Haustmót athvarfa Rauða kross Íslands fyrir geðfatlaða

4. okt. 2006

Eftir Arnar Valgeirsson

Tæplega 40 manns frá athvörfunum hittust í Húnavatnssýslu og áttu skemmtilega daga saman.

Þann 20. sept. sl. fór föngulegur hópur frá þremur athvörfum Rauða kross Íslands með rútu frá Guðmundi Jónassyni áleiðis norður í land og var áætlunarstaður Gauksmýri í Vestur-Húnavatnssýslu. Um árabil hafa gestir og starfsfólk athvarfanna farið á áhugaverða staði og gert hitt og þetta skemmtilegt saman. Hafa ferðirnar ávallt vakið lukku og svo varð einnig að þessu sinni.

Frá Dvöl í Kópavogi mættu átta manns, 11 frá Vin í Reykjavík og níu frá Læk í Hafnarfirði sem voru að fara á sitt fyrsta mót. Að norðan komu svo 10 manns frá athvarfinu Laut á Akureyri. Það var því fjölmennt á svæðinu og rífandi fjör.

Hjónin Sigríður Lárusdóttir og Jóhann Albertsson hafa komið upp sérlega skemmtilegri aðstöðu á Gauksmýri þar sem þau reka hestamiðstöð, glæsileg aðstaða fyrir 50 manns og ekki væsti um mannskapinn.

Lautargengið skellti í lasagnarétt. Var honum gerð góð skil eftir að ferðaþreyttir sunnlendingar höfðu mætt á svæðið og allir komið sér vel fyrir. Um kvöldið var spjallað, spilað og teflt og hafinn undirbúningur fyrir næsta dag.

Hammstangadeild Rauða krossins heimsótt og Húnavatnssýslan skoðuð

Næsta morgun steig svo um borð í rútuna hinn reffilegi hópur og var brunað á Hvammstanga sem er ekki nema korterskeyrsla. Rauða kross deildin hafði boðið í mat en  margir skelltu sér í hina bráðfínu sundlaug Hvammstangabúa fyrir matinn og aðrir gengu um bæinn í góða veðrinu og hituðu upp fyrir hina kraftmiklu súpu og salatið sem var vel útilátið. Er ekki úr vegi að þakka formlega fyrir matinn og leiðsögnina því boðið var á ferð í Selasetrið og eftir það á hið stórskemmtilega gallerý Bardúsu þar sem á loftinu er gömul krambúð og á neðri hæð er handverk Húnvetninga til sölu.

Svo heppilega vildi til að Jónínurnar tvær í hópnum, Hjaltadóttir, forstöðumaður Lautar og Jónína Auður Sigurðardóttir starfsstúlka þar eru öllum hnútum kunnugar á þessum slóðum. Jónína Hjaltadóttir rak í nokkur ár sambýli fyrir fatlaða að Gauksmýri áður en staðurinn breyttist í hestabúgarð og Jónína Auður er frá Hvammstanga og þekkir aðra hvora þúfu í sveitinni þannig að þær voru auðvitað skipaðar leiðsögumenn um Vatnsnesið.

Í frábæru ferðaveðri var komið við í Borgarvirki sem er magnaður staður, rennt fram hjá Vatnsenda þar sem Rósa samdi sín kvæði í gamla daga og fræddust ferðalangar um holt, hóla, lautir, læki og fjöll enda leiðsögumennirnir viskubrunnar hinir mestu.

Eftir kaffisnarl í Víðigerði var rennt í hlað að Gauksmýri og skellti fólk sér í betri fötin, enda galakvöldverður á næsta leiti.

Galakvöldverður og skákmót

Það var tími til að skella upp glæsilegu skákmóti fyrir matinn, Guðbrandsmótinu, en einn mótsgesta, hann Guðbrandur, átti afmæli svo ekki mátti það minna vera. Af 38 mótsgestum tóku níu manns þátt í bráðfjörugu móti, þar sem fórnir og fléttur voru allsráðandi og taugarnar þandar. Að lokum stóðu þeir Páll Jónsson frá Laut og Haukur Halldórsson frá Vin uppi sem sigurvegarar en Stefán Júlíusson, Akureyringurinn spræki, kom þar fast á eftir. Allir hlutu þeir Informator skákbækur í verðlaun frá Skákfélaginu Hróknum.

Eftir frábæran kvöldverð var komið að skemmtiatriðum þar sem boðið var upp á tónlist og leiki. Í Ásadansinum sameinast einmitt leikur, dans og tónlist þannig að hann var tekinn oftar en einu sinni og allir í rífandi sveiflu.

Á þriðja degi, föstudag, var pakkað saman og héldu sunnlendingar til sinna heimahaga í rútunni sem Halldór Jóhannsson, Patreksfirðingurinn knái, stjórnaði af alkunnri snilld. Norðlendingar héldu hinsvegar heimleiðis á sínum kálfi sem Jónína Hjaltadóttir stjórnaði af röggsemi, enda þekkir hún leiðina nánast betur en sjálfa sig.

Voru allir sammála um að þetta hefði verið hin fínasta ferð og gaman að kynnast fólki frá öðrum athvörfum. Ekki er annað tekið í mál en að þessi haustmót séu komin til að vera og nú mega Hafnfirðingar fara að skoða landakortið því skipulagning fyrir næsta mót er í þeirra höndum.

Sjá myndir úr ferðinni: