Starfsdagur athvarfa Rauða krossins

7. nóv. 2007

Sameiginlegir vinnudagar starfsfólks athvarfa Rauða krossins voru haldnir á landsskrifstofunni að Efstaleiti 9. Reykjavík  1. og 2. nóvember síðastliðinn.  Alls voru 33 þátttakendur. Á dagskránni voru fyrirlestrar, umræður og hópastarf. 

Kynnt var starfsemi athvarfanna um allt land og greint frá nýjungum sem í gangi eru á hverjum stað en auk þess fjallað um helstu markmið með rekstri athvarfanna og hugmyndafræðinni sem þau byggja á.  Einnig var rætt um  námskeið sem eru í gangi og þau sem eru í vinnslu fyrir notendur þjónustunnar og aðstandendur.  Fjallað var um helstu flokka geðraskana og farið í áherslur í kynningamálum.

Í lokin  var dagskrárliður með yfirskriftinni “Umhyggja þeim sem umhyggju veita”, þar sem tekið var meðal annars til umræðu hættuna á kulnun í starfi og mikilvægi góðs samstarfs. Þátttakendur komu frá öllum athvörfum sem Rauði krossinn rekur eða kemur að rekstri á en þar að auki kom fulltrúi frá athvarfinu Björg á Suðurnesjum, fulltrúi frá Fimmtudagshópnum á Vesturlandi og tveir fulltrúar frá Strók á Suðurlandi.  Fundarmenn lýstu ánægju sinni með að halda árlega fund með þessum hætti. 
 
Athvörfin eru Vin og Konukot í Reykjavík, Dvöl í Kópavogi, Lækur í Hafnarfirði, Laut á Akureyri, Vesturafl á Ísafirði, geðræktarmiðstöðvarnar Setrið á Húsavík og Kompan á  Egilsstöðum.