12. apr. 2006 : Er geðröskun í fjölskyldunni?

Vin, Hverfisgötu 47, er eitt af fjórum athvörfum fyrir geðfatlaða sem Rauði krossinn rekur.
Tvö námskeið fyrir aðstandendur og áhugafólk um geðheilbrigðismál

Rauði kross Íslands heldur tvö námskeið um málefni geðfatlaðra ætlað aðstandendum og áhugafólki í Menntaskólanum í Kópavogi (MK) nú strax eftir páska. Hið fyrra verður 19. og 20. apríl en hið síðara 21. og 22. apríl. 

Þegar hafa verið haldin átta námskeið af þessari gerð á landsbyggðinni. Þátttaka hefur alls staðar verið mjög góð og hafa um 400 manns sótt námskeiðin. Námskeiðin á höfuðborgarsvæðinu eru síðasti áfanginn í þessu verkefni Rauða krossins sem lýtur sérstaklega að stuðningi við aðstandendur þeirra sem eiga við geðraskanir að stríða.

Stuðningur við geðfatlaða hefur verið eitt af áhersluverkefnum Rauða krossins frá árinu 2000.