Skákfélag Vinjar á Íslandsmótinu

12. mar. 2012

Íslandsmót Skákfélaga fór fram á Selfossi, föstudag og laugardag, annan og þriðja mars sl. Var þetta síðari hluti tímabilsins en fjórar fyrstu skákirnar fóru fram í Rimaskóla í október, þrjár síðustu semsagt fyrir austan fjall.

Skákfélag Vinjar, sem starfar innan veggja Vinjar sem er athvarf fyrir fólk með geðraskanir og rekið af Rauða krossi Íslands, sendi að sjálfsögðu harðsnúna sveit austur yfir heiðar. 50 manns eru skráðir í félagið en þó ekki allir virkir. Þrettán manns deildu milli sín tólf borðum en A liðið tekur þátt í þriðju deild og B liðið í þeirri fjórðu.

Þess má geta að það eru þó engir aukvisar í neðstu deildunum, inn á milli eru harðsvíraðir keppnismenn með áratuga reynslu, sem og efnilegustu börn og unglingar landsins. A lið Vinjarliðsins leiðir fyrrum Íslandsmeistari og einn allra besti skákmaður landsins á árum áður, alþjóðlegi meistarinn  Haukur Angantýsson. Hann hefur ekkert teflt í eina tvo áratugi en kíkti í Vin á skákæfingu í haust og var umsvifalaust skráður enda fengur að hafa svo þrautþjálfaðan kappa innan liðs, þó hann sé kannski ekki í sama formi og áður.

Annar fornfrægur kappi, Björn S. Sigurjónsson, fyrrum Akureyrar-, Kópavogs- og Reykjavikurmeistari  sem keppti fyrir Íslands hönd á árum áður, lést nú í desember en hann var svokallaður „joker“ Vinjarliðsins. Margir vinir og velunnarar hafa gengið til liðs við félagið, jafnvel  margreyndir keppnismenn – og konur – og tefla þar við hlið þeirra sem nýta sér athvarfið.

Það þrífast nefnilega engir fordómar í skákinni, sá vinnur sem teflir betur og ekki eru spurt um kyn, aldur, húðlit eða heilsufar!

Svo má geta þess að skákfólki finnst frábært að tefla á mótum í Vin þar sem andrúmsloftið þykir sérstaklega huggulegt.

A liðið var í 10. sæti af 16 liðum í þriðju deild þegar lagt var í hann en endaði í því 9. Eftir glæsilegan 6-0 sigur á C liði Bolvíkinga og komnir upp í sötta sætið, þá skutu B liðs menn Akureyringa Vinjargengið niður á jörðina með góðum sigri. Naumt tap gegn B liði Skákfélags Íslands í lokin gerði níunda sætið Vinjarmanna sem er vel ásættanlegt og bæting síðan í fyrra. B liðið hóf leik í 13. sæti  fjórðu deildar, af 21 liði. Þegar upp var staðið var ellefta sætið í húsi sem er fínn árangur því þar eru minna reyndir skákmenn – og konur -. Lea Maria C. Kienlein – Zach, sem starfað hefur með veraldarvinum hér á landi, tefldi með B liðinu og vann allar þrjár skákirnar og stóð sig þ.a.l. best. Árni H. Kristjánsson, hinn mikli bréfskákmeistari fékk tvo og hálfan af þremur mögulegum í rosalegum rimmum hjá A liðinu og var hann með bestan árangur þess.

Það skal tekið fram að hvor þátttakandi hefur 90 mínútna umhugsunartíma í skákinni og 30 sek  bætast við í hvert sinn sem leikið er. Hver skák getur hæglega farið í 4 klukkustundir þannig að þetta tekur heldur betur á.

En þetta var heilmikið ævintýri innan um erlenda stórmeistara og heimsmeistari kvenna kíkti í heimsókn. Félagið leigði pínulítil sumarhús fyrir liðið og þröngt máttu margir sofa en stemningin var fín og liðið til fyrirmyndar.

Markmiðið er – eins og alltaf - að hækka sig svolítið að ári!
 

Efstu menn í a liði vinjar sem var í þriðju deild.
Hou Yifan, heimsmeistari kvenna kikti á svæðið. Hún lék fyrsta leikinn í nokkrum skákum, m.a. fyrir Skákfélag Vinjar gegn Skákfélagi Íslands.