Mikill áhugi á handavinnu í Dvöl

25. okt. 2006

Margir af gestum Dvalar taka þátt í handavinnu og leggja um leið verkefnum Rauða krossins lið.

Handavinna hefur lengi verið í boði í Dvöl, athvarfi fólks með geðraskanir. Handavinnuhópurinn fór af stað aftur í septemberbyrjun eftir gott hlé í sumar. Mikill áhugi er á handavinnunni og nú eru karlanir farnir að taka talsverðan þátt. Hópurinn auglýsti eftir ókeypis garni og fékk heilan helling. Það sem karlarnir gera helst er að vinda garn sem var afhent á spólum. Þannig taka gestir Dvalar þátt í sjálfboðnu starfi á vegum Rauða krossins.

Í handavinnuhópnum eru m.a. prjónaðar peysur og teppi sem nýtast í neyðarpakka fyrir ungabörn erlendis sem Rauði krossinn aðstoðar.

Kópavogsdeild Rauða kross Íslands annast rekstur Dvalar í samvinnu við Kópavogsbæ og Svæðisskrifstofu málefna fatlaðra á Reykjanesi. Markmiðið með rekstrinum er að rjúfa félagslega einangrun, draga úr fordómum og auka lífsgæði þeirra sem eiga við geðræna sjúkdóma að stríða.

Gestir koma í Dvöl á eigin forsendum eða með stuðningi annarra og njóta þeirrar þjónustu sem er í boði. Áhersla er lögð á að efla sjálfstæði og virkni gestanna. Sjálfboðaliðar hafa verið virkir í rekstri Dvalar frá upphafi og sjá m.a. um að halda opnu húsi á laugardögum.

Dvöl er til húsa í Reynihvammi 43. Nánari upplýsingar um starfsemina er á heimasíðu Dvalar.