Fjallað um geðheilbrigðismál innan Rauða krossins

16. nóv. 2006

Sameiginlegur vinnudagur athvarfa Rauða krossins fyrir geðfatlaða og fulltrúa deilda sem starfa að geðheilbrigðismálum var haldinn á föstudaginn.

Greint var frá því helsta sem er á döfinni í málaflokknum innan félagsins og  kynnt ný verkefni, þar á meðal starfið í Setrinu á Húsavík og sjálfboðaliðaverkefni gesta Vinjar. Sjálfboðaliðaverkefnið felst í því að kynna starf athvarfanna á geðsviði spítalanna. Ása Hildur Guðjónsdóttir er ein sjálfboðaliðanna og sagði hún frá góðri reynslu af verkefninu.

Ása Hildur Guðjónsdóttir sagði frá reynslu sinni af því að kynna athvörfin á geðsviði spítalanna.
Margrét Eiríksdóttir fjallaði um reykleysimeðferð og mögulega yfirfærslu meðferðarinnar á aðra þætti í lífinu svo sem mataræði og hreyfingu. Stuðnings- og sjálfshjálparhópar starfa í Vin og Læk fyrir þá sem vilja hætta að reykja. 

Anneta A. Ingimundardóttir iðjuþjálfi hélt fyrirlestur um virkni og velti fyrir sér hvað væri að vera virkur þjóðfélagsþegn og hvernig hægt væri að virkja alla sem koma að málaflokknum sem best. Í framhaldi var unnið í hópum.

Ýmis önnur mál  sem varða rekstur og starf athvarfanna fengu umræðu og skipst var á skoðunum. Deginum lauk með æfingum í hláturjóga. Þátttakendur voru 20 talsins.