Víðsýn á víkingaslóðum

27. júl. 2010

Þann 22. júli héldu félagar í ferðafélaginu Víðsýn og Vin, athvarfi Rauða krossins fyrir fólk með geðraskanir,  í dagsferð. Var förinni heitið að Eiríksstöðum í Dölunum til þess að skoða víkingasafnið þar.

Alls voru 28 félagar Víðsýnar og Vinjar með í för.

Ferðin gekk vel og skemmtum við okkur í rútunni við söng og fræðslu en með í för var Hólmfríður Gísladóttir fyrrverandi starfsmaður Rauða krossins sem hefur frá opnun Vinjar 1993 farið með okkur árlega í ferðir og boðið uppá leiðsögn. Færum við henni hér með bestu þakkir fyrir.

Keyrt var upp Borgarfjörðinn sem skartaði sínu fegursta, þaðan upp Bröttubrekku og niður í Dalina. Byrjað var á að skoða víkingasafnið að Eiríksstöðum þar sem boðið er uppá lifandi leiðsögn en þar var bær Eiríks rauða og fæðingarstaður Leifs heppna.
 
Eftir að skálinn var skoðaður og ferðalangarnir höfðu fræðst um sögu feðganna og þeirra fólks, var keyrt í Búðardal þar sem hádegisverður var snæddur. Á heimleiðinni var komið við að Erpsstöðum þar sem hægt er að gæða sér á ís auk þess sem boðið er upp á leiðsögn um tölvustýrt fjósið og nýttu sér nokkrir það. Einnig var hægt að kaupa vörur hjá þeim, m.a.  ís, óhrært skyr og fetaost .

Komið var til Reykjavíkur um fimmleytið og voru allir sælir og ánægðir með ferðina.