Jólaskákmót í Vin

8. des. 2011

Jólamótið í Vin verður haldið á mánudaginn, 12. desember klukkan 13:00.

Það má með sanni segja að það verði í glæsilegri kantinum þessa aðventuna.

Svo skemmtilega vill til, að þrír af stjórnarmönnum Vinafélags Vinjar gefa út bók nú fyrir jólin. Vigdís Grímsdóttir gefur skáldsöguna Trúir þú á töfra, Styrmir Gunnarsson er höfundur bókarinnar Ómunatíð, sem er ómetanlegt framlag til upplýstrar umræðu um geðsjúkdóma og áhrif þeirra, Þráinn Bertelsson skrifaði Fallið sem er að mati yfirlæknis SÁÁ ,,stórkostleg bók" um alkóhólisma.

Þessir glæsilegu rithöfundar verða sérstakir heiðursgestir mótsins.

Frábæra vinninga hefur Sögur – útgáfa lagt til og á myndinni má sjá þau verðlaun er sigurvegarinn tekur með heim, bikar og stórbókin 1001 þjóðleið eftir Jónas Kristjánsson þar sem yfir 1.000 göngu- og reiðleiðum er lýst og þær sýndar á vönduðum kortum.

Bækur hljóta einnig silfur- og bronshafi og auk þess er bók fyrir efsta unglinginn og sérstök kvennaverðlaun, nema ef stelpurnar rústa þessu.

Dregnar verða út glæstar bókmenntir í happadrætti, allir eiga séns á vinningi.

Skákstjóri, dómari og alráður er huggulegi framkvæmdastjórinn, Stefán Bergsson.

Ilmur af mandarínum, piparkökum og jólaöli svífur um stofur fram að hléi. Þá verður alltsaman étið.

Allir þvílíkt velkomnir að Hverfisgötu 47. Sími 561-2612