Fjölmennt fræðslukvöld um geðraskanir

25. nóv. 2005

Erla Hrönn Diðriksdóttir og Garðar Sölvi Helgason kynntu starfsemi Vinjar.
Streita, geðsjúkdómar og svefnvenjur voru á meðal þess sem rætt var um á mánudagskvöldið þegar sjálfboðaliðar, gestir og starfsfólk Dvalar, Lækjar og Vinjar hittust í húsakynnum Reykjavíkurdeildar Rauða kross Íslands að Laugavegi 120. 

Rauði krossinn rekur eins og kunnugt er þrjú athvörf fyrir geðfatlaða á höfuðborgarsvæðinu: Dvöl í Kópavogi, Læk Hafnarfirði og Vin í Reykjavík. Tilgangur með rekstrinum er að gefa geðfötluðum vettvang þar sem þeir geta komið og rabbað saman, lesið blöðin og þar fram eftir götunum. Með því er hægt að rjúfa félagslega einangrun þessa hóps og styrkja með samneyti við aðra andlega og líkamlega heilsu. Þar sem athvörfin eru þrjú á höfuðborgarsvæðinu þykir tilvalið að standa að sameiginlegum fræðslu- og skemmtikvöldum með reglulegu millibili og var þetta fræðslukvöld fyrsti vísirinn að því.

Gestir athvarfanna höfðu gert veggspjöld um starfsemi athvarfanna hengd voru upp og því næst kynntu gestir og sjálfboðaliðar starfsemina á hverjum stað. Guðrún Ágústa Önnudóttir sagði frá starfsemi Lækjar, Anna Rósa Magnúsdóttir kynnti starfsemi Dvalar og þau Garðar Sölvi Helgason og Erla Hrönn Diðriksdótttir sögðu sameiginlega frá starfsemi Vinjar.

Ingólfur Sveinsson geðlæknir  hélt erindi um streitu og svefnvenjur og gerði því svo góð skil að hann var hvattur til að lengja erindið sem hann og gerði. Þegar Ingólfur lauk máli sínu var orðið áliðið enda höfðu skapast miklar umræður um efnið. Guðbjörg Sveinsdóttir  geðhjúkrunarfræðingur sem átti að vera með síðasta erindið lagði því til að því yrði frestað,  þetta hefði verið velheppnað kvöld og því engin ástæða til annars en að endurtaka það fljótt og þá skyldi hún tala af hjartans lyst. Var gerður góður rómur að því og stefnt er að því að endurtaka leikinn fljótlega á nýju ári. 

Hér eru fleiri myndir af fræðslukvöldinu. Ef smellt er á mynd opnast hún í stærri útgáfu.