Setrið, athvarf fyrir fólk með geðraskanir, opnar á Húsavík

16. okt. 2006

Á alþjóða geðheilbrigðisdaginn, 10. október, var formlega opnað á Húsavík athvarf / iðja fyrir fólk með geðraskanir og þá sem vilja vinna markvisst að geðrækt og geðheilbrigði.

Athvarfið verður rekið sem tilraunaverkefni næstu 15 mánuði en að því standa Húsavíkurdeild Rauða krossins, Félags- og skólaþjónusta Þingeyinga og Heilbrigðisstofnun Þingeyinga.

R. Linda Skúladóttir félagsmálastjóri Þingeyinga opnaði iðjuna formlega og skrifaði undir samkomulag um reksturinn ásamt Magnúsi Þorvaldssyni gjaldkera Húsvíkurdeildar. Notendur völdu nafnið „Setrið" á athvarfið.

Alls mættu um hundrað manns við opnunina og á opið hús seinna um daginn. Það ríkti sannkölluð hátíðarstemning og voru fluttar ræður og tónlistaratriði. Veitingar voru í boði Kvenfélags Húsavíkur. 

Markmið miðstöðvarinnar eru m.a. að skapa batahvetjandi stuðningsúrræði og efla sjálfstraust og ábyrgð til félagslegrar þátttöku.

Setrið verður opið þrjá daga í viku til að byrja með. Forstöðumaður er Erla Alfreðsdóttir iðjuþjálfi. Verndari verkefnisins er Dagný Jónsdóttir, alþingismaður.