15. des. 2005 : Sorpa styrkir ferðasjóði athvarfa Rauða krossins

Fulltrúar Sorpu, Dvalar, Lækjar og Vinjar við afhendingu jólakortastyrksins.
Undanfarin 3 ár hefur Sorpa lagt góðum málum lið í stað þess að senda viðskiptavinum sínum jólakort. Í ár rennur jólakortastyrkur Sorpu til aðhvarfa Rauða krossins fyrir geðfatlaða á höfuðborgarsvæðinu en þau eru Vin í Reykjavík, Dvöl í Kópavogi og Lækur í Hafnarfirði.

Markmið athvarfanna er m.a. að auka lífsgæði geðsjúkra, að rjúfa félagslega einangrun, að draga úr fordómum og að efla þekkingu sem flestra á málefnum geðsjúkra.

Í öllum athvörfunum er safnað peningum í sérstaka ferðasjóði sem nýttir eru til ferðalaga gesta athvarfanna innanlands sem utan. Styrkur Sorpu rennur í ferðasjóði athvarfanna og fékk hvert athvarf 70.000 kr. að gjöf.

13. des. 2005 : Laut fagnaði 5 ára afmæli

Úlfar Hauksson formaður Rauða kross Íslands færði afmælisbarninu kveðju Rauða krossins.
Þann áttunda desember hélt Laut, athvarf fyrir fólk með geðraskanir, upp á fimm ára starfsafmæli sitt. Boðið var til afmælisfagnaðar á Hótel KEA. Fjölmenni var í afmælinu og fólk kom víða að.

Eins og gjarnan er gert á slíkum tímamótum voru rifjaðar upp minningar frá þessum fyrstu árum, árangur í starfi og afmælisbarninu óskað áframhaldandi velfarnaðar.

Samhliða þessu var boðið upp á handverkssýningu í Laut, þar sem til sýnis voru ýmsir munir gerðir af gestum Lautarinnar.

25. nóv. 2005 : Fjölmennt fræðslukvöld um geðraskanir

Erla Hrönn Diðriksdóttir og Garðar Sölvi Helgason kynntu starfsemi Vinjar.
Streita, geðsjúkdómar og svefnvenjur voru á meðal þess sem rætt var um á mánudagskvöldið þegar sjálfboðaliðar, gestir og starfsfólk Dvalar, Lækjar og Vinjar hittust í húsakynnum Reykjavíkurdeildar Rauða kross Íslands að Laugavegi 120. 

Rauði krossinn rekur eins og kunnugt er þrjú athvörf fyrir geðfatlaða á höfuðborgarsvæðinu: Dvöl í Kópavogi, Læk Hafnarfirði og Vin í Reykjavík. Tilgangur með rekstrinum er að gefa geðfötluðum vettvang þar sem þeir geta komið og rabbað saman, lesið blöðin og þar fram eftir götunum. Með því er hægt að rjúfa félagslega einangrun þessa hóps og styrkja með samneyti við aðra andlega og líkamlega heilsu. Þar sem athvörfin eru þrjú á höfuðborgarsvæðinu þykir tilvalið að standa að sameiginlegum fræðslu- og skemmtikvöldum með reglulegu millibili og var þetta fræðslukvöld fyrsti vísirinn að því.

11. okt. 2005 : Geðsjúkir fátækasta fólk á Íslandi

Grein þessi birtist í Blaðinu 10.október 2005.

26. sep. 2005 : Vellukkað landsmót athvarfa fyrir geðfatlaða

Ánægjan skín úr hverju andliti þátttakenda.
Athvörf Rauða krossins fyrir geðfatlaða héldu sameiginlegt landsmót 14.-16. september að Laugum í Sælingdal (eða ?Sæludal? eins og ánægður mótsgestur kallaði staðinn að afloknu móti). Gestir og starfsfólk athvarfanna Dvöl, Vin og Laut mættu til leiks en fulltrúar frá athvarfinu Læk í Hafnarfirði áttu því miður ekki heimangengt að þessu sinni.

Lagt var af stað vestur í Dali 14. september og hittust mótsgestir hressir á Laugum, gæddu sér á góðum veitingum, fengu sér sundsprett og sungu og trölluðu fram á kvöld.