Rauði krossinn fékk 2,5 milljónir frá Sparisjóðnum til sjálfboðaliðaverkefnis sem eflir geðheilsu ungs fólks

4. jan. 2008

Í gær afhenti Sparisjóðurinn átta félögum, sem láta sig geðheilsu ungs fólks varða, styrk að fjárhæð 21 milljónum króna. Rauði krossinn fékk rúmlega 2,5 milljónir í sinn hlut. Fjárhæðin kom úr styrktarátaki Sparisjóðsins fyrir börn og unglinga með geðraskanir, Þú gefur styrk, sem hófst þann 8. nóvember og lauk á aðfangadag.

Rauði krossinn mun verja styrknum í verkefnið Félagsvinur barna og unglinga sem er sjálfboðaliðaverkefni til stuðnings börnum og unglingum sem eiga við geðræn vandamál að stríða og/eða til stuðnings börnum sem eiga foreldri/foreldra með geðröskun. Félagsvinurinn (mentor) veitir stuðning samtímis meðferð (einstaklings-eða fjölskyldumeðferð) til þessara barna og unglinga með því að mynda traust, jákvætt og gefandi vináttusamband.

„Fjársöfnun Sparisjóðsins er mjög þýðingarmikil fyrir þetta nýja verkefni til eflingar geðheilsu ungs fólks. Verkefnið mun fara af stað fljótlega á árinu,” segir Helga G. Halldórsdóttir sviðsstjóri innanlandssviðs Rauða krossins.

Áhugasamir sjálfboðaliðar geta skráð sig hér.

 
Rauði krossinn þakkar Sparisjóðnum sem og öllum viðskiptavinum og landsmönnum sem lögðu sitt af mörkum til söfnunarinnar.