því samfélagi sem stríðið bitnar á. Konur eru í sérstakri hættu ef litið er á þær sem tákn um menningu samfélags síns, eða sem uppalendur næstu kynslóðar, og einnig ef þær hlíta ekki siðareglum samfélagsins, til dæmis með því að búast á annan hátt en hefðbundið er, ganga ekki með blæju eða klippa hárið stutt þvert á venjur. Slík atriði geta leitt til þess að konur verði sérstakt skotmark.

Konur eru í auknum mæli að verða skotmark í hernaði. Þetta fer þó eftir aðstæðum hverju sinni. Konur og stúlkubörn eru hins vegar mun líklegri til að verða fyrir kynferðislegu ofbeldi en karlmenn og drengir.

4. Hlutverk kvenna breytist
Stríðsátök umbylta hlutverki hvers og eins innan fjölskyldunnar og venjulega gefst ekkert ráðrúm til undirbúnings. Þegar fjölskyldur sundrast taka konurnar við nýju hlutverki. Við stríðsátök er algengt að eiginkonan verði eina fyrirvinna fjölskyldunnar vegna þess að eiginmaðurinn er í hernaði á fjarlægum slóðum, stríðsfangi, horfinn eða fallinn. Konurnar verða að bera alla ábyrgð á börnum og öldruðu fólki á heimilinu þegar karlarnir eru fjarri. Þær þurfa að sjá um býli og skepnur og viðskipti, og koma fram út á við sem fulltrúi fjölskyldunnar. Til að geta þetta þarf konan að vera fljót að aðlagast breytingum, hafa mikið sjálfstraust og sýna þrautseigju við að byggja fjölskylduna upp að nýju.

Þetta hlutskipti getur líka veitt konum nýtt tækifæri. Stundum taka þær sér vinnu utan heimilisins í fyrsta sinn og við það breytist hlutverk þeirra í samfélaginu. Erfiðleikar vegna stríðsátaka hafa einnig orðið til þess að konur sameinast um markmið sín með góðum árangri. Alltof víða markast staða kvenna þó eingöngu af hjónabandinu. Þar sem kostir á mannsefni eru ekki alltaf margir (vegna þess hve fáir karlmenn eru) getur hjónaband haft ýmsa ókosti. Að stríðinu loknu vilja karlarnir síðan fá störf sín og stöðu á ný og allt á aftur að verða eins og það var.

Aukinn ótti við árásir veldur því oft að konan ákveður að flýja með börn sín. Af þessum sökum eru konur og börn í miklum meirihluta meðal flóttamanna.

5. Missir ástvina
Ekkjum fjölgar við stríðsátök. Mannsmissirinn getur haft veruleg áhrif á afkomu fjölskyldunnar hafi ekkjan ekki tök á að afla sjálf svipaðs lífsviðurværis.

Þegar eiginmaðurinn hverfur hins vegar og ekkert er vitað um afdrif hans er eiginkonan í enn verri stöðu. Hún nýtur ekki opinberrar viðurkenningar sem ekkja. Mikið öryggisleysi fylgir því að vita ekki um örlög eiginmannsins, og á ákveðinn hátt er tilfinningauppnám eiginkonu hins horfna erfiðara en það hlutskipti ekkjunnar að fylgja ástvini sínum til grafar og syrgja hann. Börnin alast upp föðurlaus og konan getur ekki gifst aftur.

Gefið hefur verið út myndband um konur í stríði. Hægt er að kaupa það hjá Rauða krossinum eða horfa á það á vef.