Í felum

5. okt. 2007

Höfundur greinarinnar er gestur í Dvöl athvarfi Rauða krossins fyrir geðfatlaða. Tilefnið er Alþjóði geðheilbrigðisdagurinn þann 10.október.

Á undanförnum árum hafa fordómar gagnvart fólki með geðraskanir minnkað töluvert. Þó er enn langt í land að þeim sé að fullu útrýmt. Til þess þarf hugarfarsbreytingu og hún gerist ekki  á einum degi. Tilgangurinn með þessari grein er að láta í mér heyra í tilefni af Alþjóðlega geðheilbrigðisdeginum og efla þannig umræðu um fordóma.

Mér finnst allt of lítið heyrast í fólki sem á við geðraskanir að stríða. Því vil ég segja lítillega frá minni reynslu. Ég veiktist fyrst alvarlega í ársbyrjun 2004 og var í kjölfarið lögð inn á geðdeild. Fyrsta hugsunin var ,,hvað halda aðrir um mig núna?“ Mín nánasta fjölskylda hefur alltaf stutt við bakið á mér og reynst mér mjög vel. En þar sem ég er „í felum“ gagnvart öðrum skyldmennum, þá veit ég ekki hver viðbrögð þeirra yrðu ef þau vissu um mína líðan.  Ég óttast að þau gætu orðið neikvæð, annars væri ég búin að segja fleirum frá veikindum mínum. Hræðslan við fordóma í þjóðfélaginu gerir það erfitt fyrir marga að koma fram sem einstaklingur með geðröskun. Þetta leiðir til þess að partur af þjóðfélaginu verður ósýnilegur.

Í dag er heilsa mín betri en þegar mér leið sem verst. Lyfin hafa hjálpað mér eitthvað en það er mér einnig nauðsynlegt að umgangast annað fólk. Hætt er við því að fólk með geðraskanir einangrist félagslega. Til að sporna gegn því eru nú starfræk þrjú athvörf fyrir geðfatlaða á höfuðborgarsvæðinu: Dvöl í Kópavogi, Vin í Reykjavík og Lækur í Hafnarfirði. Hægt er að fá nánari upplýsingar um athvörfin á heimasíðu Rauða krossins. Einnig býður Hugarafl upp á ókeypis þjónustu sem kallast Samherji. Þar miðla notendur heilbrigðiskerfisins sem eru í  bata, öðrum af reynslu sinni. Frekari upplýsingar um Samherja er hægt að nálgast á heimasíðu Hugarafls.

Vonandi með aukinni umræðu og fræðslu er smám saman hægt að draga úr fordómum gagnvart fólki með geðraskanir.