Vin í 15 ár

forstöðumann og gesti Vinjar

8. feb. 2008

Í framkvæmdaáætlun Rauða kross Íslands fyrir tímabilið 1990-2001 var stefnan sett á að beita sér fyrir bættum hag þeirra sem minnst mega sín í þjóðfélaginu. Úrræði voru af skornum skammti fyrir geðfatlaða, eftir að sjúkrahúsvist lauk, og ákveðið var að setja á stofn athvarf þar sem fólk gæti komið saman á daginn og fengið stuðning og ráð.

Vin hóf starfsemi í fallegu húsi að Hverfisgötu 47 í Reykjavík, þann 8. febrúar 1993. Frá upphafi hefur húsið verið vel sótt. Gestakomur í húsið eru milli 400 og 500 á mánuði eða á milli 25 og 30 að meðaltali á dag.

Bak við þessar tölur eru um það bil 100 einstaklingar sem njóta og um leið skapa þá starfsemi sem fram fer í húsinu. Mikil gróska hefur verið í starfsemi Vinjar þessi 15 ár. Gestir hússins og starfsfólk þess sameinast um að halda góðum anda í húsinu og sameinast um að sinna húsverkunum, allt eftir getu og löngun hvers og eins. Þannig hefur verið reynt að virkja gesti á þeirra forsendum, haldnir húsfundir, fræðslufundir og vinnufundir þar sem viðhorf og vilji gestanna er nýttur til fjölbreyttrar starfsemi eins og heilsueflingar, listiðkunar, fræðslu og ferðalaga, jafnt utan- sem innanlands svo dæmi séu tekin.

Af ofansögðu er ljóst að hægt er að líta til baka með stolti varðandi þá starfsemi sem fram hefur farið í Vin síðustu 15 árin en jafnframt er ástæða til að líta bjartsýnisaugum til framtíðarinnar með tilliti til þess árangurs sem náðst hefur.

Hamingjukveðjur til starfsfólks og gesta Vinjar, með óskum um áframhaldandi farsælt starf.

Þórdís Rúnarsdóttir forstöðumaður

Hvað er Vin fyrir mig?
Vin er mjög mikilvæg fyrir mig. Í Vin fæ ég hlutverk í lífinu. Innan athvarfsins er rekið ferðafélag sem heitir Víðsýn og hef ég verið gjaldkeri þess frá árinu 2000, en félagið var stofnað árið áður. Ársvelta félagsins hefur verið rúm ein og hálf milljón undanfarin ár. Ég sé um bókhald, fjárreiður og reikningshald fyrir félagið.

Á sínum tíma þegar ég var 17 ára, 1971, sótti ég Verslunarskólann innan af Kleppi. Skólafélögum mínum þótti afar spennandi að ég skyldi sofa á Kleppi Þeir spurðu hvað gert yrði, ef ég kæmi ekki, hvort lýst yrði eftir mér og leitað um bæinn. „Þá hringja þeir bara til mín,“ svaraði ég. Krakkarnir urðu fyrir vonbrigðum með svarið.

Nú kemur þessi þekking úr Versló að góðum notum. Allir þurfa að hafa hlutverk.

Garðar Sölvi Helgason

Hvað er Vin fyrir mig?
Fyrst og fremst stórt kærleiksríkt menningarheimili. Þar sem vinir mætast á jafningjagrunni og eiga saman góðar stundir. Þar sem fólk er hvatt áfram á jákvæðan hátt. Fyrir mér hefur Vin verið lífsspursmál í rúm 14 ár. Þar sem ég hef komið reglulega og ávallt fengið að blómstra, fengið verðug verkefni og bæði fengið að þiggja og gefa. Þar hafa hæfileikar mínir verið metnir að verðleikum og ég fengið tækifæri til að byggja mig upp smátt og smátt. Í Vin hef ég eignast góða vini sem hafa aukið lífsgæði mín verulega. Með þeim hef ég ferðast vítt og breitt um heiminn, ferðalög sem annars hefðu ekki verið farin. Þar hef ég fengið tækifæri til að afla mér víðtækrar þekkingar, ekki síst á geðheilbrigðismálum. Í Vin er ávallt opinn faðmur og kærleikur hvort sem hornin á manni snúa inn eða út. Þökk sé Rauða krossi Íslands.

Ása Hildur Guðjónsdóttir

Hvað er Vin fyrir mig?
Vin, athvarf fyrir fólk með geðraskanir, tók til starfa 8. febrúar 1993 og verður því 15 ára í ár. Fyrsta árið var ekki eins mikil starfsemi í húsinu eins og núna er og félagslíf var minna. Þetta hefur aukist í gegnum árin. Mikil áhersla er lögð á ferðalög, bæði innanlands og utan. Fyrstu tvö árin var ekki farið í ferðalög en það var árið 1995 sem fyrsta ferðin var farin. Árið 1999 var ferðafélagið Víðsýn stofnað. Bæði gestir og starfsfólk skipa stjórn í ferðafélaginu. Eftir stofnun Víðsýnar höfum við ferðast mikið, bæði erlendis og innanlands. Þessar ferðir hafa verið mjög vel sóttar.

Það er heitur matur í hádeginu í Vin alla virka daga nema á miðvikudögum, yfir vetrartímann, en þá er opið frá kl. 13:00 til 20:00 og er þá heitur matur kl. 17:30. Lögð er áhersla á hollan og góðan mat og er sérstakur heilsudagur einu sinni í viku þar sem eitthvað sérstakt er gert eða rætt varðandi betri heilsu og lífsgæði. Einnig er boðið upp á myndlist þar sem gestir hússins geta teiknað eða málað. Í Vin er heimilislegt umhverfi þar sem leitast er við að skapa heimilislegt andrúmsloft svo öllum geti liðið vel. Í eldhúsinu fá gestir að aðstoða við matseld, en hver gestur getur verið til aðstoðar einu sinni í viku, og er það oft eftirsótt. Einnig er farið á listasöfn eða í göngutúra í nánasta umhverfi athvarfsins. Þrír forstöðumenn hafa verið við stjórn Vinjar frá upphafi og eru starfsmenn alls 4. Þeir eru boðnir og búnir að aðstoða við ýmis persónuleg og praktísk mál sem brenna á gestum. Fólk sem sækir Vin er á aldrinum 30 til 80 ára svo það er mikil aldursbreidd. Það er gott að koma í Vin, fólk lítur á staðinn sem sitt annað heimili. Heimilislegt andrúmsloft og hlýlegt umhverfi. Megi gæfan fylgja Vin um ókomna tíð.

Fanney Guðmundsdóttir

Jesú Kristur
Kristur þú ert konungur minn,
kærleiksríkur er faðmur þinn.
Krossinn þrái að taka á mig,
takmarkalaust ég elska þig.

Í myrkri leit ég lítið ljós,
er lýsti vegu mína.
Leiðarstjarna mér til góðs
gjöful vill mér sýna.

Vísaðu mér veginn þinn,
að þröngur verði stígur minn.
Krossinn þrái að taka á mig,
takmarkalaust ég elska þig.

Helga Högnadóttir


10.8. 2002
Margan veilan hefur heilað
hyggjubót,
norpa kuldann og naga rót,
nýta sjót.

Illt er að sjá við svik og prett,
ef seinn er þankinn,
vankað sinnið, veikur skankinn.
Margur haltur hemur rölt
og húkir inni.

Ýmsa ber þó sorg í sinni,
sæmdi betur að efla kynni.

Leifur Jóelsson