GÍA tók forskot á Alþjóða geðheilbrigðisdaginn.

8. okt. 2009

Gígja Thoroddsen, eða GÍA, opnaði myndlistarsýningu í Vin, athvarfi Rauða kross Íslands fyrir fólk með geðraskanir, á miðvikudaginn. Sýningin verður uppi til 21. október en hún er haldin í tilefni alþjóðlegs geðheilbrigðisdags þann 10. október. Sýningin nefnist „Tveggja hæða vit.” Gía bauð upp á léttar veitingar við opnunina og húsið fylltist af gestum.

Yfirskrift Alþjóða geðheilbrigðisdagsins í ár er: Öflugri og aðgengilegri geðheilbrigðisþjónusta

Haldið verður upp á daginn í göngugötunni í Mjódd og í húsakynnum Hugarafls að Álfabakka 16, laugardaginn 10. október frá kl. 13:00 – 16:30. Álfheiður Ingadóttir nýr heilbrigðisráðherra mun flytja ávarp og tónlistarmennirnir Geir Ólafs, Ingó úr Veðurguðunum og unglingahljómsveitin GÁVA taka lagið. Margt verður í boði og að sjálfsögðu verður árlegt skákmót í tilefni dagsins haldið við lok formlegrar dagskrár.

Alþjóða geðheilbrigðisdagurinn er haldinn víðsvegar í heiminum þann 10. október ár hvert. Vefurinn www.10okt.com  er samstarfsverkefni þeirra aðila sem koma að undirbúningi dagsins hér á landi. Alþjóða geðheilbrigðisdeginum var fyrst hrundið af stað 1992 af Alþjóðasamtökum um geðheilsu (World Federation for Mental Health) og var markmiðið þá, eins og nú, að vekja athygli á geðheilbrigðismálum, fræða almenning um geðrækt og geðsjúkdóma og sporna gegn fordómum í garð geðsjúkra. Geðheilbrigðisdagurinn á að vera dagur allra.

Dagskrá
13:00 | Fjölsmiðjan flytur  ljúfa gítartóna
13:20 | Ragnheiður Jonna  Sverrisdóttir verkefnastjóri Alþjóða geðheilbrigðisdagsins opnar hátíðina.
13:30 | Heilbrigðisráðherra Álfheiður Ingadóttir flytur ávarp.
13:50 | Páll Matthíasson framkvæmdarstjóri geðsvið LSH.
14:10 | Herdís Benediktsdóttir og tveir notendur kynna bókina Geðveikar batasögur.
14:25 | Unglingahljómsveitin GÁVA
14:40 | Geir Ólafs tekur lagið
15:05 | Ingó úr Veðurguðunum tekur nokkur lög
15:20 | Bergþór Grétar Böðvarsson flytur stutt lokaávarp.
15:30 | Skákfélag Vinjar, Hrókurinn og Taflfélagið Hellir halda skákmót í tilefni dagsins.
Kynningar á yfir 20 úrræðum fyrir þá sem eru að glíma við atvinnu-, eignamissi eða annað sem getur raskað geði fólks. Boðið verður upp á veitingar, vöfflur, kaffi o.fl. á geðveikt góðu verði.  Einnig verða blöðrur fyrir börnin.
Nánar á www.10okt.com