4. jan. 2008 : Rauði krossinn fékk 2,5 milljónir frá Sparisjóðnum til sjálfboðaliðaverkefnis sem eflir geðheilsu ungs fólks

Í gær afhenti Sparisjóðurinn átta félögum, sem láta sig geðheilsu ungs fólks varða, styrk að fjárhæð 21 milljónum króna. Rauði krossinn fékk rúmlega 2,5 milljónir í sinn hlut. Fjárhæðin kom úr styrktarátaki Sparisjóðsins fyrir börn og unglinga með geðraskanir, Þú gefur styrk, sem hófst þann 8. nóvember og lauk á aðfangadag.

Rauði krossinn mun verja styrknum í verkefnið Félagsvinur barna og unglinga sem er sjálfboðaliðaverkefni til stuðnings börnum og unglingum sem eiga við geðræn vandamál að stríða og/eða til stuðnings börnum sem eiga foreldri/foreldra með geðröskun. Félagsvinurinn (mentor) veitir stuðning samtímis meðferð (einstaklings-eða fjölskyldumeðferð) til þessara barna og unglinga með því að mynda traust, jákvætt og gefandi vináttusamband.