Styrkjum geðheilsu barna!

9. nóv. 2007

Rauði krossinn ásamt sjö öðrum félagasamtökum tekur þátt í átaki Sparisjóðsins til stuðnings börnum og unglingum með geðraskanir.

Á fréttamannafundi sem haldinn var á Hótel Sögu þann 8. nóvember kynnti leikarinn Jón Gnarr styrktarátak Sparisjóðsins „Þú gefur styrk“. Átakið stendur til jóla og þeir sem velja að styrkja Rauða krossinn hjálpa félaginu á koma á fót félagsvinaverkefni.

Verkefnið er til stuðnings börnum og unglingum sem eiga við geðræn vandamál að stríða og/eða til stuðnings börnum sem eiga foreldri/foreldra með geðröskun.  Félagsvinurinn veitir stuðning samtímis meðferð til þessara barna og unglinga með því að mynda traust, jákvætt og gefandi vináttusamband.  Þetta vináttusamband hjálpar börnunum að þroska félagshæfni þeirra og hjálpar þeim til að vera virkari þátttakandi í samfélaginu.

Hliðstætt átak var gert í fyrra en þá notaði Rauði krossinn styrkinn til að koma á móts við mikla þörf fyrir fræðslu til aðstandenda fólks með geðraskanir og áhugafólks um geðheilbrigðismál.