Gefandi fræðsla um geðheilbrigðismál

Njörð Helgason

7. feb. 2006

Salbjörg Bjarnadóttir, Guðbjörg Sveinsdóttir, Arndís Ósk Jónsdóttir, Njörður Helgason, Birgir Ásgeirsson og Margrét Ómarsdóttir.
Ljósmynd: Sunnlenska fréttablaðið
„Þetta var mjög skemmtilegt, fræðandi og gefandi námskeið," sagði einn þátttakandinn á námskeiði fyrir aðstandendur og áhugafólk um geðheilbrigðismál sem haldið var á Selfossi um helgina.

Að námskeiðinu stóðu Rauði kross Íslands, Geðhjálp og Landlæknisembættið. Fulltrúar aðilanna héldu fyrirlestra og voru með innlegg sem snertu hinar ýmsu hliðar geðheilbrigðismála eins og geðraskanir, meðvirknissorg, áföll og úrvinnslu, sjálfsvígsferli og lífshjólið. Þá var Margrét Ómarsdóttir með innlegg aðstandanda.

Í kjölfar innihaldsríkra fyrirlestra unnu þátttakendur í hópum sem krufu málefni fyrirlestranna til mergjar og ræddu saman út frá þeim.

Undir lok námskeiðsins kynnti Arndís Ósk Jónsdóttir frá Geðhjálp stuðningshópa aðstandenda og fólks með geðsjúkdóma. Í kjölfar þess innleggs voru stofnaðir tveir hópar sem ætla að koma á reglulegum fundum á Selfossi og í Skálholti.

Geðheilbrigðismál eru meðal áhersluverkefna Rauða kross Íslands og er verið að vinna að mörgum verkefnum í málaflokknum á vegum félagsins.

Sams konar námskeið, fyrir aðstandendur og áhugafólk um geðheilbrigðismál, verður haldið á Höfn í Hornafirði 24. og 25. febrúar næstkomandi og stefnt er að því að halda annað á Suðurnesjum 17. og 18. mars.