Skákfélag Vinjar að stimpla sig inn

15. mar. 2010

Skákfélag Vinjar tók þátt í Íslandsmóti skákfélaga annað árið í röð þennan veturinn og fór síðari hluti mótsins fram í byrjun mars í Rimaskóla. Skákfélagið er starfrækt innan veggja Vinjar, sem er athvarf fyrir fólk með geðraskanir og er að Hverfisgötu 47 í Reykjavík. Tefldar eru skákir þar sem umhugsunartíminn er 90 mínútur á mann.

Fyrir þennan síðari hluta, þar sem tefldar voru þrjár umferðir, var Skákfélag Vinjar í 9. sæti af 32 liðum í 4. deild og byrjaði ekki mjög vel. Vantaði þrjá menn í liðið sem alls telur sex, en 30 félagar eru skráðir þannig að alltaf eru einhverjir til taks.

Hrannar Jónsson á fyrsta borði, Björn Sölvi Sigurjónsson á öðru og Jón Birgir Einarsson á því þriðja drógu vagninn og var frammistaða þeirra mögnuð. Neðri borðin kræktu í einn og einn vinning og liðið endaði í sjötta sæti sem er frábær árangur. Talsverð upplifun er að sitja yfir svo löngum skákum og vera hluti af þeim 400 manna hópi sem er í þungum þönkum í íþróttasal Rimaskóla mest alla helgina.

Þó 30 manns séu skráðir í félagið eru ekki allir virkir og alltaf einhverjir sem ekki treysta sér í svona alvöru mót. Nokkrir hafa þó skráð sig í hópinn eftir Íslandsmótið og er stefnan sett á að senda tvö lið til keppninnar næst, eitt harðsvírað lið sem stefnir hátt og annað sem tekur ungmennafélagsandann á þetta. Í félaginu eru gestir athvarfsins, vinir og velunnarar, núverandi og fyrrverandi starfmenn á geðdeildum eða athvörfum og nokkrir frá Rauða krossi Íslands.

Hrannar Jónsson keppir við meðlim Skákfélags Siglufjarðar.

Allir sem vilja eru velkomnir í Vin að tefla á mánudögum kl. 13 og þeim sem vilja ganga í félagið tekið fagnandi. Af þeim ríflega 30 sem nú eru skráðir er aðeins hún Embla Dís sem er fulltrúi kvenna sem er klárlega alltof lítið hlutfall.

Fyrir þau sem lítið kunna eða eru óörugg að tefla, verður kennsla næstu þrjá mánudaga í Vin, 15., 22. og 29. mars þar sem úrvalskennarar sjá um fræðsluna. Hrannar Jónsson, Magnús Matthíasson varaforseti skáksambandsins og Róbert Lagerman, Fide meistari koma öllum af stað og áhugafólk hvatt til að mæta.