Minningarmót um Hauk Angantýsson

13. ágú. 2012

Skákfélag Vinjar heldur mót til minningar um Hauk Angantýsson á mánudaginn klukkan 13:00.                    

Haukur lést eftir veikindi í byrjun mai sl en hann leiddi Skákfélag Vinjar seinasta vetur.

Það var mikil hamingja fyrir félagsmenn þegar Haukur settist að borðinu aftur eftir margra ára hlé, gekk til liðs við Vinjarliðið og sýndi að lengi lifir í gömlum glæðum. Haukur var goðsögn í íslensku skáklífi, frægur fyrir baráttu sína og lengi meðal allra sterkustu skákmanna landsins. Fyrrum Íslandsmeistari og sigurvegari á World Open í Bandaríkjunum þar sem hann, ekki enn kominn með alþjóðlegan titil, varð fyrir ofan hvern stórmeistarann á fætur öðrum.

Eftir fráfall Hauks afhentu systkini hans Skákfélagi Vinjar skákborð hans og bækur til varðveislu  og munu bækurnar verða uppi við auk þess sem marmaraborði kappans verður stillt upp á fyrsta borði. Systkini Hauks verða með okkur á þessu móti.

Veitt verða verðlaun í gríð og erg, fimm efstu sætin og aldursflokkaverðlaun, óvæntasti vinningurinn o.s.fr. Þá mun sigurvegari mótsins  hljóta forláta bikar og skákbók úr smiðju Hauks.

Að sjálfsögðu verður kaffihlé  en tefldar verða sex umferðir með sjö mínútna umhugsunartíma.

Skákfélag Vinjar tekur fagnandi á móti öllum þeim sem koma og heiðra minningu þessa mikla karakters og skáksnillings.