Félagsvinur barna og unglinga

25. sep. 2009

Félagsvinur barna og unglinga er verkefni til stuðnings börnum og unglingum sem eiga við geðræn vandamál að stríða og/eða eiga foreldri/foreldra með geðraskanir.

Rauði krossinn hóf verkefnið á síðasta skólaári og er stefnt er að því að halda verkefninu áfram á þessu ári. Sjálfboðaliðar til þessa eru nemendur úr Háskóla Íslands og Háskólanum í Reykjavík og hitta þeir börnin einu sinni í viku í a.m.k. tvær klst. í senn. Börnin voru kvödd formlega með skemmtilegum hóphittingi í lok verkefnis síðasta vor með samveru og grillmat í Húsdýragarðinum.

Félagsvinurinn veitir viðkomandi barni stuðning með því að mynda traust, jákvætt og gefandi vináttusamband. Félagsvinurinn og barnið taka þátt í athöfnum daglegs lífs og viðburðum t.a.m. fara út að ganga, spjalla saman, fara í bíó, á kaffihús, í húsdýragarðinn eða sund. Börnin eignast vin og jákvæða fyrirmynd og eiga þá möguleika á að þroska félagshæfni sína og styrkja sig til virkari þátttöku í samfélaginu.

Rauði kross Íslands vinnu að verkefnum í geðheilbrigðismálum og rekur og/eða kemur að rekstri átta athvarfa um land allt fyrir fólk með geðraskanir. Einnig hefur Rauði kross Íslands haldið námskeið/fræðslufundi fyrir aðstandendur fólks með geðraskanir og staðið að myndun sjálfshjálparhópa og séð um fræðslu til þeirra.

Í tengslum við ofantalin verkefni kom það ítrekað fram að þörfin fyrir stuðning við börn og unglinga sem annaðhvort væru að glíma við geðraskanir sjálf eða sem aðstandendur væri talsverð.

Þeir sem vilja kynna sér verkefnið nánar geta haft samband við Þórdísi Rúnarsdóttur verkefnisstjóra thordis.runarsdottir@redcross.is