Eins og stórt heimili

16. apr. 2008

Á milli tíu og tuttugu manns heimsækja á degi hverjum Dvöl - athvarf fyrir geðfatlaða sem Rauði krossinn starfrækir í Kópavogi í samvinnu við Kópavogsbæ og Svæðisskrifstofu málefna fatlaðra á Reykjanesi. Tæp tíu ár eru síðan starfsemin var sett á laggirnar og hefur henni vaxið mjög ásmegin á þeim tíma sem síðan er liðinn. Gestir Dvalar sækja athvarfið í þeim tilgangi að rjúfa félagslega einangrun og sækja þangað það sálufélag sem allir þurfa.

„Mér finnst mikilvægt að ekki sé fjallað um starfsemi Dvalar á þann hátt að þetta sé skjól þeirra sem minna mega sín. Markmiðið er að Dvöl sé valkostur þeirra sem lifa við einhverskonar geðraskanir, fólks sem vill lifa hefðbundnu lífi en þarf til þess stuðning. Sú hugmyndafræði hefur gefið mjög góða raun," segir Ingibjörg Hrönn Ingimarsdóttir sem tók við starfi forstöðumanns Dvalar í desember á síðasta ári. 

Það var fullt út úr dyrum í húsakynnum Dvalar við Reynihvamm í Kópavogi þegar tíðindamaður Okkar mála leit þar við á dögunum. Fólk var við ýmsa iðju; sumir að útbúa hádegismat, aðrir að fást við handavinnu eða glugga í blöðin. 

Rauði krossinn rekur fjögur athvörf fyrir fólk með geðraskanir, það er í Reykjavík, Hafnarfirði, Akureyri og í Kópavogi. Í tímans rás hefur myndast ákveðin menning í kringum hvert þeirra. „Mál hafa þróast þannig að stór hluti gesta hér eru fjölskyldufólk, margar konur sækja hingað til að fá félagsskap. Gjarnan eru þessar konur að fást við einhverja handavinnu, og ræða málefni líðandi stundar. Félagsskapurinn er þeim afar mikils virði," segir Ingibjörg Hrönn sem bætir við að gestir
Dvalar séu annars á öllum aldri og séu ólíkir eins og þeir séu margir.

Þórður Ingþórsson þroskaþjálfi og verkefnastjóri kom til starfa hjá Dvöl í september í fyrra. „Starfsemin hér líkist helst því sem gerist á stóru heimili, þar sem allir þekkjast og ganga í þau störf sem þarf að sinna hverju sinni," útskýrir Þórður og bætir við að fyrir suma séu erfið spor að leita eftir félagsskap í athvarfi eins og Dvöl. Mörgum sé þröskuldurinn hár. Slíkt sé þó ástæðulaust, því vel sé á móti öllum tekið. Gestir geta einnig haft símasamband og nota þeir það talsvert.

Starfsemin í Dvöl hefst klukkan átta á morgnana virka daga og er húsið opið fram til klukkan 16 síðdegis. Staðgóður hádegismatur er miðjupunktur dagsins; en að öðru leyti fæst fólk við ýmsa iðju. Margir fastagesta Dvalar hafa bakland í félagsþjónustu og fleiri slíkum stuðningskerfum en þurfa eigi að síður stuðning til að rjúfa félagslega einangrun. Meðal  þess sem einnig er boðið upp á í dagskrá Dvalar er létt leikfimi og gönguhópur, kyrrðarstund og samvera, tómstundaherbergi aukinheldur sem einu sinni í viku er farið á kaffihús, í verslanir og fleira. Þá hafa gestir Dvalar farið reglulega í ferðalög, bæði innanlands og erlendis.

„Við höfum mjög takmarkaðar rannsóknir á því hvernig fólki með geðfötlun vegnar í samfélaginu og hvað því er mikilvægast í daglegu lífi," segir Ingibjörg Hrönn sem nýlega lauk MA prófi í fötlunarfræðum frá Háskóla Íslands. „Hér á landi hafa læknisfræðileg sjónarhorn verið ríkjandi í þjónustu við fatlaða og því hefur fólk með geðfötlun ekki farið varhluta af. Þessi skilningur hefur leitt til félagslegrar útskúfunar margra og hindrað samfélagsþátttöku þeirra, meðal annars vegna langvarandi vistunar á stofnunum. Rannsókn sem ég gerði vegna meistaraverkefnis míns leiddi hins vegar í ljós að breytt viðhorf og ný hugmyndafræði sem grundvallast á félagslegum sjónarhornum auka virka samfélagsþátttöku fólks með geðfötlun. Staða fólk batnar ekki endilega við flutning af stofnun og út í samfélagið og því er hlutverk athvarfa eins og Dvalar sérstaklega mikilvægt."

Hópurinn sem heimsækir Dvöl er stór, en á landsvísu rekur Rauði krossinn alls fjögur athvörf fyrir fólk með geðraskanir.