Námskeið í geðheilbrigðismálum á Norðfirði

8. okt. 2007

Um 35 manns sóttu námskeið fyrir aðstandendur og áhugafólk um geðheilbrigðismál sem haldið var í Egilsbúð á Neskaupstað um helgina. Er þetta 15. námskeiðið sem Rauði krossinn hefur haldið af þessum toga og það þriðja á Austurlandi. Þátttakendur komu frá Vopnafirði, Egilsstöðum, Seyðisfirði, Reyðarfirði, Eskifirði, Fáskrúðsfirði, Stöðvarfirði og Norðfirði.

Meginmarkmið námskeiðsins er að fræða fólk um málefni geðfatlaðra og setja á fót sjálfshjálparhópa. Í lokin voru þrír hópar stofnaðir, tveir á Norðfirði, annar fyrir foreldra barna með geð- og hegðunarraskanir og hinn fyrir aðstandendur geðfatlaðra og á Egilsstöðum var stofnaður hópur aðstandenda geðfatlaðra. Í undirbúningi er að stofna sjálfshjálparhóp á Eskifirði fyrir foreldra barna með geð- og hegðunarraskanir sem mun sinna fólki frá Reyðarfirði, Eskifirði og Fáskrúðsfirði.

Þess má geta að nú þegar eru fjórir sjálfshjálparhópar starfandi á Austfjörðum, ýmist fyrir aðstandendur eða notendur geðheilbrigðisþjónustunnar.

Fyrirlesarar á námskeiðinu voru Guðbjörg Sveinsdóttir geðhjúkrunarfræðingur, Salbjörg Bjarnadóttir geðhjúkrunarfræðingur hjá Landlæknisembættinu, Halldór Reynisson verkefnisstjóri fræðslumála á Biskupsstofu, Margrét Ómarsdóttir foreldri og Sveinn Snorri Sveinsson formaður Geðhjálpar á Austurlandi. Helga G. Halldórsdóttir sviðsstjóri innanlandssviðs Rauða krossins var námsskeiðsstjóri og hún ásamt Maríu H. Haraldsdóttur svæðisfulltrúa á Austurlandi sáu um undirbúning.