BINGÓÓÓÓ

12. maí 2010

Félagar í ferðafélaginu Víðsýn, sem auðvitað er staðsett í Vin, héldu sitt árlega fjáröflunarbingó í Rauðakrosshúsinu Borgartúni 25 í byrjun maí.

Var þetta í fyrsta sinn sem bingóið var haldið í Borgartúninu og var undirbúningur talsverður, en fjöldi gesta og starfsmanna athvarfsins hafði komið að vinningaöflun og tóku svo að sér bingóspjaldasölumennsku auk þess að standa í sjoppunni, þar sem hægt var að fá samlokur, súkkulaði og alls kyns drykki.

Á fjórða tug manna, kvenna og barna sat þarna í hóp með hverja taug spennta, enda glæsilegir vinningar í boði, má þar nefna; leikhúsferðir, út að borða, hótelgisting og allt fyrir tvo, auk þess matarkörfur og fleira flottmeti. Spilaðar voru allar mögulegar útfærslur, lárétt og lóðrétt og H og L og hvaðeina undir stjórn bingómeistarans Inga Hans Ágústssonar en um kynningar og afhendingu vinninga sá Ása Hildur Guðjónsdóttir.

Það var ósvikin gleði sem birtist í andliti vinningshafa eftir spennufallið og ekki minnst hjá Magnúsi Hákonarsyni sem gerði sér lítið fyrir og vann tvisvar, í síðara skiptið sjálfan aðalvinninginn. Þess má geta að allir sem fengu bingo fengu vinninga, en það var þó aðeins einn í einu sem hirti þann aðal!
 

Magnús Hákonarson vann ekki bara einu sinni heldur tvisvar og tók við vinningunum úr hendi Ásu Hildar Guðjónsdóttur stjórnanda.
Spenntar taugar!
Það verður heitt í kolunum þegar þrír eru með bingó í einu!