Sorpa styrkir Vin um 600.000 krónur

8. okt. 2012

Rauði krossinn fékk styrk frá SORPU bs. að upphæð 600.000 krónur þegar fyrirtækið úthlutaði afrakstri af sölu í Góða hirðinum. Styrknum er ráðstafað í kaup á tækjabúnaði í Vin.

Styrkurinn kemur sér vel fyrir starfsemi Vinjar, sem er athvarf fyrir fólk með geðraskanir. Á síðasta ári stóð til að Rauði krossinn hætti rekstri athvarfsins en í kjölfarið var stofnað vinafélag  Vinjar sem beitti sér fyrir áframhaldandi starfi. Því lauk með því að Vin verður opið í þrjú ár í viðbót og leggur vinafélagið auk Reykjavíkurborgar og ríkis til fjármagn en Rauði krossinn í Reykjavík heldur utan um reksturinn.

SORPA veitti alls rúmlega 10 milljónir að þessu sinni til 17 aðila sem sinna góðgerðarmálum. Allt frá árinu 1999 hefur ágóði af sölu í Góða hirðinum runnið til góðgerðarmála og hefur Rauði krossinn oft notið góðs af þeirri úthlutun.