12. apr. 2013 : Að aðalfundi loknum

Aðalfundur Rauða krossins í Mosfellsbæ gekk vel og voru nokkrar breytingar á stjórninni. En stærsta breytingin hjá deildinni er sú að Erla Traustadóttir, starfsmaður til 3ja ára, réri á önnur mið og eru henni þökkuð vel unninn störf.

6. mar. 2013 : Aðalfundi frestað vegna veðurs

Aðalfundi Rauða krossins í Mosfellsbæ sem auglýstur var í kvöld kl. 20, verður frestað vegna veðurs.  Nýr fundatími er þriðjudagurinn 12. mars kl. 20.

Á dagskrá eru öll venjuleg aðalfundarstörf.  Fundurinn er öllum opinn, en sjálfboðaliðar og félagsmenn eru sérstaklega hvattir til að mæta.

1. mar. 2013 : Lífshlaup og ávextir

Nú er Lífshlaupinu 2013 lokið.  Það var vaskur hópur gesta Rauðakrosshússins í Mosó sem tók þátt í hlaupinu og stóð sig með eindæmum vel.  Liðsmenn nýttu sér þetta sem hvatningu til að hreyfa sig að lágmarki 30 mínútur á dag og náðu nokkrir að skrá inn hreyfingu alla 21 daga keppninnar.  Liðið lenti í 88. sæti af 165 liðum vinnustaða með 10-29 starfmenn og telst það nokkuð góður árangur.

14. feb. 2013 : Góðar viðtökur í Kjarnanum

Skyndihjálparhópurinn Skíma bauð upp á fræðslu og kennslu í endurlífgun í Kjarnanum sl. mánudag í tilefni af 112 deginum.

Viðtökur voru mjög góðar og margir sem notuðu tækifærið við að æfa sig í hjartahnoði, meðan aðrir vildu frekar fylgjast með og spyrja hópinn spjörunum úr.

Þökkum öllum þeim sem kíktu við.  Það var virkilega gaman að sjá hvað Mosfellingar eru áhugasamir um skyndihjálp.

11. feb. 2013 : Endurlífgun - sýning og kennsla í Kjarnanum Mosfellsbæ

Í tilefni af 112-deginum verða sjálfboðaliðar í Skyndihjálparhóp Rauða krossins með sýningu og kennslu í endurlífgun í Kjarnanum Mosfellsbæ mánudaginn 11. febrúar kl. 17:30-18:30.  Allir geta lent í því að koma á vettvang þegar einhver slasast eða veikist alvarlega og því mikilvægt að vita hvernig á að bregðast við slíkum aðstæðum og geta veitt fyrstu aðstoð.  Mosfellingar eru hvattir til að líta við og fá upplýsingar og leiðsögn í endurlífgun frá skyndihjálparleiðbeinendum Rauða krossins.  Allir fá tækifæri til æfa blástur og hnoð.

6. feb. 2013 : Lífshlaupið hafið í Mosfellsbæ

Líkt og undanfarin ár taka gestir Rauðakrosshússins Þverholti 7, stjórn Mosfellsbæjardeildar, sjálfboðaliðar og starfsmenn nú þátt í vinnustaðakeppni Lífshlaupsins.

Keppnin stendur frá 6.-26. febrúar og er hugsuð sem hvatning til fólks að hreyfa sig meira.  Til að fyrirbyggja allan misskilning þá er ekki um hlaupakeppni að ræða - heldur er hægt að skrá alla hreyfingu (dans, sund, göngu, skíði, hlaup o.s.frv.) sem varir í 30 mínútur eða meira á dag.

Áhugasamir geta skráð sig til leiks á netinu (www.lifshlaupid.is) og gengið í liðið okkar með því að velja "vinnustaðinn" Rauðakrosshúsið í Mosó og "Lið" MosóKross, eða haft samband við Erlu í síma 564-6065 eða netfangi [email protected]

Upplýsingar um hvernig ganga á í lið má finna hérna.

18. jan. 2013 : Margt spennandi á dagskrá Mórals

Dagskrá Mórals (13-16 ára ungmennastarf Mosfellsbæjardeildar) er nú komin á síðu ungmennastarfsins hérna.  Ýmislegt spennandi verður á dagskránni þessa önnina, skyndihjálparkennsla, hópaverkefni, heimsóknir, þátttaka í Evrópuviku gegn kynþáttamisrétti og margt fleira. 

Ungmennastarfið er öllum opið og kostar ekkert.  Leiðbeinendur eru allir sjálfboðaliðar og hafa tekið þátt í ungmennastarfi deildarinnar í mörg ár.  Allt ungmennastarf Rauða krossins fylgir Barnaverndarreglum félagsins sem má finna hérna.

Nánari upplýsingar um Móral og ungmennastarf Mosfellsbæjardeildar má fá í síma 564-6035 og netfangi [email protected]

10. jan. 2013 : Allt að skríða í gang aftur

Árið 2013 fer ljúflega af stað hér í Mosfellsbænum.  Sjálfboðaliðar eru hægt og sígandi að taka aftur til starfa og nýjir að bætast í hópinn.  Við hvetjum alla þá sem vilja kynna sér þau verkefni sem í boði eru að hafa samband við deildina, því alltaf er hægt að bæta við aukahöndum í flotta sjálfboðaliðahópinn okkar.  Rauðakrosshúsið verður áfram opið þrjá daga í viku og er hægt að sjá dagskrána hér undir liðnum "Á döfinni" hér til hægri.

20. des. 2012 : Jólalkveðja og jólalokun

Stjórn og starfsfólk Rauða krossins í Mosfellsbæ óskar sjálfboðaliðum sínum og velunnurum gleðilegra jóla og farsæls komandi árs.  Þökkum ómetanlegt samstarf og velvild á árinu sem er að líða.  Sérstakar þakkir til þeirra sem studdu við og tóku þátt í landssöfnun Rauða krossins, Göngum til góðs nú í haust.

Rauðakrosshúsið Þverholti 7 lokar föstudaginn 21. desember og opnar aftur föstudaginn 4. janúar. Hægt er að hafa samband í netfangi [email protected]

12. des. 2012 : Ósjálfrátt, hláturjóga og jólafrí

Það var líflegt í Rauðakrosshúsinu í Mosfellsbæ í gær.  Auður Jónsdóttir rithöfundur mætti með alla fjölskylduna til að lesa fyrir gesti hússins úr bók sinni Ósjálfrátt, við góðan fögnuð viðstaddra.  Eftir hádegisverð með jólalegu ívafi kom Ásta Valdimarsdóttir hláturjógaleiðbeinandi og stjórnaði hláturstund, sem gaf viðstöddum aukinn kraft og gleði.

6. des. 2012 : Notalegt aðventukaffi í Mosó

Í gær var alþjóðadagur sjálfboðaliðans.  Af því tilefni bauð Mosfellsbæjardeild sínum frábærum sjálfboðaliðum í aðventukaffi í Rauðakrosshúsinu Þverholti, enda seint fullþakkað fyrir þeirra ómetanlega framlag til verkefna Rauða krossins.  Hafdís Huld og Alistair komu og léku nokkur falleg lög af nýju plötunni sinni - Vögguvísur.  Takk fyrir komuna kæru sjálfboðaliðar og velunnarar og takk Hafdís Huld og Alistair fyrir að fleyta okkur öllum svo notalega og ljúflega inn í aðventuna!

5. des. 2012 : Til lukku með daginn kæru sjálfboðaliðar!

Árið 1985 tilnefndu Sameinuðu þjóðirnar 5. desember sem alþjóðlegan dag sjálfboðaliða.  Tilgangurinn var að vekja athygli á framlagi sjálf boðaliða til samfélagsins.  Rauði krossinn er fjöldahreyfing, borin upp af starfi sjálfboðaliða um allan heim sem hafa það að markmiði að aðstoða þar sem þörfin er mest.

27. nóv. 2012 : Brjóstsykurgerð Mórals

 

Það er orðin föst venja að krakkarnir í Móral búi til brjóstsykur fyrir jólin, enda fátt ljúffengra en heimagerður brjóstsykur.  Sem fyrr var lakkrísbrjóstsykurinn vinsælastur, en einnig var blandaður peru-, epla- og jarðaberjabrjóstsykur.  Rauðakrosshúsið angar nú af brjóstsykri og eru gestir og gangandi hvattir til að kíkja við sem fyrst til að bragða á dásemdunum.

16. nóv. 2012 : Pökkuðu 60 ungbarnapökkum

Það var mikill hamagangur í vikunni þegar sjálfboðaliðar í verkefninu Föt sem framlag pökkuðu ungbarnapökkum fyrir þurfandi börn og fjölskyldur í Hvíta Rússlandi.  Alls kláruðust 60 pakkar, en í hverjum pakka eru 2 peysur, buxur, 2 pör af sokkum, 2 samfellur, teppi, handklæði og húfa - svo það eru ófá handtökun á bak við hverjum pakka.

5. nóv. 2012 : Duglegar vinkonur

Þessar flottu stelpur gengu með tombólu í hús hér í Mosfellsbænum í sumar og söfnuðu 7.609 krónum sem þær færðu Rauða krossinum að gjöf.  Á myndinni má sjá Matthildi Ágústsdóttir og Aldísi Leoní Rebora, en Arnrúnu Ósk Magnúsdóttur vantar á myndina.

2. nóv. 2012 : Halloween partý Mórals

Á mánudag var Halloween partý hjá Móral - 13-16 ára ungmennastarfi Rauða krossins í Mosfellsbæ.  Búið var að breyta Rauðakrosshúsinu í Hryllingshús,  allir mættu í búningum og að sjálfsögðu voru hrollvekjandi veitingar í boði.  

15. okt. 2012 : Falleg og hlý gjöf

Prjónaglaður Mosfellingur sem er alltaf með eitthvað gott á prjónunum færði Rauða krossinum í Mosfellsbæ þessa fallegu og hlýju gjöf nú á dögunum.

Við þökkum kærlega fyrir þessa góðu gjöf, sem kemur í virkilega góðar þarfir og verður pakkað í ungbarnapakka sem sendir verða til Hvíta Rússlands á næstunni.  Í hverjum ungbarnapakka eru 2 peysur, buxur, húfa, 2 sokkapör, handklæði og teppi svo það eru mörg handtök á bak við hverjum pakka.  Vetrarkuldar eru miklir í Hvíta Rússlandi, en þar getur orðið allt að 30° frost þegar kaldast er.  Húsnæði eru líka köld og því ómetanlegt fyrir þurfandi foreldra ungra barna að fá send hlý föt sem þessi.

15. okt. 2012 : Kjósarsýsludeild heitir nú Rauði krossinn í Mosfellsbæ

Til að fylgja eftir nafnabreytingu landsfélagsins, hefur Kjósarsýsludeild Rauða kross Íslands hlotið nafnið Rauði krossinn í Mosfellsbæ.  Deildin verður áfram til húsa í Þverholti 7, Mosfellsbæ, starfsemi og verkefni óbreytt og starfssvæðið víðfemt sem fyrr, en það nær yfir Mosfellsbæ, Kjalarnes og Kjós.

11. okt. 2012 : Kjósarsýsludeild 30 ára

Miðvikudaginn 6. október 1982 var stofnfundur Rauða kross deildar Kjósarsýslu haldinn í Hlégarði.  Á fundinn mættu 42 aðilar sem samþykktu samhljóða tillögu Hilmars Sigurðssonar og Árna Pálssonar um stofnun Rauðakross deildar „fyrir Mosfellssveit, Kjalarnes- og Kjósarhreppa“.

1. okt. 2012 : Hrefna og Signý í alþjóðlegum vinabúðum í Austurríki

Þær Hrefna Björk Aronsdóttir og Signý Björg Valgarðsdóttir lögðu land undir fót í sumar og tóku þátt í alþjóðlegum vinabúðum í Langenlois á vegum austurríska Rauða krossins.  Þangað mættu um 50 ungmenni frá 17 löndum víðsvegar úr heiminum til að fræðast um fjölmenningu, fordóma, mannréttindi og mikilvægi friðar heima og heiman.

19. sep. 2012 : Mórall 10 ára

Nú eru liðin 10 ár síðan 13-16 ára ungmennastarfi KJósarsýsludeildar var ýtt úr vör. Til að fagna þessum tímamótum komu nokkrir núverandi og fyrrverandi leiðbeinendur saman í Rauðakrosshúsinu Þverholti 7, ásamt velunnurum og fylgifiskum í spjall og dísæta súkkulaðitertu.

Myndir úr afmælinu má finna á Facebooksíðu deildarinnar hér.

12. sep. 2012 : Rauðakrosshúsið lokað fimmtudaginn 14. september

Vegna sumarleyfa verður Rauðakrosshúsið lokað 14. og 15. september.  Opnar aftur þriðjudaginn 18. september.

30. ágú. 2012 : Ungmennastarfið í Mosfellsbæ byrjar aftur 3. september

Vetrarstarf Mórals hefst 3. september.  Í Móral hittast 13-16 ára ungmenni einu sinni í viku og fræðast um Rauða krossinn og vinna ýmis skemmtileg verkefni því tengdu.  Margt spennandi er á döfinni í vetur og er dagskrá haustannarinnar komin inn á síðu Mórals hérna.  Krakkarnir ætla m.a. að fræðast um skyndihjálp, flóttamenn og alnæmi, auk þess að taka þátt í landssöfnuninni Göngum til góðs, læra að búa til ís og brjóstsykur.

29. ágú. 2012 : Allt á fullu í sumar

Í dag kom prjónahópur Rauða krossins í Mosfellsbæ aftur saman eftir sumarfrí.  Þó sjálfboðaliðar í verkefninu föt sem framlag hafi verið á faraldsfæti í sumar, voru prjónar og heklunálar síður en svo lagðir til hliðar.  Þannig urðu ófáar peysur, sokkar og húfur til á ferðum um þjóðvegi landsins.  Meðfylgjandi mynd sýnir brot af því sem þessir vösku sjálfboðaliðar gerðu í sumar.

20. ágú. 2012 : Dagskrá í Rauðakrosshúsinu í Mosfellsbæ byrjar í næstu viku

Rauðakrosshúsið í Þverholti 7 verður opið í vetur á þriðjudögum og fimmtudögum frá kl. 10-15 og miðvikudögum frá kl. 13-16.  Þar verður boðið upp á dagskrá sem er öllum opin, en atvinnuleitendur eru sérstaklega hvattir til að koma.  Á staðnum er rjúkandi kaffi, nettengdar tölvur og góður félagsskapur.  Húsið var lokað í sumar, en dagskrá fer aftur í gang þriðjudaginn 25. september.  Dagskráin fer rólega af stað, en nánari upplýsingar má finna hérna.

6. júl. 2012 : Sumarlokun Kjósarsýsludeildar

Rauðakrosshús Kjósarsýsludeildar lokar 9. júlí vegna sumarleyfa.  Húsið opnar aftur fimmtudaginn 9. ágúst kl. 10.

Hægt er að hafa samband í tölvupósti í netfangi [email protected] og verður fyrirspurnum svarað við fyrsta tækifæri.

22. maí 2012 : Pökkun ungbarnapakka

Í gær pökkuðu sjálfboðaliðar í verkefninu För sem framlag 56 ungbarnapökkum, sem sendir verða í hjálparstarf til Hvíta Rússlands á næstunni.   Mikil vinna liggur að baki hverjum pakka, því í honum er 1 teppi, 1 handklæði, 2 samfellur, 2 peysur, 2 sokkar, peysa og buxur.  Þar sem veður geta orðið ansi köld í Hvíta Rússlandi eru fötin að sjálfsögðu höfð hlý og góð.  

Það var svo mikill kraftur í prjónakonunum að það náðist ekki að festa þær á filmu fyrr en sest var niður í kaffi.  Nú eru sjálfboðaliðarnir komnir í sumarfrí með prjónadokkurnar.  Vikuleg prjónasamvera er því einnig komin í frí fram á haust.

21. maí 2012 : Óvissuferð Mórals

Í síðustu viku fór Mórall - ungmennastarf Kjósarsýsludeildar - í óvissuferð.  Krakkarnir mættu spenntir með svefnpokana sína í Þverholtið og voru ekki alveg viss hvort gista ætti í Rauðakrosshúsinu eða fara eitthvað út fyrir bæinn.  Þegar hópnum var smalað upp í bílana voru þau samt nokkuð viss um að förinni væri heitið eitthvað út á land - sem reyndist svo auðvitað rétt hjá þeim.  Brunað var vestur í Búðardal þar sem Rauðakross deildin tók vel á móti hópnum. 

11. maí 2012 : Skyndihjálparkennsla hjá Móral

Mórall - ungmennahópur Kjósarsýsludeildar - fékk góða heimsókn nú í vikunni þegar sjálfboðaliðar úr Skímu, skyndihjálparhóp RKÍ, komu á fund hjá þeim.  Krakkarnir fræddust um endurlífgun, eitranir og ýmislegt fleira.  Allir fengu að æfa blástursaðferðina og að setja slasaðan einstakling í læsta hliðarlegu.  Það var gaman að sjá hvað krakkarnir tóku virkan þátt í kennslunni og spurðu margra góðra spurninga sem Skíma svaraði eftir föngum.

24. apr. 2012 : Sumarið á næsta leiti – Gleðidaganámskeið framundan

Barnavinafélagið Sumargjöf styrkir Rauða krossinn um 500.000 kr. til að auðvelda deildum að bjóða fjölskyldum uppá hið vinsæla námskeið Gleðidaga, þátttakendum að kostnaðarlausu. 

Námskeiðin Gleðidagar, hvað ungur nemur gamall temur, eru fyrir aldurshópinn 7 – 12 ára og hafa verið haldin á vegum Rauða krossins hvert sumar eftir efnahagshrunið eða frá árinu 2009.

11. apr. 2012 : Börn og umhverfi

Skráning er nú hafin á námskeiðið Börn og umhverfi.  Námskeiðið er fyrir ungmenni fædd árið 2000 og fyrr sem gæta yngri barna.

Á námskeiðinu er farið í ýmsa þætti er varða umgengni og framkomu við börn, aga, umönnun og hollar lífsvenjur, leiki og leikföng.  Einnig er lögð áhersla á slysavarnir og algengar slysahættur í umhverfinu.  Námskeiðið er 16 kennslustundir, fer fram í Þverholti 7 og kostar 8.500 krónur.   Innifalið: Námsgögn og hressing.

2. apr. 2012 : Mokuðu snjó til styrktar Rauða krossinum

Þeir Tómas Valgeir Kristjánsson, Þorsteinn Jónsson og Jóel (ekki á mynd) færðu Rauða krossinum 2.030 krónur sem þeir fengu fyrir að moka snjó hér í Mosfellbæ.  Við þökkum þessum duglegu strákum kærlega fyrir þeirra framlag!

28. mar. 2012 : Hélt nokkrar tombólur

Þessi duglegi strákur, Jakob Lipka Þormarsson hélt nokkrar tombólur hér í Mosfellsbæ og safnaði 6.831 krónum sem hann færði Rauða krossinum að gjöf. 

Við þökkum honum kærlega fyrir framlagið sem rennur í sameiginlegan sjóð sem nýttur verður í verkefni fyrir börn og ungmenni.

26. mar. 2012 : Vitundarvakningarviðburður gegn kynþáttamisrétti

Ungmenni úr starfi Rauða krossins í Hafnarfirði, Kópavogi, Kjósarsýslu og Borganesi tóku þátt í viðburði í Smáralind á föstudaginn síðastliðinn. Var hann liður í Evrópuviku gegn kynþáttamisrétti sem haldin er ár hvert og er 21.mars alþjóðadagur gegn kynþáttamisrétti. Í ár var slagorðið "Opnaðu augun! Fordómar leynast víða". Var því ætlað að vekja athygli á því að birtingarmyndir kynþáttamisréttis eru ólíkar eftir löndum og menningarsvæðum en kynþáttamisrétti nær yfir vítt svið - allt frá fordómum til ofbeldisverka.

5. mar. 2012 : Ný stjórn Kjósarsýsludeildar

Aðalfundur Kjósarsýsludeildar RKÍ var haldinn í Rauðakrosshúsinu Þverholti 7 þann 1. mars.  Á dagskrá voru öll venjuleg aðalfundarstörf, en einnig flutti Páll H. Zóphóníasson fyrrverandi tæknifræðingur Vestmannaeyja skemmtilega og fróðlega frásögn af eldgosinu 1973 og sagði frá aðkomu Rauðakrossins að hjálparstarfinu í landi og úti í eyju.

1. mar. 2012 : Ný stjórn URKÍ-Kjós

Aðalfundur ungmennadeildar Kjósarsýsludeildar (URKÍ-Kjós) var haldinn á þriðjudag.  Eftir öll venjuleg aðalfundarstörf voru markmið árisins 2012 rædd og er margt spennandi á döfinni hjá hópnum.  Ungmennadeildin var stofnuð í mars 2010 og gegndi Ágústa Ósk Aronsdóttir formennsku fyrstu tvö árin. Nýr formaður er Arnar Benjamín Kristjánsson, en aðrir stjórnarmenn eru:  Sturla Friðriksson ritari, Hilmar Loftsson gjaldkeri, Þrúður Kristjánsdóttir varaformaður og Hekla Sigurðardóttir sem vantar á myndina.

22. feb. 2012 : Fjörugur öskudagur

Fjölmargar furðuverur heimsóttu Rauðakrosshúsið í Þverholti í dag og buðust til að syngja fyrir sælgæti.  Ekkert sælgæti var á boðstólnum, en felstir sungu samt og fengu endurskinsmerki eða blöðru að launum.

Myndir af nokkrum gestanna má finna á Facebook-síðu deildarinnar hérna.

8. feb. 2012 : Sjálfboðaliðar Kjósarsýsludeildar heimsækja írska Rauða krossinn

Í framhaldi af velheppnaðri Íslandsdvöl Meave O´Reilly sjálfboðaliða frá Cork nú á dögunum, fóru tveir sjálfboðaliðar úr ungmennadeild Kjósarsýsludeildar til Írlands að kynna sér starf Rauða krossins þar.

Þau Arnar Benjamín Kristjánsson og Þrúður Kristjánsdóttir skoðuðu aðalskrifstofuna í Dublin og hittu þar Donal Forde, framkvæmdastjóra írska Rauða krossins.  Donal kvaðst mjög ánægður með þetta samstarf milli landanna.

1. feb. 2012 : Gestir Rauðakrosshússins í Mosó taka þátt í Lífshlaupinu

Lífshlaupið hefst í dag og ætla gestir Rauðakrosshússins í Mosó að taka þátt í vinnustaðakeppninni.  Í fyrra voru þrjú lið skráð til leiks hjá Rauðarkosshúsinu og stefnt á að ná því einnig í ár.  Lífshlaupið er heilsu- og hvatningarverkefni ÍSÍ þar sem allir landsmenn eru hvattir til þess að huga að sinni daglegu hreyfingu og auka hana eins og kostur er.   Þátttakendur skrá niður alla hreyfingu (sund, ganga, skíði, hlaup, dans o.s.frv.) - minnst 30 mínútur á dag.  Skipta má tímanum upp í nokkur styttri tímabil yfir daginn, en samanlagt verður hreyfingin að ná að lágmarki 30 mínútum.

1. feb. 2012 : Námskeið í skyndihjálp og sálrænum stuðningi

Hafin er skráning á námskeið hjá Kjósarsýsludeild í sálrænum stuðningi I og skyndihjálp 4 stundir.  Námskeiðin verða haldin í Rauðakrosshúsinu Þverholti 7 þann 15. og 21. febrúar.  Nánari upplýsingar og skráning undir viðburðaryfirlitinu hér hægra megin á síðunni.

26. jan. 2012 : Hlý og falleg föt fyrir neyðaraðstoð í Hvíta Rússlandi

Það er alltaf jafn gaman þegar sjálfboðaliðar í verkefninu Föt sem framlag koma saman og pakka fallegu fötunum sem þeir hafa saumað, prjónað eða heklað.  Í gær var pakkað fyrir 0-12 mánaða börn í Hvíta Rússlandi, en þar er mikil þörf fyrir hlýjan og góðan fatnað enda mikil fátækt í landinu og vetrarhörkur miklar.

28 pakkar voru fullkláraðir eftir daginn, en 20 aukapakkar bíða þess að fá sokkapar eða hlýja peysu og verða þá sendir af stað.

17. jan. 2012 : Mórall fær góða heimsókn frá Írlandi

Í gær fékk Mórall góða heimsókn frá Írlandi.  Maeve O'Reilly sjálfboðaliði frá Cork kom og sagði krökkunum frá Rauða kross starfinu þar.  Hjá Rauða krossinum í Írlandi er mikil áhersla lögð á skyndihjálp.  Flestir sam gerast sjálfboðaliðar þar fara beint í verkefni tengd skyndihjálp, eins og að vinna á sjúkrabíl.  Einnig er hægt að gerast sjálfboðaliði í handanuddi fyrir eldri borgara, eða húðígræðslu þar sem unnið er með fórnarlömbum bruna og einstaklingum sem vilja láta hylja tattoo og fleira.

9. jan. 2012 : Æskan og ellin

Æskan og ellin er samstarfsverkefni Kjósarsýsludeildar, Varmárskóla, Lágafellsskóla og Hlaðhamra / Eirhamra.  Verkefninu er ætlað að brúa bil milli kynslóðanna og hefur þróast út í árvissa tilhlökkun í að heimsækja og fá heimsókn frá sjöundu bekkingum skólanna á aðventunni.

6. jan. 2012 : Duglegar tombólustelpur

Þessar flottu vinkonur eru skólasystur í 4. bekk Varmárskóla.  Þær heita Elín og Kristín Hafsteinsdætur, Emelía Sól Arnardóttir og Björk Ragnarsdóttir.  Stelpurnar gengu í hús í Mosfellsbæ með tombóludót í kassa og buðu til sölu.  Alls söfnuðust 2.562 krónur sem þær færðu Rauða krossinum að gjöf.

23. des. 2011 : Lokað yfir jól og áramót

Rauðakrosshúsið Þverholti 7 verður lokað yfir jól og áramót og opnar aftur 4. janúar.

Sjálfboðaliðum, velunnurum og samstarfsaðilum sendum við okkar bestu óskir um gleðileg jól og heillaríkt komandi ár.

Stjórn og framkvæmdastjóri Kjósarsýsludeildar RKÍ.

9. des. 2011 : Sparifataskipti

Barnafata skiptimarkaður fyrir 12 ára og yngri er starfræktur í Rauðakrosshúsinu Þverholti 7 alla þriðjudaga og fimmtudaga frá kl. 10-13.  Þar er hægt að skipta heillegum fatnaði og skóm í aðrar stærðir og gerðir.  Markaðurinn er ókeypis og opinn fyrir alla.  Fram að jólum verður einnig hægt að skipta á sparifötum og skóm og því upplagt fyrir foreldra að koma og skipta þeim fötum sem börnin eru vaxin upp úr yfir í önnur sem passa betur!

5. des. 2011 : Alþjóðadagur sjálfboðaliðans

Í dag er alþjóðadagur sjálfboðaliðans.  Af því tilefni vill stjórn Kjósarsýsludeildar senda hamingjuóskir til allra sjálfboðaliða deildarinnar og þakka fyrir ómetanlegt og óeigingjarnt framlag þeirra í gegn um tíðina.

Bestu þakkir - og til lukku með daginn !

2. des. 2011 : Aðventusúpa í tilefni af alþjóðadegi sjálfboðaliðans

Sunnudaginn 4. desember kl. 11-13 verður boðið upp á rjúkandi aðventusúpu hér í Þverholtinu.  Tilefnið er alþjóðadagur sjálfboðaliðans og vonumst við til að sem flestir sjái sér fært að koma og eiga ljúfa stund með okkur áður en tekist er á við kuldabola og jólastúss.

Hlökkum til að sjá ykkur!

29. nóv. 2011 : Brjóstsykurgerð hjá Móral

Það var sætur fundur hjá Móral í gær, en þá bjuggu krakkarnir til marglitan og ljúffengan brjóstsykur.  Af mikilli hugulsemi skildu krakkarnir nokkra brjóstsykra eftir fyrir gesti Rauðakrosshússins og voru þeir bruddir með ánægju hér í morgun.

21. nóv. 2011 : Ungir heimsóknavinir

Verkefnið Ungir heimsóknavinir er unnið í samstarfi við Hlaðhamra / Eirhamra, Lágafellsskóla og Varmárskóla.  Í síðustu viku fóru vaskir krakkar úr Varmárskóla í heimsókn á dvalarheimilið, spjölluðu og sungu fyrir íbúana og kynntu sér starfsemina.

14. nóv. 2011 : Duglegur vinkvennahópur

Vinkonurnar Helena Ósk Baldursdóttir, Rebekka Rán Kristjánsdóttir, Rakel Rut Kristjánsdóttir, Viktoría Karen Ottósdóttir, Sigrún María Steinsgrímsdóttir og Líf Þórðardóttir föndruðu skraut úr pappa og seldu á Kjalarnesi.  Hver hlutur kostaði 5-10 krónur, en nokkrir gáfu þeim meira og tókst þannig að safna 9.201 krónu, svo þær hafa heldur betur verið duglegar að föndra og selja.

 

6. nóv. 2011 : Halloween partý hjá Móral

Mikið fjör var á síðasta fundi Mórals, ungmennastarfs Kjósarsýsludeildar, en þá var haldið Halloween partý. Mórall er hópur krakka 13-16 ára sem hittist alla mánudaga kl. 19:30 í Þverholti 7.   Fleiri myndir má finna á Facebooksíðu deildarinnar hérna.   Í Móral fræðast krakkarnir um Rauða krossinn, vinna verkefni tengd hugsjónum og starfi Rauða krossins um allan heim, fara í ferðir og hitta aðrar ungmennadeildir.  Það kostar ekkert að vera með okkur.  Komdu og kíktu ef þú þorir....

26. sep. 2011 : Duglegar vinkonur!

12. sep. 2011 : Dagskrá vikunnar - opið hús

Dagskrá Rauðakrosshússins eflist nú jafnt og þétt.  Listahópurinn er nú kominn með nýjan leiðbeinanda, Unni Einarsdóttur og mun hittast vikulega kl. 13 á þriðjudögum.  Ljósmyndaklúbburinn hans Róberts fer nú aftur í gang á fimmtudag og gefst þar frábært tækifæri til að fá góð ráð um hvernig best sé að fanga haustlitina.

Húsið er opið alla þriðjudaga og fimmtudaga frá kl. 10-15 og miðvikudaga kl. 13-16.   Allir viðburðir ókeypis og öllum opnir.  Atvinnuleytendur sérstaklega hvattir til að mæta.  Dagskrá næstu viku er eftirfarandi:

Þriðjudagur 13. september:
EnglandLandið, fólkið og maturinn. Borðum saman léttan hádegisverð.  Umsj. Erla Traustadóttir, kl. 11.
Myndlist - Teiknum og málum, byrjendur og lengra komnir. Leiðbeinandi. Unnur Einarsdóttir, kl. 13.
 
Miðvikudagur 14. september:
Prjónahópur - Viltu læra stjörnuhekl? Opið fyrir sjálfboðaliða í verkefninu Föt sem framlag og aðra handavinnu unnendur. Garn og prjónar á staðnum, kl. 13.
 
Fimmtudagur 15. september:
Ljósmyndaklúbbur - Lærum að taka myndir og vinna með þær. Umsj. Robert Bentia, kl. 11.
Atvinnuleit– Ferilskrárgerð, atvinnuviðtöl og fleira, kl. 13.
Pökkum ungbarnapökkum – Sjálfboðaliðar í verkefninu Föt sem framlag pakka fötum í ungbarnapakka sem sendir verða til Hvíta Rússlands í lok mánaðarins.  Allir velkomnir að leggja hópnum lið, kl. 13.

8. sep. 2011 : Matseld og lífsleikni - að bjarga sér í dagsins önn

„Matseld og lífsleikni“ er sex vikna námskeið, þrír tímar, einn dag í viku, þar sem kennt er að elda einfaldan, ódýran og hollan mat. Námskeiðið hentar þeim sem eiga erfitt með að láta enda ná saman og/eða þurfa að bæta kunnáttu sína í eldhúsinu. Verkefnið er unnið í samstarfi við Hjálparstarf kirkjunnar.

Auk matreiðslu verður fjallað um heilsu og vellíðan, svefn og fjármál. Í lok dags er sameiginlegur málsverður og borðaðar kræsingar eldamennskunnar.

7. sep. 2011 : Duglegar vinkonur

Vinkonurnar Nína Huld Leifsdóttir og Agnes Þóra Pétursdóttir héldu tombólu fyrir utan Lágafellslaug í lok ágúst.   Stelpunum fannst upplagt nota fyrstu daga skólaársins, áður en þær verða of uppteknar í íþróttum og tónlist, til að safna pening fyrir sveltandi börn í Sómalíu.

Alls söfnuðust 3.302 krónur sem þær færðu Rauða krossinum að gjöf og þökkum við þeim kærlega fyrir þeirra framlag.

Talið er að fimmti hver Sómali þjáist af alverlegum næringarskorti, svo þetta framlag vinkvennana kemur í mjög góðar þarfir.

6. sep. 2011 : Mosfellingar duglegir að safna fyrir Sómalíu

Þessi duglegu systkin, Sólveig Rósa og Sævar Atli Hugabörn, voru hugmyndarík þegar þau ákváðu leið til að safna pening fyrir hnetusmjöri handa börnum í Sómalíu.  Þau bökuðu muffins, settu 5 saman í poka og seldu nágrönnum sínum.  Kökurnar runnu greitt út og voru  krakkarnir því fljót að safna þeim 4.019 krónum sem þau færðu Rauða krossinum að gjöf.

Rauði krossinn þakkar þessum duglegu systkinum kærlega fyrir þeirra framlag sem kemur að virkilega góðum notum.

Allt tombólufé og annað fé sem börn safna og færa Rauða krossinum, rennur nú óskert til barna í Sómalíu.  Rauði krossinn veitir nú aðstoð í öllum héruðum Sómalíu, en þar hafa þurrkar geisað síðan í október á síðasta ári. Afleiðingar þeirra hafa haft geigvænleg áhrif á íbúa landsins sem eru þegar aðframkomnir vegna tuttugu ára borgarstyrjaldar í landinu.

5. sep. 2011 : Hvað er í boði? - uppfærð útgáfa

Í febrúar 2009 hófu sjálfboðaliðar Rauða krossins í samstarfi við SÍBS og Háskóla Íslands vinnu við að kortleggja upplýsingar um námskeið og frístundir sem eru ókeypis eða kosta lítið og þau úrræði sem eru í boði fyrir þá sem misst hafa vinnuna. Markmiðið var að safna upplýsingum í gagnabanka á einn stað til að auðvelda fólki að nýta þau tækifæri til afþreyingar, fræðslu og þjónustu sem standa landsmönnum til boða.

Afraksturinn var bæklingurinn „Hvað er í boði?“ sem fyrst var gefin út 31. mars 2009. Sjálfboðaliðar og starfsmenn Rauða krossins hafa séð um að viðhalda upplýsingum og uppfæra þær eftir fremsta megni. Vinnu við uppfærslu þessa misseris er nýlokið og má nálgast nýjasta „Hvað er í boði? “ bæklinginn með því að smella á meira.

5. sep. 2011 : Dagskrá vikunnar - opið hús

Rauðakrosshúsið Þverholti 7 er opið alla þriðjudaga og fimmtudaga frá kl. 10-15 og miðvikudaga kl. 13-16.   Allir viðburðir ókeypis og öllum opnir.  Atvinnuleytendur sérstaklega hvattir til að mæta.  Dagskrá næstu viku er eftirfarandi:
 
Þriðjudagur 6. september:
Kjötsúpa og spjall Njótum þess sem haustið hefur upp á að bjóða, kl. 11.
  
Miðvikudagur 7. september:
Listahópur - Málum, teiknum, þæfum – hvað sem okkur dettur í hug. Penslar og málning á staðnum, kl. 13.
Prjónahópur –Opinn prjónahópur fyrir sjálfboðaliða í verkefninu Föt sem framlag og aðra sem hafa áhuga á handavinnu og góðum félagsskap. Garn, prjónar og kennsla á staðnum, kl. 13.
 
Fimmtudagur 8. september:
Ferilskrárgerð – Aðstoð við að setja upp söluvæna ferilskráEinnig aðstoð við umsóknir á netinu, kl. 11.
AtvinnuviðtalMikilvægt er að undirbúa atvinnuviðtal vel.  Ráðleggingar og dæmi, kl. 12.

2. sep. 2011 : Fatasöfnun fyrir börn í Hvíta Rússlandi

Sjálfboðaliðar Rauða krossins hafa um nokkurt skeið útbúið ungbarnapakka sem sendir eru í neyðaraðstoð í Hvíta-Rússlandi.  Fátækt er víða mikil í Hvíta Rússlandi og veturnir langir og kaldir og því mikil þörf fyrir hlýjan og góðan fatnað. 

Nú hefur verið ákveðið að útbúa einnig pakka fyrir börn upp að 12 ára aldri og leitum við því eftir fleiri sjálfboðaliðum til að aðstoða okkur við að hekla, sauma eða prjóna hlý og góð föt fyrir þessi börn.  Sjálfboðaliðarnir hittast í Þverholti 7 alla miðvikudaga kl. 13, en einnig er hægt að útbúa fötin heima.  Garn, prjónar og efni eru á staðnum. Stefnt er að því að næsti gámur fari í lok september og vinna sjálfboðaliðar nú hörðum höndum við að fylla hann. 

Tekið er á móti notuðum fatnaði fyrir pakkana í Þverholti 7 alla virka daga.  Afgangs garn og hlý / mjúk efni eru einnig vel þegin.

Hér   og hér má sjá myndbönd frá afhendingu ungarnapakka í Hvíta Rússlandi árin 2009 og 2010.

29. ágú. 2011 : Dagskrá vikunnar - opið hús

Rauðakrosshúsið Þverholti 7 er opið alla þriðjudaga og fimmtudaga frá kl. 10-15 og miðvikudaga kl. 13-16.   Allir viðburðir ókeypis og öllum opnir.  Atvinnuleytendur sérstaklega hvattir til að mæta.  Dagskrá næstu viku er eftirfarandi:

 

Þriðjudagur 30. ágúst:

Haustsúpa og spjallHöldum áfram að skipuleggja dagskrána í vetur! kl. 11.

  

Miðvikudagur 31. ágúst:

Lista- og prjónahópur – Málum, teiknum, þæfum – hvað sem okkur dettur í hug.  Opinn prjónahópur fyrir sjálfboðaliða í verkefninu Föt sem framlag og aðra sem hafa áhuga á handavinnu og góðum félagsskap. Garn, prjónar og kennsla á staðnum, kl. 13.

 

Fimmtudagur 1. september:

Ferilskrárgerð – Aðstoð við að setja upp söluvæna ferilskráEinnig aðstoð við umsóknir á netinu, kl. 11.

Atvinnuleitatvinnuleitendur hittast, spjalla og bera saman bækur sínar, kl. 12.

 

29. ágú. 2011 : Takk takk!

Bæjarhátíðin Í túninu heima tókst afskaplega vel.  Kjósarsýsludeild vill þakka öllum þeim sem litu við í kynningarbásinn okkar í íþróttahúsinu við Varmá. 

Eins þökkum við þeim fjölmörgu sem komu í kaffi í Þverholtið á sunnudag!

26. ágú. 2011 : Í túninu heima

Kjósarsýsludeild RKÍ verður með kynningarbás á bæjarhátíðinni Í túninu heima - í íþróttahúsinu við Varmá um helgina. Húsið verður opið kl. 13-17 á laugardag og 13-16 á sunnudag og gefst þar kjörið tækifæri til að kynna sér starfsemi deildarinnar.

Í lok hátíðarinnar verður opið hús í Rauðakrosshúsinu Þverholti 7 (í rauða hverfinu!) kl. 16 á sunnudag.  Sjálfboðaliðar og velunnarar deildarinnar eru sérstaklega hvattir til að mæta í rjúkandi kaffi og með því.

Skyndihjálparhópur RKÍ mun sjá um slysagæslu á tónleikum á Miðbæjartorgi næsta laugardagskvöld. Hópurinn mun m.a. halda utan um týnd börn og koma þeim til foreldra sinna. Foreldrar geta því bent börnum sínum á að leita að sjálfboðaliðum Rauða krossins ef þau verða viðskila við fjölskyldu sína. Hópurinn verður með allan nauðsynlegan skyndihjálparbúnað svo hægt er að leita til sjálfboðaliða komi upp slysatilvik. Sjálfboðaliðarnir verða vel merktir í rauðum peysum með Rauða kross merkinu.

26. ágú. 2011 : Dagskrá vikunnar - opið hús

Rauðakrosshúsið Þverholti 7 er opið alla þriðjudaga og fimmtudaga frá kl. 10-15 og miðvikudaga kl. 13-16.   Allir viðburðir ókeypis og öllum opnir.  Atvinnuleytendur sérstaklega hvattir til að mæta.  Dagskrá næstu viku er eftirfarandi:

Þriðjudagur 30. ágúst:

Haustsúpa og spjallHöldum áfram að skipuleggja dagskrána í vetur? kl. 11.

  

Miðvikudagur 31. ágúst:

Lista- og prjónahópur – Málum, teiknum, þæfum – hvað sem okkur dettur í hug.  Opinn prjónahópur fyrir sjálfboðaliða í verkefninu Föt sem framlag og aðra sem hafa áhuga á handavinnu og góðum félagsskap. Garn, prjónar og kennsla á staðnum, kl. 13.

 

Fimmtudagur 1. september:

Ferilskrárgerð – Aðstoð við að setja upp söluvæna ferilskráEinnig aðstoð við umsóknir á netinu, kl. 11.

Atvinnuleitatvinnuleitendur hittast, spjalla og bera saman bækur sínar, kl. 12.

24. ágú. 2011 : Skiptifatamarkaðurinn kominn í fullt gang

Barnafata skiptimarkaður (fyrir 12 ára og yngri) hefur nú opnað aftur eftir sumarfrí og verður opinn í Rauðakrosshúsinu Þverholti 7 alla þriðjudaga og fimmtudaga frá kl. 10-13. 

Hvetjum foreldra til að koma með heilleg föt, útiföt og skó sem börnin ykkar eru vaxin upp úr og skipta yfir í aðrar stærðir eða öðruvísi föt og skó! 

Ókeypis fyrir alla - láttu sjá þig hvort sem þú ert að gefa eða skipta!

19. ágú. 2011 : Dagskrá vikunnar - opið hús

Dagskrá Rauðakrosshússins Þverholti 7 er ókeypis og opin öllum.  Atvinnuleitendur er sérstaklega hvattir til að mæta.  Opnunartími hússins er á þriðjudögum og fimmtudögum frá kl. 10-14 og miðvikudögum kl. 13-16.  Dagskrá næstu viku er eftirfarandi:

Þriðjudagurinn 23. ágúst::  Súpufundur og spjall.  Hvernig vilt þú hafa dagskrána í vetur?  kl. 11.

Miðvikudagurinn 24. ágúst::  Lista og prjónahópur.  Málum, teiknum, þæfum - hvað sem okkur dettur í hug.  Prjónahópurinn er opinn fyrir sjálfboðaliða í verkefninu Föt sem framlag sem og aðra sem hafa áhuga á handavinnu og góðum félagsskap.  Garn, prjónar og kennsla á staðnum.  Kl. 13.

Fimmtudagurinn 25. ágúst:  Ferilskrár gerð og atvinnuleit.  Aðstoð við að setja upp söluvæna ferilskrá og að sækja um vinnu á netinu.  kl. 11.

18. ágú. 2011 : Sjálfboðaliða vantar

Nú er undirbúningur fyrir starfsemi komandi árs í fullum gangi.  Getum alltaf bætt áhugasömum einstaklingum við flotta sjálfboðaliðahópinn okkar.  Ef þú sérð fram á að eiga tíma aflögu á komandi vetri, þá máttu gjarnan hafa samband við deildina með því að kíkja við í Þverholt 7, í síma 564-6035 eða netfanginu [email protected].

Verkefnin okkar eru m.a.: heimsóknaþjónusta, föt sem framlag, ungmennastarf, foreldrarölt, opið hús.

Eins taka sjálfboðaliðar okkar þátt í verkefnum á svæðisvísu, eins og í skyndihjálparhóp, hjálparsímanum 1717, félagsvinir og fleira.

Verkefnin eru fjölbreytt og allir ættu að geta fundið eitthvað við sitt hæfi.  Sjáumst!

11. júl. 2011 : Sumarlokun

Rauðakrosshúsið Þverholti 7 er nú lokað vegna sumarleyfa og opnar aftur þriðjudaginn 9. ágúst.

Hægt er að senda deildinni tölvupóst á netfangið [email protected] og við munum reyna að svara við fyrsta tækifæri.

4. júl. 2011 : Mannúð og menning tekin við af Gleðidögum

Gleðidögum lauk í síðustu viku á fuglaskoðun með Úrsulu og æsispennandi bingói hjá Margréti Sigurmonsdóttur.  Námskeiðið var einstaklega vel heppnað og þökkum við öllum leiðbeinendum kærlega fyrir þeirra framlag! 

Krakkarnir kunnu vel að meta nærveru (h)eldri borgaranna, drukku í sig frásagnir þeirra og fróðleik og endurguldu með sögum úr eigin reynsluheimi.

Æsispennandi bingó hjá Margréti

 

Þó Gleðidögum sé lokið er enn líf og fjör hér í Þverholtinu, því þessa vikuna eru hér 17 krakkar á aldrinum 10-12 ára á námskeiðinu Mannúð og menning.  Þar fræðast þau um hugsjónir og starfsemi Rauða krossins í gegn um leik og skemmtileg verkefni.

29. jún. 2011 : Gleðidagar í fullum gangi

Þessa vikuna ríkir mikil gleði hér í Þverholtinu, enda sumarnámskeiðið Gleðidagar - hvað ungur nemur gamall temur í fullum gangi. Námskeiðið sitja 20 börn á aldrinum 7-12 ára og eru leiðbeinendurnir flestir eldri borgarar sem miðla nærveru og fróðleik til þeirra yngri.

Á mánudag fór Hlín með krökkunum í heimsókn á Bókasafnið, sagði þeim sögur og kenndi leiki.  Elísabet Kristjánsdóttir fór svo með krökkunum að skoða gróður í Holtinu og duttu heldur betur í lukkupottinn þegar Hlín benti þeim á smáraþúfu þar sem finna má 4, 5 og 6 laufa smára! 

Sigga kenndi prjón og vinabandagerð
Á þriðjudag kom Sigríður Óskarsdóttir og kenndi krökkunum að prjóna og binda vinabönd.  Afraksturinn var fjölbreyttur og má þar nefna litrík vinabönd og hringar, blómum skreytt eyrnabönd og armbönd og krúttlegar vúdú dúkkur.

Sjómaðurinn Árni hafði frá mörgu fróðlegu að segja frá árum sínum á sjó í Grindavík og Reykjavík, auk þess sem hann kenndi krökkunum að binda alls konar hnúta.  

 
 Sjómaðurinn Árni kenndi hnútabindingar

 

 

Eftir hádegi voru Eirhamrar heimsóttir, aöstaða heimilismanna skoðuð og spjallað við heimamenn.  Klara Klængsdóttir sýndi krökkunum íbúðina sína og sagði frá því hvernig var að vera í skóla og kenna á Brúarlandi, en þangað sóttu öll börn Mosfellssveitar og nágrennis.

Í dag fór Elísabet Kristjánsdóttir meö í vettvangsferð á Gljúfrastein þar sem safnið og umhverfi þess var skoðað vel og vandlega.

Framundan er spennandi dagskrá með ljósmyndakennslu, sögustundum, bingói og fleira.

Fleiri myndir má finna á Facebooksíðu deildarinnar hérna.

24. jún. 2011 : Flottar tombólustelpur

Þessar duglegu vinkonur, Birgitta Dervic, Adéla Dervic og Ólavía Gisladóttir, héldu tombólu í Lágafellslaug í vikunni og færðu Rauða krossinum andvirðið eða 2001 krónur.

Peningurinn rennur í sérstakan sjóð sem er nýttur til hjálpar börnum og ungennum erlendis.  Við þökkum  þessum duglegu vinkonum kærlega fyrir framlagið.

20. jún. 2011 : Sumarnámskeiðin hafin

Fyrsta námskeið af þremur sem haldin verða fyrir börn hjá Kjósarsýsludeild í sumar hófst í dag.  Námskeiðið nefnist Mannúð og menning og fræðast krakkarnir þar m.a. um hugsjónir Rauða krossins um mannúð og óhlutdrægni, umhverfið okkar, skyndihjálp, endurvinnslu og fjölmenningalegt samfélag. 

Þessa vikuna eru þátttakendurnir 7-9 ára, en samsvarandi námskeið verður haldið fyrir 10-12 ára eftir hálfan mánuð.  Í næstu viku verður námskeiðið Gleðidagar haldið, en þar eru leiðbeinendurnir allir eldri borgarar.  Markmið námskeiðsins er að tengja saman kynslóðirnar og miðla reynslu og þekkingu þeirra á milli.

Alls munu 50 börn sækja námskeið Kjósarsýsludeildar í sumar.  Mosfellsbær hefur styrkt námskeiðahaldið rausnarlega með því að útvega allt starfsfólk á námskeiðin og kunnum við þeim bestu þakkir fyrir.

Myndir frá námskeiðinu má finna á Facebook síðu Kjósarsýsludeildar hérna.
 

9. jún. 2011 : Vel heppnuð lokahátíð

Nú er dagskrá Rauðakrosshússins komin í sumarfrí fram til loka ágúst.  Á þriðjudag var haldin lokahátíð og sýning á listaverkum gesta hússins.  Myndlistahópur hefur verið starfræktur í húsinu frá því í janúar og mikið af fallegum verkum litið dagsins ljós á þeim tíma.  Til sýnis voru myndir, skartgripir og steinar - allt hvert öðru fallegra og frumlegra.  Einnig voru til sýnis prjónavörur frá sjálfboðaliðum í verkefninu Föt sem framlag.

Hátíðin heppnaðist einstaklega vel og fögnuðu gestir og nokkrir af þeim fjölmörgu leiðbeinendum sem lagt hafa sitt af mörkum til að halda uppi fjölbreyttri dagskrá, vel heppnuðum vetri.  Söngflokkurinn Hafmeyjarnar, undir stjórn Hjördísar Geirsdóttur, glöddu viðstadda með fjörugum söng og drógu þá út á gólf í miklu tjútti. 

Hægt er að sjá myndir frá hátíðinni á Facebooksíðu Kjósarsýsludeildar : www.facebook.com/RKIKjos.

6. jún. 2011 : Dagskrá vikunnar - opið hús

Brátt víkur vetrarstarf Rauðakrosshússins fyrir sumarstarfi deildarinnar, en þá verða þrjú vikulöng sumarnámskeið haldin fyrir 7-12 ára börn.  Áður en dagskrá hússins verður pakkað niður fyrir sumarfrí þá er við hæfi að blása til lokahátíðar og fagna vel heppnuðum vetri.  Dagskránni lýkur svo með ljósmyndaklúbbnum hans Róberts á fimmtudag.

Mánudagur 6. júní:
Myndlist - Teiknum og málum, byrjendur og lengra komnir, kl. 14.
 
Þriðjudagur 7. júní:
Lokahátíð og sýning - Gerum okkur glaðan dag fyrir sumarfrí og fögnum vel heppnuðum vetri. til sýnis verða listaverk sem gestir hússins hafa töfrað fram í vetur, auk ýmissa muna frá sjálfboðaliðum deildarinnar.  Í boði verða léttar veitingar, tónlist og seiðandi Hafmeyjusöngur. Kl. 11.
 
Fimmtudagur 9. júní:
Ljósmyndaklúbbur - Lærðu að taka góðar sumarmyndir.  Umsjón:  Robert Bentia.  Kl. 11.

1. jún. 2011 : Fatasöfnun Rauða krossins

Rauði kross Íslands stendur fyrir fatasöfnun um allt land á uppstigningardag, fimmtudaginn 2. júní, í samstarfi við Eimskip. Gámum verður komið fyrir við allar sundlaugar ÍTR í Reykjavík og við sundstaði í Kópavogi, Hafnarfirði og Garðabæ.  Hér í Mosfellsbæ verður gámurinn staðsettur fyrir utan Rauðakrosshúsið Þverholti 7.

Rauði krossinn hvetur fólk að taka til gömul föt og vefnaðarvöru og koma þeim í notkun að nýju með því að nýta ferðina um leið og farið er í sund í góða veðrinu. Athugið að söfnunin er aðeins þennan eina dag við sundstaðina, en auðvitað er hægt að gefa fatnað og klæði allan ársins hring á söfnunarstöðum Rauða krossins á Enduvinnslustöðvum  Sorpu á höfuðborgarsvæðinu og í söfnunargáma um allt land.

Fólki er bent á að nota tækifærið í vorhreingerningunni og koma með gömlu fötin, skóna, handklæði, rúmföt, gluggatjöld og jafnvel stöku sokkana því mikil verðmæti eru fólgin í allri vefnaðarvöru.

 

30. maí 2011 : Dagskrá vikunnar - opið hús

Dagskrá Rauðakrosshússins er fjölbreytt sem fyrr - opin og ókeypis fyrir alla.

Mánudagur 30. maí:
MyndlistTeiknum og málum, byrjendur og lengra komnir, kl. 14.
 
Þriðjudagur 31. maí:
Hwaii - Mætum í hula-pilsum og fræðumst um Hawaii. Umsj. Hörður Baldvinsson og Viggó Þór, kl. 11.
 
Prjónahópur - Opinn prjónahópur fyrir sjálfboðaliða í verkefninu Föt sem framlag og aðra sem hafa áhuga á handavinnu og góðum félagsskap. Garn, prjónar og kennsla á staðnum, kl. 13.
 
Miðvikudagur 1. júní:
Atvinnuviðtöl - Þitt tækifæri!. Umsj.: Erla Traustadótir vinnusálfræðingur, kl. 13.
Hjólahópur - Hjólum frá Þverholti 7, kl. 14.
 
Fimmtudagur 2. júní: Uppstigningadagur - Lokað.

 

25. maí 2011 : Æfing hjá Viðbragðshópi höfuðborgarsvæðis

Viðbragðshópur höfuðborgarsvæðisins fékk boð um að mæta á æfingu í gær, þriðjudaginn 24. maí klukkan 17. Hópnum var stefnt á Álftanes þar sem búið var að setja upp dagskrá og aðstöðu í hjólhýsi Reykjavíkurdeildar og bílnum Frú Ragnheiði og mættir voru 22 leikarar á öllum aldri.

Æfingunni var skipt á tvær stöðvar og þolendur (leikarar) fóru á milli til að sjálfboðaliðar viðbragðshópsins fengju fleiri tækifæri til að æfa sig í viðtalstækni og sálrænum stuðningi. Þannig var að hluta komið í veg fyrir galla sem oft er á æfingum þegar mjög margir sjálfboðaliðar eru um hvern leikara.

25. maí 2011 : Ungir heimsóknavinir

Verkefnið Ungir heimsóknavinir er samstarfsverkefni Kjósarsýsludeildar Rauða krossins, dvalarheimilisins Hlaðhamra, Lágafellsskóla og Varmárskóla. Sjálfboðaliði deildarinnar sækir krakka úr sjöttu og sjöunda bekkjum í skólann og röltir með þeim á Hlaðhamra. Þar fá þau að skoða heimilið, heimsækja heimilismenn og spjalla við þá.

Í gær fóru nemendur Varmárskóla í heimsókn á Hlaðhamra og var það síðasta heimsókn þessa skólaárs. Krakkarnir voru einstaklega kurteis og áhugasöm og höfðu frá mörgu skemmtilegu að segja.  Klara Klængsdóttir, sem er gamall kennari úr Varmárskóla, sýndi krökkunum herbergið sitt og sagði frá því hvernig lífið var í Mosfellsbæ þegar hún var að alast þar upp og kenna á Brúarlandi. Klöru fannst gaman að heyra að hluti af Krummaklett, sem sprengdur var upp þegar Eirhamrar voru byggðir, er nú fyrir utan leikskólann Hlaðhamra.

Verkefnið hefur gengið einstaklega vel í vetur og er tilhlökkunarefni að taka upp þráðinn þegar skólar hefst aftur í haust.

23. maí 2011 : Viðurkenning fyrir verkefnið Ungt fólk til athafna

Aðalfundur Rauða kross Íslands var haldinn í Reykjanesbæ nú um helgina. Fundurinn var líflegur og gaman að hitta fulltrúa frá öllum deildum landsins og fræðast um verkefni þeirra og starfsemi.

Á fundinum voru veittar viðurkenningar til sjálfboðaliða og valinna verkefna.  Kjósarsýsludeild hlaut viðurkenningu fyrir verkefnið Ungt fólk til athafna.  Verkefnið er unnið í samvinnu við Vinnumálastofnun og hefur það að markmiði að virkja 16-29 ára ungmenni sem standa utan skóla og vinnu.  Starfssvæði Kjósarsýsludeildar er víðfemt og hafa ungmenni allt frá Kjalarnesi til nærliggjandi hverfa Reykjavíkur sótt fræðslu og virkni í Rauðakrosshúsinu Þverholti 7.  Verkefnið hefur gengið mjög vel og er megin hluti þeirra ungmenna sem tekið hafa þátt í verkefninu nú komnir í vinnu eða skóla. 

Hilmar Bergmann verkefnisstjóri deildarinnar veitti viðurkenningunni viðtöku.

20. maí 2011 : Dagskrá vikunnar - opið hús

Dagskrá Rauðakrosshússins Þverholti 7 er fjölbreytt að venju.  Viðburðirnir eru ókeypis og öllum opnir.  Sjáumst!

Mánudagur 23. maí:
Myndlist - Teiknum og málum, byrjendur og lengra komnir, kl. 14.
 
Þriðjudagur 24. maí:
Flórída - Fræðumst um appelsínufylkið í sólskins skapi og snörlum saman. Umsj. Hörður Baldvinsson og Viggó Þór, kl. 11.
 
Prjónahópur - Opinn prjónahópur fyrir sjálfboðaliða í verkefninu Föt sem framlag og aðra sem hafa áhuga á handavinnu og góðum félagsskap. Garn, prjónar og kennsla á staðnum, kl. 13.
 
Miðvikudagur 25. maí:
WHEE – streitu og verkjalosun   Einföld og notaleg aðferð á allra færi. Umsj. Lilja Petra Ásgeirsdóttir, höfuðbeina- og spjaldhryggsjafnari, kl. 13.
 
Hjóla hópur - Hjólað út frá Þverholti 7, kl. 14.
 
Fimmtudagur 26. maí:
Ferilskrárgerð - Einnig aðstoð við umsóknir á netinu, kl. 10.
Word - Lærum grunnin í Microsoft Word. Gott að koma með eigin tölvu. Umsj. María Hilmarsdóttir kl. 13.

16. maí 2011 : Dagskrá vikunnar - opið hús

Allir viðburðir í Rauðakrosshúsinu Þverholti 7 eru ókeypis og öllum opnir.  Það venju er fjölbreytt dagskrá í boði.  Sjáumst!

Mánudagur16. maí:
Myndlist - Teiknum og málum, byrjendur og lengra komnir. Leiðb. Bryndís F. Halldórsdóttir, kl. 14.
 
Þriðjudagur 17. maí:
Fylki Ameríku - Fetum okkur áfram um Ameríku. Umsj. Hörður Baldvinsson og Viggó Þór, kl. 11.
 
Prjónahópur - Opinn prjónahópur fyrir sjálfboðaliða í verkefninu Föt sem framlag og aðra sem hafa áhuga á handavinnu og góðum félagsskap. Garn, prjónar og kennsla á staðnum, kl. 13.
 
Art of Living - Endurnærandi og styrkjandi öndurnaræfingar og slökun.  Síðasti tíminn fyrir sumarfrí.  Umsjón:  Lilja Steingrímsdóttir, kl. 11.
 
Miðvikudagur 18. maí:
Qi-GongKínverskar orkuæfingar sem auka einbeitingu og styrkja ónæmiskerfið og eru sérstaklega góðar fyrir liðamót, hrygg og bein. Umsjón: Þórdís Filipsdóttir einkaþjálfari og Qi-gong leiðbeinandi, kl. 13.
 
Hjólahópur - Hjólað frá Þverholti 7, kl. 14.
 
Fimmtudagur 19. maí:
Ljósmyndaklúbbur - Lærum að taka myndir og vinna með þær. Umsón: Robert Bentia, kl. 11.
 
Hjólahópur - Hjólað frá Þverholti 7, kl. 13.
 
Word - Lærum grunnin í Microsoft Word. Gott að koma með eigin tölvu. Umsón:. María Hilmarsdóttir kl. 13.

16. maí 2011 : Skiptifatamarkaður verður opinn út maí

Barnafata-skiptimarkaður fyrir 12 ára og yngri er starfræktur í Rauðakrosshúsinu Þverholti 7, alla þriðjudaga og fimmtudaga frá kl. 10-13. 

Þar er hægt að koma með heilleg föt, útiföt eða skó og skipta yfir í aðrar stærðir og gerðir. 
 
Skiptifatamarkaðurinn verður opinn út maí og opnar svo aftur í ágúst.  Foreldrar eru hvattir til að koma og gera góð skipti fyrir sumarið.

 

6. maí 2011 : Dagskrá viunnar - opið hús

Dagskrá Rauðakrosshússins er fjöbreytt að venju.  Allir viðburðirnir eru ókeypis og öllum opnir.

Mánudagur 9. maí:
Myndlist - Teiknum og málum, byrjendur og lengra komnir. Leiðb. Bryndís F. Halldórsdóttir, kl. 14.
 
Þriðjudagur 10. maí:
Ræktun kryddjurta - Lærum að rækta kryddjurtir, allir sá í pott og taka með sér heim. Umsjón: Jóhanna B. Magnúsdóttir kl. 11.
 
Prjónahópur - Opinn prjónahópur fyrir sjálfboðaliða í verkefninu Föt sem framlag og aðra sem hafa áhuga á handavinnu og góðum félagsskap. Garn, prjónar og kennsla á staðnum, kl. 13.
 
Miðvikudagur 11. maí:
Öndun og slökun - Frábærar æfingar sem auka orku og einbeitingu. Umsjón: Lilja Steingrímsdóttir, the Art of Living, kl. 13.
 
Hjólahópur - Hjólum frá Þverholti 7, kl. 14.
 
Fimmtudagur 12. maí:
Ferilskrárgerð - Einnig aðstoð við umsóknir á netinu, kl. 10.
 
Ljósmyndaklúbbur - Lærum að taka myndir og vinna með þær. Umsj. Robert Bentia, kl. 11.
 
Hjólahópur - Hjólum frá Þverholti 7, kl. 13.

 

2. maí 2011 : Mórall með kynningu á aðalfundi Lionsklúbbsins Úu

Lionsklúbburinn Úa hélt aðalfund sinn í Rauðakrosshúsinu Þverholti 7 nú í apríl.  Auk hefðbundinna aðalfundastarfa voru nýjir félagar teknir inn í klúbbinn og dýrindis kvöldverður snæddur.

Nokkrar stelpur úr Móral héldu stutta kynningu á Rauða krossinum og ungmennastarfi deildarinnar fyrir Lionskonurnar.   Sögðu þær frá verkefnum ársins og hvað framundan er hjá þeim. 

Það hefur verið nóg að gera í ár hjá krökkunum í Móral.  Þau hafa fræðst um Rauða krossinn og verkefni hans innanlands sem utan og tekið þátt í sameiginlegum uppákomum og ferðum með krökkum í ungmennastarfi Rauða krossins á höfuðborgarsvæðinu.   Þau skipulögðu og héldu jólamarkað þar sem allur ágóðinn, 60.000 krónur, rann í jólaaðstoð deildarinnar. Ýmislegt er framundan hjá krökkunum, eins og skyndihjálparnámskeið og heimsókn í Fataflokkun Rauða krossins.  Lionskonur voru mjög áhugasamar og spurðu stelpurnar spjörunum úr.

29. apr. 2011 : Dagskrá vikunnar - opið hús

Dagskrá Rauðakrosshúsins er ókeypis og öllum opin.  Í næstu viku hefst átakið - Hjólað í vinnuna - og ætla gestir Þverholtsins að taka þátt í því undir nafninu - Hjólað í virknina!  Hvetjum alla til að koma með í fyrsta hjólatúrinn miðvikudaginn 4. maí kl. 14!

Mánudagur 2. maí:
Myndlist - Teiknum og málum, byrjendur og lengra komnir. Leiðb. Bryndís F. Halldórsdóttir, kl. 14.
 
Þriðjudagur 3. maí:
Rúmenía - Landið, fólkið og maturinn. Umsjón: Róbert Bentia, kl. 11.
Prjónahópur - Opinn prjónahópur fyrir sjálfboðaliða í verkefninu Föt sem framlag og aðra sem hafa áhuga á handavinnu og góðum félagsskap. Garn, prjónar og kennsla á staðnum, kl. 13.
 
Miðvikudagur 4. maí:
Hláturjóga - Viltu fylla lífið af hlátri og gleði? Umsj. Ásta Valdimarsdóttir kl. 13.
Hjóla hópur - Hjólað í virknina hefst, kl. 14.
 
Fimmtudagur 5. maí:
Ferilskrárgerð - Einnig aðstoð við umsóknir á netinu, kl. 10.
 
Ljósmyndaklúbbur - Lærum að taka myndir og vinna með þær. Umsj. Robert Bentia, kl. 11.
Hjóla hópur - Hjólum frá Þverholti 7, kl. 13.

28. apr. 2011 : Ólavía og Kría söfnuðu fyrir Rauða krossinn

Vinkonurnar Ólavía Guðrún Gísladóttir og Kría Sól Guðjónsdóttir héldu tombólu í Lágafellslaug og söfnuðu 3.415 krónur fyrir Rauða krossinn.  Við þökkum þessum duglegu stelpum hjartanlega fyrir þessa góðu gjöf!

Afrakstur tombólunnar rennur í sameiginlegan hjálparsjóð á landsvísu. Í lok hvers árs er sjóðnum ráðstafað í verkefni í þágu barna í neyð erlendis. Í ársbyrjun var rúmri milljón sem safnast hafði árið 2010 ráðstafað á Haítí.  Munaðarlaus börn, sem hingað til hafa sofið á jörðinni, fengu þá rúm og skólabörn ritföng og nýjar skólatöskur.

 

20. apr. 2011 : Dagskrá vikunnar - opið hús

Rauðakrosshúsið Þverholti 7 er opið alla þriðjudaga og fimmtudaga kl. 10-15 og miðvikudaga kl. 13-16.  Allir viðburðir eru ókeypis og opnir öllum.  Sjáumst!

Þriðjudagur 26. april:
Súpa og spjall - Létt eftir páska spjall og súpuát kl. 11. 
Prjónahópur - Opinn prjónahópur fyrir sjálfboðaliða í verkefninu Föt sem framlag og aðra sem hafa áhuga á handavinnu og góðum félagsskap. Garn, prjónar og kennsla á staðnum, kl. 13.
 
Miðvikudagur 27. april:
Öndun og slökun - Eykur orku og einbeitingu. Umsj.: Lilja Steingrímsdóttir, kl. 13.
Gönguhópur - Gengið frá Þverholti 7, kl. 15.
 
Fimmtudagur 28. april:
Ferilskrárgerð - Einnig aðstoð við umsóknir á netinu, kl. 10.
Ljósmyndaklúbbur - Lærum að taka myndir og vinna með þær. Umsj. Robert Bentia, kl. 11.
Frá hugmynd að vöru - Fjallað um ferilinn frá því að hugmynd kemur upp á yfirborðið þar til komin er markaðshæf vara. Hugmyndasmiðja og skemmtileg verkefni sem örva nýsköpun. Umsjón Hörður Baldvinsson. Síðasti hluti, kl. 13.

19. apr. 2011 : Sumarnámskeið fyrir börn

Rauði krossinn stendur fyrir fjölbreyttum sumarnámskeiðum fyrir börn eins og undanfarin sumur. Um er að ræða námskeiðin Börn og umhverfi, Mannúð og menning og Gleðidaga. 

Börn og umhverfi er námskeið fyrir börn fædd 1999 eða fyrr. Farið er í ýmsa þætti sem varða umgengni og framkomu við börn. Rætt er um árangursrík samskipti, aga, umönnun og hollar lífsvenjur, leiki og leikföng. Lögð er áhersla á umfjöllun um slysavarnir og algengar slysahættur í umhverfinu ásamt ítarlegri kennslu í skyndihjálp. Að auki fá þátttakendur innsýn í sögu og starf Rauða krossins.

18. apr. 2011 : Dagskrá vikunnar - opið hús

Dagskrá vikunnar í Rauðakrosshúsinu Þverholti 7 er með rólegra móti vegna páskanna.

Þriðjudagur 19. apríl:
Rúmenía - Landið, fólkið og maturinn. Umsjón: Robert Bentia kl. 11.
Prjónahópur - Opinn prjónahópur fyrir sjálfboðaliða í verkefninu Föt sem framlag og aðra sem hafa áhuga á handavinnu og góðum félagsskap. Garn, prjónar og kennsla á staðnum, kl. 13.
 
Miðvikudagur 20. apríl:
Gönguhópur - Gengið frá Þverholti 7, kl. 15.

11. apr. 2011 : Börn og umhverfi

Börn og umhverfi er námskeið fyrir börn fædd 1999 og fyrr sem gæta yngri barna.

Á námskeiðinu er farið í ýmsa þætti sem varða umgengni og framkomu við börn. Rætt er um árangursrík samskipti, aga, umönnun og hollar lífsvenjur, leiki og leikföng. Lögð er áhersla á umfjöllun um slysavarnir og algengar slysahættur í umhverfinu ásamt ítarlegri kennslu í skyndihjálp. Að auki fá þátttakendur innsýn í sögu og starf Rauða krossins.

Námskeiðið er 16 kennslustundir, fer fram í Þverholti 7 og kostar 2000 krónur.   Innifalið: Námsgögn og hressing..

Námskeið 1:       9., 11., 16. og 18. maí kl. 16:30-19:30.

Námskeið 2:     17., 19., 24., og 26. maí kl. 16:30-19:30.

Skráning

 

11. apr. 2011 : Dagskrá vikunnar - opið hús

Dagskrá Rauðakrosshússins er fjölbreytt að venju.  Af gefnu tilefni má benda á fyrirlesturinn "Hvað verður um alla peningana?" sem Svanborg Sigmarsdóttir frá umboðsmanni skuldara flytur á þriðjudag kl. 13, en ekki kl. 11 eins og misritaðst í auglýsingu.

Mánudagur 11. apríl:
Myndlist - Við ætlum að þæfa ull og búa til falleg hálsmen. Leiðb. Bryndís F. Halldórsdóttir, kl. 14.
 
Þriðjudagur 12. apríl:
Hvíta Rússland - Örn Ragnarsson, Fataflokkun RKÍ segir frá landinu og afhendingu ungbarnapakka frá sjálfboðaliðum RKÍ nú í febrúar. Kl. 11.
Prjónahópur - Opinn prjónahópur fyrir sjálfboðaliða í verkefninu Föt sem framlag og aðra sem hafa áhuga á handavinnu og góðum félagsskap. Garn, prjónar og kennsla á staðnum, kl. 13.
Hvað verður um alla peningana?   Margt smátt gerir eitt stórt. Hvernig getum við sparað og skipulagt naum fjárráð? Svanborg Sigmarsdóttir, umboðsmanni skuldara, kl. 13.
 
Miðvikudagur 13. apríl:
Öndun og slökun - Frábærar æfingar sem auka orku og einbeitingu. Umsjón: Lilja Steingrímsdóttir, the Art of Living, kl. 13.
Gönguhópur - Gengið frá Þverholti 7, kl. 15.
 
Fimmtudagur 14. apríl:
Ferilskrárgerð - Einnig aðstoð við umsóknir á netinu, kl. 10.
Ljósmyndaklúbbur - Lærum að taka myndir og vinna með þær. Umsj. Robert Bentia, kl. 11.
Frá hugmynd að vöru - Fjallað um ferilinn frá því að hugmynd kemur upp á yfirborðið þar til komin er markaðshæf vara. Hugmyndasmiðja og skemmtileg verkefni sem örva nýsköpun. Umsjón Hörður Baldvinsson. Fimmti hluti af sex, kl. 13

6. apr. 2011 : Dugleg tombólubörn

Ólöf Líf, Birna Sól, Nína Huld, Ísak Orri og Breki Freyr hafa haldið fjölmargar tombólur til styrktar Rauða krossinum.

Fyrir stuttu héldu þau tombólur fyrir utan Bónus og Krónuna og söfnuðu 7.500 krónum sem þau færðu Rauða krossinum að gjöf og þökkum við þeim kærlega fyrir framlagið.

Afrakstur tombólunnar rennur í sameiginlegan hjálparsjóð á landsvísu. Í lok hvers árs er sjóðnum ráðstafað í verkefni í þágu barna í neyð erlendis. Í ársbyrjun var rúmri milljón sem safnast hafði árið 2010 ráðstafað á Haítí.  Munaðarlaus börn, sem hingað til hafa sofið á jörðinni, fengu þá rúm og skólabörn ritföng og nýjar skólatöskur.

 

4. apr. 2011 : Dagskrá vikunnar - opið hús

Dagskrá vikunnar er fjölbreytt að vanda.

Mánudagur 4. april:
Myndlist - Teiknum og málum, byrjendur og lengra komnir. Leiðb. Bryndís F. Halldórsdóttir, kl. 14.
 
Þriðjudagur 5. april:
Sushi - Lærum að búa til sushi. Umsjón: Gísli Friðriksson, kl. 11.
Prjónahópur - Opinn prjónahópur fyrir sjálfboðaliða í verkefninu Föt sem framlag og aðra sem hafa áhuga á handavinnu og góðum félagsskap. Garn, prjónar og kennsla á staðnum, kl. 13.
 
Miðvikudagur 6. april:
HláturjógaViltu losa um spennu og fylla lífið af hlátri og gleði? Umsj. Ásta Valdimarsdóttir kl. 14.
Gönguhópur - Gengið frá Þverholti 7, kl. 15.
 
Fimmtudagur 7. april:
Ferilskrárgerð  - Einnig aðstoð við umsóknir á netinu, kl. 10.
Frá hugmynd að vöru - Fjallað um ferilinn frá því að hugmynd kemur upp á yfirborðið þar til komin er markaðshæf vara. Hugmyndasmiðja og skemmtileg verkefni sem örva nýsköpun. Umsjón Hörður Baldvinsson. Fjórði hluti af sex, kl. 13.