Lækur opnar á laugardögum

22. feb. 2008

Lækur, athvarf fyrir fólk með geðraskanir, í Hafnarfirði hefur nú opið á laugardögum milli klukkan 12:00 og 15:00. Lækur er staðsettur að Hörðuvöllum 1, fyrir neðan nýja Lækjarskóla.

Góður hópur sjálfboðaliða stendur laugardagsvaktina. Boðið er upp á léttan hádegisverð, ristað brauð og skyr, ásamt því að ræða saman, spila og sinna ýmsum áhugamálum.

Síðastliðinn mánuð hafa sjálfboðaliðarnir verið að aðlagast starfinu og kynnast húsinu með því að mæta á laugardögum. Nú er komin góð reynsla á hópinn og ættu allir þeir gestir sem leggja leið sína til Lækjar á laugardögum að fá góðar móttökur.

Lækur hóf starfsemi haustið 2003. Mikil gróska hefur verið í athvarfinu og gestafjöldi aukist  með hverju árinu. Það er von Rauða krossins í Hafnarfirði að með því að hafa opið á laugardögum gefist tækifæri til að byggja enn frekar ofan á það góða starf sem hefur átt sér stað í húsinu.

Nánari upplýsingar á vefsíðu Lækjar.