Þjáist þú af þunglyndi? Hringdu í 1717

9. okt. 2006

Höfundar eru: Helga G. Halldórsdóttir sviðsstjóri innanlandssviðs Rauða kross Íslands og Elfa Dögg S. Leifsdóttir verkefnisstjóri Hjálparsíma RkÍ 1717

Þunglyndi og geðraskanir er þema Hjálparsíma Rauða krossins vikuna 9. – 16. október.

Hjálparsími Rauða kross Íslands hefur númerið 1717 og er opinn allan sólahringinn. Hann er ætlaður fólki á öllum aldri sem er í vanda og þarf á aðstoð að halda eða  upplýsingar um úrræði. Í tengslum við Alþjóða geðheilbrigðisdaginn þann 10. október er þema Hjálparsímans áhersla á þunglyndi og geðraskanir vikuna 9. – 16. október.

Þeir sem eiga við þunglyndi að stríða og aðstandendur þeirra eru sérstaklega hvattir til að nýta sér þjónustu 1717. Þunglyndi er læknanlegt, hægt er að ná bata eins og af öðrum sjúkdómum. Rannsóknir sýna að yfir 80% þeirra sem þjást af þunglyndi ná sér að fullu. Sjálfsábyrgð, stuðningur, samvinna og hjálp eru lykilhugtök til að ná árangri.

Hringingar í Hjálparsímann eru að meðaltali um 50 á sólarhring. Flestar hringingarnar eru vegna sálrænna vandamála. Geðheilsa skiptir alla máli og mikilvægt er að bregðast skjótt við þegar einkenni gera vart við sig. Ekki bíða, hjálpin er á næsta leyti. Allt sem þarf er eitt símtal.

Rauði krossinn tekur undir yfirskrift Alþjóða geðheilbrigðisdagsins með að vaxandi vitund gefi aukna von. Saman eflum við geðheilsuna. Hver og einn þarf að huga að henni, því að geðheilsa er jafn mikilvæg og líkamleg heilsa. Miklar forvarnir, aukin þekking og skjót inngrip eru allt mikilvægir þættir þegar upp koma geðraskanir í fjölskyldum.

Sálrænn stuðningur er eitt af forgangsverkefnum Rauða kross Íslands. Félagið hefur gefið út fræðsluefni í þessum málaflokki. Starfandi er þverfaglegur hópur sjálfboðaliða í áfallateymi Rauða krossins sem hægt er að kalla út þegar á reynir. 

Rauði kross Íslands hefur árum saman unnið að geðheilbrigðismálum. Félagið hefur þó einbeitt sér sérstaklega að þeim málaflokki frá árinu 2000 vegna þeirrar slæmu stöðu sem fólk með geðraskanir hafði í samfélaginu og ljóst var að brýnna úrbóta var þörf.

Undanfarin ár hefur Rauði krossinn verið með kannanir og rannsóknir á landsvísu um þarfir geðfatlaðra til að bæta stöðu þeirra og eins að vekja athygli á málaflokknum og draga úr fordómum almennings. Niðurstöður hafa verið notaðar við val á verkefnum innan félagsins. Áhersla er lögð á að tekið sé mið af reynslu og viðhorfi þeirra sem eiga við geðröskun að stríða og að þeirra rödd nái til valdahafa til að bæta þjónustuna.

Deildir Rauða kross Íslands um allt land hafa á ýmsan hátt sinnt málefnum geðfatlaðra. Haldin hafa verið námskeið fyrir aðstandendur og áhugafólk um geðraskanir um allt land og verið vel sótt.  Myndaðir hafa verið stuðningshópar í kjölfar þeirra. Þá hafa sjálfboðaliðar í heimsóknaþjónustu heimsótt fólk með geðraskanir. Rekin eru fjögur athvörf fyrir fólk með geðraskanir. Vin í Reykjavík, Dvöl í Kópavogi, Læk í Hafnarfirði og Laut á Akureyri. 

Hjálparsími Rauða kross Íslands 1717 hvetur fólk til þess að kynna sér dagskrána í tilefni Alþjóðlega geðheilbrigðisdagsins og mæta á þá viðburði sem eru í boði. Mörg félagasamtök, stofnanir, fyrirtæki og listamenn hafa lagt sitt að mörkum til að minnast þess hve mikils virði geðheilsa okkar er.

Hægt er að fá frekari upplýsingar um starfsemi Rauða krossins á vefsíðunni www.redcross.is.