Óliver Aron Sólstöðumeistari

21. jún. 2012

Það var frábær stemning á Sólstöðumótinu sem haldið var í Vin eftir hádegi í gær. 33 þátttakendur sem gerir mótið það næstfjölmennasta sem haldið hefur verið á Hverfisgötunni hingað til. Teflt var bæði inni og úti en rigningarskúrir voru aðeins að stríða keppendum, en allir þó í sólskinsskapi.

Óliver Aron Jóhannsson er í fantaformi þessa mánuðina og sigraði í sex umferða mótinu þar sem umhugsunartíminn var 7 mínútur. Gerði hann jafntefli við Gunnar Björnsson en vann rest. Óliver vann hinn þrettán ára Gauta Pál Jónsson í hreinni úrslitaskák en Gauti Páll átti frábært mót og lagði miklu stigahærri andstæðinga á leið sinni í úrslitaskákina. Við tapið féll hann í fjórða sætið en Vigfús Vigfússon varð annar með fimm vinninga sem og hin þýska Caroline Rieseler, Fide meistari kvenna,  sem varð þriðja.

Vöfflukaffi var í hléi til að byggja upp orku fyrir lokaumferðirnar sem voru æsispennandi. Þau Stefán Bergsson og Ingibjörg Edda Birgisdóttir, frá Skákakademíu Reykjavíkur komu með ótrúlega flottan hóp ungmenna úr Sumarskákskólanum auk þess sem fjöldi efnilegustu unglinga okkar mætti á svæðið.  Gaman var að fá ferðalangana Caroline og hinn enska David Cook í heimsókn, en þau leituðu uppi mót til að taka þátt í á ferð sinni. Frábærlega skipað mót og sérlega skemmtilegt.

Veitt voru bókaverðlaun fyrir efstu sætin auk þess sem Krummi Arnar Bang fékk verðlaun fyrir 6 ára og yngri, Hilmir Freyr Heimisson (4v.)í flokki 12 ára og yngri, Gauti Páll (4,5 v.) í 16 og yngri, Svandís Rós Ríkharðsdóttir fyrir bestan árangur stúlkna og auk þess voru happadrættisvinningar.

Hrannar Jónsson, fyrirliði Vinjarliðsins, stjórnaði mótinu af röggsemi og sleppti því að taka þátt að þessu sinni.

1.   5.5    Óliver Aron Jóhanneson
 2.   5.0   Vigfús Vigfússon     
 3.   5.0   Caroline Rieseler    
 4.   4.5   Gauti Páll Jónsson     
5.   4.5   Gunnar Björnsson     
 6.   4.0  Hilmir Freyr Heimisson
 7.   4.0  Jorge Fonseca        
 8.   4.0  Jón Trausti Harðarson
 9.   4.0   Sigurjón Haraldsson  
 10.  4.0   Stefán Bergsson      
 11.  3.5   Eiríkur K. Björnsson
 12.  3.5   Haukur Halldórsson 

Tíu voru með þrjá vinninga og aðrir með minna.