Að heyra raddir - námskeið með Ron Coleman

7. nóv. 2006

Rauði kross Íslands stendur fyrir námskeiðinu „Að heyra raddir" fyrir fagaðila og notendur geðheilbrigðisþjónustunnar þann 13. nóvember. Leiðbeinandi á námskeiðinu er Ron Coleman frá Skotlandi.

Ron hefur sjálfur reynslu af því að heyra raddir og ná bata af geðröskun og hefur notað þá reynslu til þess að þróa hugmyndir um svokallaða batamiðaða meðferð við geðröskunum. Hann hefur unnið að uppbyggingu félagasamtaka fólks sem heyra raddir í Bretlandi og frætt almenning og fagfólk um reynslu sína. Hann rekur ásamt konu sinni fyrirtækið „Working To Recovery” og veitir ráðgjöf og þjálfun innan geðheilbrigðiskerfisins.

Námskeið þetta kemur í kjölfar aukinnar umræðu og athygli á aðstæðum og réttindamálum fólks með geðraskanir hérlendis. Þar hafa notendur og fagfólk bent á þörfina fyrir fjölbreytta meðferðarhugmyndafræði, samfellu í þjónustu og aukið val og samráð við notendur og aðstandendur.

Námskeiðið fer fram á Grand Hótel mánudaginn 13. nóvember kl. 9-15 og kostar 1000 kr. fyrir notendur og 3000 kr. fyrir aðra gesti. Skráning er í síma 570 4000 fyrir 10. nóvember.