Sparisjóðurinn styrkir verkefni í geðheilbrigðismálum

20. nóv. 2006

Námskeið Rauða kross Íslands fyrir aðstandendur geðfatlaðra og áhugafólk um geðheilbrigðismál er eitt af þeim átta framsæknu verkefnum í geðheilbrigðismálum sem Sparisjóðurinn valdi að styrkja með söfnunni Þú gefur styrk sem stendur til jóla.

Söfnunin fer þannig fram að Sparisjóðurinn óskar eftir þátttöku allra viðskiptavina sinna. Hver um sig getur valið eitt af verkefnunum átta og leggur þá Sparisjóðurinn 1.000 krónur til þess verkefnis í nafni viðskiptavinarins. Einnig verður opnaður söfnunarsími svo landsmenn allir geti lagt sitt af mörkum. Símanúmerið er 901 1000 og kostar hvert símtal 1.000 krónur sem dreifast jafnt á verkefnin átta. Með þessu móti er vonast til að alls takist að veita um 25 milljónum króna til þessara verkefna.

Markmið og tilgangur námskeiðanna sem fá þennan styrk er að efla þekkingu og skilning á geðröskunum og stuðla að auknum lífsgæðum geðfatlaðra og fjölskyldna þeirra. Námskeiðin standa í tvo daga og eru þátttakendum að kostnaðarlausu. Sjálfboðaliðar í deildum Rauða kross Íslands hjálpa til við undirbúning og námskeiðahald. Í kjölfar hvers námskeiðs hafa verið myndaðir frá einum upp í þrír stuðnings- og sjálfshjálparhópar á hverju svæði. 

Rauði kross Íslands hefur í samstarfi við Landlæknisembættið og Geðhjálp haldið 11 námskeið fyrir aðstandendur geðfatlaðra og áhugafólk um geðheilbrigðismál undanfarin misseri sem 550 manns hafa sótt. Mikil eftirspurn er eftir námskeiðunum og greinileg þörf fyrir þau í þjóðfélaginu. Mikilvægt er því að námskeiðin séu áfram í boði. Fjárframlag og stuðningur Sparisjóðsins og landsmanna auðveldar verulega að umræddri þörf verði sinnt.

Hægt er að leggja söfnuninni Þú gefur styrk lið á vef Sparisjóðsins www.spar.is og með því að hringja í símanúmerið 901 1000.