Að heyra raddir, vel heppnað námskeið Ron Coleman

17. nóv. 2006

Um 70 manns, notendur, fyrrverandi notendur og starfsfólk geðheilbrigðisþjónustunnar komu saman á Grand hótel mánudaginn 13. nóvember og hlustuðu á Ron Coleman fjalla um aðferðir til að ná tökum á röddum og ná bata af einkennum sem oftar en ekki hafa verið túlkuð sem ólæknandi heilasjúkdómur. Ron vinnur sjálfstætt og heldur fyrirlestra og námskeið um geðheilbrigðismál um allan heim. Hann hefur einnig skrifað bækur og fræðigreinar um málefnið.

Rauði krossinn stóð fyrir námskeiðinu sem stóð í einn dag. Hlýtt var á fyrirlestra og unnið í hópum. Fjallað var um breytt viðhorf gagnvart því að heyra raddir, meðal annars sýna rannsóknir að allt að 4% fólks heyrir raddir en aðeins þriðjungur þeirra verða notendur geðheilbrigðisþjónustunnar. 

Raddir eru raunverulegar fyrir þann sem heyrir þær, raddirnar sjálfar þurfa ekki að vera vandamálið, heldur sambandið við þær, valdið og áhrifin sem þær hafa á líf fólks. Einnig sýna rannsóknir að 70% þeirra sem heyra raddir og fá geðsjúkdómagreiningu í kjölfarið hafa byrjað að heyra raddirnar eftir áföll af ýmsum toga og nú er farið að vinna með einkennin með hliðsjón af því, ekki bara sem efnaskipti eða líffræðilegt viðfangsefni.

Fjallað var um ýmis bjargráð, ekki bara við að stjórna röddunum heldur til þess að fólk nái stjórn og fái ábyrgð á eigin lífi. Frá fórnarlambi til sigurvegara.

Ron sagði sögu sína af áföllum og misnotkun og 13 ára sögu sem langveikur geðklofasjúklingur. Hann lýsti eigin bataferli og ræddi þörfina á að breyta geðheilbrigðiskerfinu þannig að það lagi sig að þörfum hvers og eins í stað þess að hinn sjúki þurfi stöðugt að laga sig að kerfinu. Að þessu verða notendur og starfsfólk að vinna saman á jafnréttisgrundvelli, notandinn er sérfræðingur í sinni reynslu, starfsfólkið sérfræðingar í sínu fagi.

Hægt er að nálgast upplýsingar um Ron, vinnu hans og útgáfu á vefsíðunni: www.roncolemanvoices.co.uk