Skemmtilegt afmælismót í Vin

7. sep. 2011

Alþjóðlegi meistarinn Haukur Angantýsson sigraði á afmælismóti Ingibjargar Eddu Birgisdóttur í Vin –athvarfi Rauða kross Íslands fyrir fólk með geðraskanir. Mótið var afar hressilegt enda vel skipað og góðir gestir í heimsókn. Skákstjórinn hann Stefán Bergsson varð annar og Hjálmar Sigurvaldason átti flott mót og varð þriðji í mótinu. Ingibjörg hefur verið dugleg að mæta á æfingar og mót í Vin og hún hélt utan um skákina í sumar. Þessi fyrrum Íslandsmeistari kvenna sem er komin aftur eftir langt hlé mun tefla með Selfyssingum í vetur.

Hinn geðþekki borgarfulltrúi Óttarr Proppé setti mótið með nokkrum afar vel völdum orðum og lék fyrsta leikinn fyrir Grétar Sigurólason sem tefldi gegn afmælisbarninu. Það var þó ekki gert fyrr en Þórdís Rúnarsdóttir, forstöðukona athvarfsins, hafði fært Ingu afmælisgjöf með hlýjum orðum.

Vinningar komu frá Bókaforlaginu Bjarti –Veröld og mætti Gunnur Vilborg Guðjónsdóttir frá forlaginu í partýið. Fimm efstu fengu vinninga auk happadrættisvinninga þar sem sá flottasti var bækurnar „Himnaríki og helvíti“ og  „Harmur englanna“, fyrstu tvær bækur í þríleik Jóns Kalmans Stefánssonar. Gunnur lofaði lokabókinni óútkominni í hópinn, „Hjarta mannsins“ sem verður afhent, glóðvolg úr prentun og árituð af höfundi, honum Gunnari Frey Rúnarssyni sem datt í lukkupott. Gunnar kom inn í annarri umferð og var aldrei boðið í toppslaginn. Ekki fremur en jaxlinum Þorvarði Fannari sem mætti til leiks í þeirri þriðju.

Afmæliskaffi var að sjálfsögðu í tilefni dagsins og allir kátir eftir mótið. Tefldar voru sex umferðir með sjö mínútna umhugsunartíma og þátttakendur voru 14. Þess má geta að teflt er í Vin alla mánudaga klukkan 13 og allir alltaf velkomnir að vera með.

Úrslit:
1.    Haukur Angantýsson         5   
2.     Stefán S. Bergsson            4,5
3.    Hjálmar Sigurvaldason      4
4.    Jorge Fonseca                     4
5.    Inga afmælisbarn               4
aðrir í humátt á eftir.
 

Afmælisbarnið Ingibjörg Edda teflir við sigurvegara mótsins Hauk Angantýsson.