Væntanleg opnun geðræktarmiðstöðvar

11. okt. 2007

Í tilefni Alþjóðlega geðheilbrigðisdagsins, í gær, var haldin hátíð í Kompunni þar sem opnuð verður geðræktarmiðstöð innan tíðar. Fullt var út úr dyrum og bauð Héraðs- og Borgarfjarðardeild Rauða krossins uppá veitingar.

Jón Knútur Ásmundsson verkefnastjóri hjá Saust, svæðisskrifstofu málefna fatlaðra á Austurlandi, sagði frá starfsemi Kompunnar en búið er að ráða starfsmann í hlutastarf. Áætlað er að Geðhjálp verði með símatíma og tveir sjálfshjálparhópar verða með fund einu sinni í viku (einn fyrir notendur og annar fyrir aðstandendur geðfatlaðra).

Málfríður Björnsdóttir formaður Héraðs- og Borgarfjarðardeildar Rauða krossins sagði frá aðkomu deildarinnar að geðræktarmiðstöðinni en deildin mun útvega sjálfboðaliða og koma að starfseminni með ýmiss konar styrkjum.

SAust og Fljótsdalshérað skrifuðu undir samkomulag um starfsemi Kompunar. Margir komu í pontu til að lýsa ánægju sinni yfir tilvonandi opnun og óskuðu starfseminni velfarnaðar.

Að lokum las Sveinn Snorri Sveinsson formaður Geðhjálpar á Austurlandi eigin ljóð og Bjartmar Guðlaugsson skemmti með spjalli og söng.