Frábær þátttaka á jólamóti Skákfélags Vinjar

15. des. 2009

Tuttugu og þrír skráðu sig til leiks á jólamóti Skákfélags Vinjar í gær en mótið var kl. 13:15 í Vin að Hverfisgötunni. Var þetta næstfjölmennasta mót í Vin frá upphafi og stuð og fjör í stofunum.

Tefldar voru sex umferðir með sjö mínútna umhugsunartíma og í miðju móti var jólalegt kaffiborð, með nýbökuðum smá- og piparkökum og nammi út um allt.

Hinn kraftmikli formaður Víkingaklúbbsins sem nýlega krækti sér í heimsmeistaratitil í lyftingum, Gunnar Freyr Rúnarson, sigraði glæsilega með 5 og hálfan vinning. Hrafn Jökulsson, nýkominn úr ferska loftinu að Ströndum, sýndi heldur betur snarpa takta og náði fimm vinningum. Hrannar Jónsson, sem þrátt fyrir mikið umstang við skákstjórn, var beittur og kom þriðji með 4,5.

Björn Sölvi Sigurjónsson, VP Magnús Matthíasson og Arnljótur Sigurðsson voru næstir með fjóra.

Bóka- og tónlistarútgáfan SÖGUR gaf glæsilega vinninga og hlutu fimm fyrstu verðlaun. Auk þess fékk Sigríður Björg Helgadóttir bók fyrir bestan árangur kvenna, en hún sigraði reyndar einnig í flokki 18 ára og yngri. Verðlaun þar hlaut hinn Kristinn Andri, þar sem  aðeins ein verðlaun voru í boði fyrir hvern og einn. Björn Sölvi Sigurjónsson varð efstur í 60+.

Dregnir voru út fjóri happadrættisvinningar og þá náðu í: Björgvin Kristbergsson, Halldór Ólafsson, Jón S. Ólafsson og Vigfús Ó. Vigfússon krækti í heitustu skáldsöguna um þessar mundir, „Síðustu dagar móður minnar” eftir Sölva Björn Sigurðsson. Þeir sem ekki kræktu í vinninga fengu skákbækur til að æfa sig betur!

Gunnar Freyr, sem ekki var fyllilega sáttur með annað sætið í jólamótinu í Víkingaskák í síðustu viku, var hinn kátasti með bikar og nýja bók í lokin og var létt yfir þátttakendum, enda snilldarmót og SÖGUR fá bestu þakkir.

Úrslit:
1.    Gunnar Freyr Rúnarson 5,5
2.    Hrafn Jökulsson 5
3.     Hrannar Jónsson 4,5
4.    Björn  Sölvi Sigurjónsson 4
5.    Magnús Matthíasson 4
6.    Arnljótur Sigurðsson  4
7.    Kjartan Guðmundsson 3,5
8.    Árni Haukdal Kristjánsson 3,5
9.    Vigfús Ó. Vigfússon 3,5
10.    Haukur Halldórsson  3,5
11.    Jón Birgir Einarsson 3
12.    Sigríður Björg Helgadóttir 3
13.    Páll Jónsson 3
14.    Björgvin Kristbergsson 3
15.    Halldór Ólafsson 3
16.    Hlynur Gestsson 2,5
17.    Arnar Valgeirsson 2,5
18.    Guðmundur Valdimar Guðm. 2
19.    Einar Björnsson  2
20.    Kristinn Andri 2
21.    Saga Kjartansdóttir 2
22.    Sigurjón Ólafsson 2
23.    Jón S. Ólafsson 1
 

 Selfoss og Strandir.  Hluti þátttakenda.
 Teflt í öllum hornum.  Gunnar Freyr sigurvegari.