Námskeið um geðheilbrigðismál á Siglufirði

9. nóv. 2006

Námskeið fyrir aðstandendur og áhugafólk um geðheilbrigðismál var haldið á Siglufirði dagana 2. og 3. nóvember. Mikill áhugi var meðal heimamanna og húsnæði Siglufjarðardeildar dugði ekki fyrir þá 36 þátttakendur sem sóttu námskeiðið og var það því flutt í grunnskólann.

Er þetta 11. námskeiðið af þessu toga sem haldin hafa verðið víðs vegar um landið og það þriðja á Norðurlandi. Alls hafa 650 þátttakendur sótt námskeiðin. 

Markmið námskeiðanna er að fræða fólk um málefni geðfatlaðra og geðheilbrigði og leiðbeina við myndun sjálfshjálpar- og stuðningshópa. Ekki voru lögð drög að myndun slíkra hópa, en ákveðið að boða til samveru í húsnæði Siglufjarðardeildar Rauða krossins fljótlega þar sem að framhaldið yrði ákveðið. 

Fjallað var um helstu tegundir geðsjúkdóma, meðferð og úrræði. Hugtök eins og meðvirkni, sjálfsvirðingu og sjálfsstyrkingu. Einnig var fjallað um mikilvægi andlegrar og líkamlegrar heilsuræktar. 

Leiðbeinendur voru: Guðbjörg Sveinsdóttir, Salbjörg Bjarnadóttir, sr. Vigfús Albertsson, Margrét Ómarsdóttir og Sveinn Magnússon.