Geðfatlaðir vilja sjálfir hafa áhrif á úrræði sér til handa

Sólveigu Ólafsdóttur

26. jan. 2006

Páll Biering, Arndís Ósk Jónsdóttir og Guðbjörg Daníelsdóttir sem unnu rannsóknina ásamt Kristjáni Sturlusyni framkvæmdastjóra Rauða kross Íslands og Sveini Magnússyni framkvæmdastjóra Geðhjálpar kynntu niðurstöðurnar á fréttamannafundinum.

Áhyggjuefni er hversu lítið tillit er tekið til skoðana geðsjúkra og fjölskyldna þeirra í geðheilbrigðisþjónustu á Íslandi. Skýr skilaboð eru frá notendum um að brýnast sé að efla stuðning og meðferðir fyrir einstaklinga. Þetta kemur fram í nýrri rannsókn sem Rauði kross Íslands og Geðhjálp stóðu að um þarfir geðsjúkra og reynslu þeirra af geðheilbrigðisþjónustu á Íslandi.

Á fréttamannafundi sem haldinn var í dag kynntu fulltrúar Rauða kross Íslands og Geðhjálpar niðurstöður skýrslunnar, ásamt dr. Páli Biering, Guðbjörgu Daníelsdóttur og Arndísi Ósk Jónsdóttur, sem unnu rannsóknina.

Með því að spyrja notendur og aðstandendur þeirra um eigin viðhorf gagnvart heilbrigðiskerfinu vildu Rauði kross Íslands og Geðhjálp afla upplýsinga sem hið opinbera gæti haft til hliðsjónar um stefnumótun í geðheilbrigðismálum. Þetta er í samræmi við aðgerðaráætlun aðildaríkja Alþjóða heilbrigðisstofnunarinnar um að bjóða eigi fólki með geðraskanir að hafa áhrif á þá umönnun sem það á kost á. 

Rannsóknin er síðasti áfanginn hjá Rauða krossi Íslands í að kanna stöðu geðfatlaðra á Íslandi og þjónustu við þá. Kannanir sem deildir Rauði krossins létu gera á árunum 2001-2004 um hag og þarfir geðfatlaðra á Austurlandi, Suðurlandi, Suðurnesjum, Vesturlandi og Vestfjörðum hafa leitt svipaðar niðurstöður í ljós. 

Í rannsókninni komu meðal annars fram sterk tengsl milli efnalegra aðstæðna og félagslegrar einangrunar, og að sjúklingum þyki lyfjameðferð vera nýtt til fulls en að efla þurfi aðra tegundir meðferðar. 

Hægt er lesa niðurstöður skýrslunnar með því að smella hér