Vel heppnuð ferð til Berlínar

27. jún. 2006

Ferðalangarnir frá Læk staddir við Berlínarmúrinn.
Frá stofnun Lækjar, athvarfs fyrir fólk með geðraskanir, hafa gestir starfrækt ferðafélagið Sólarsýn. Markmið félagsins er að standa fyrir ferðum jafnt innanlands sem utan. Í maí stóð félagið fyrir annari utanlandsferð sinni þegar 14 manna hópur flaug til Berlínar.

Ferðin var farin þann 25. maí og stóð í 6 daga. Það er mál manna að einkar vel hafi tekist til og eru ferðalangar mjög ánægðir með ferðina. Berlín er um margt spennandi borg og ekki skortur á athyglisverðum stöðum til að kynna sér. Dagskrá ferðarinnar var fjölbreytt og meðal þeirra staða sem skoðaðir voru má nefna glæsilegan dýragarð í miðborg Berlínar, leifar Berlínarmúrsins, Brandenborgarhliðið og fleira.

Gestir Lækjar stunda listasöfnin hér á Íslandi reglulega og því var ekki hægt að heimsækja Berlín án þess að fara á listasafn. Verkin sem þar mátti sjá voru heldur ekki af verri endanum því m.a. voru þar verk gömlu meistaranna, Rembrandt og fleiri.

Hópnum þótti einkar áhugavert að skoða leifar Berlínarmúrsins og hvernig hann lá í gegnum borgina og skipti Þýskalandi í tvö gerólík ríki. Borgin var skoðuð frá hinum ýmsu sjónarhornum og var m.a. farið í þriggja tíma siglingu og skoðunarferð í strætisvagni. Hópurinn komst svo auðvitað ekki hjá því að verða var við undirbúning Heimsmeistarakeppninnar í fótbolta en eins og menn vita stendur sú keppni nú yfir í Þýskalandi og er m.a. leikið í Berlín.