Microsoft Íslandi aðstoðar flóttamenn
Microsoft Íslandi afhenti á dögunum Reykjavíkurdeild Rauða krossins hugbúnað að gjöf. Rauði krossinn mun svo útdeila honum til flóttamannafjölskyldna sem komu hingað til lands frá Kosovo og Kólumbíu í haust. Hugbúnaðurinn, Microsoft Windows XP stýrikerfi og Microsoft Office, verður notaður í tölvur sem flóttamennirnir hafa fengið að gjöf frá velunnurum Rauða krossins.
Fjölskyldurnar sem um ræðir eru sjö talsins, ein sjö manna fjölskylda frá Kosovo og sex einstæðar mæður frá Kólumbíu með alls 18 börn á sínu framfæri. Hver fjölskylda fær sína eigin tölvu með hugbúnaðinum frá Microsoft uppsettum. Allir fjölskyldumeðlimir stunda nú íslenskunám af miklum krafti og munu tölvurnar og hugbúnaðurinn hjálpa þeim umtalsvert við að fóta sig í nýju landi.
Karen Theodórsdóttir, verkefnisstjóri hjá Reykjavíkurdeild Rauða krossins, segir miklu máli skipta fyrir flóttafólkið að hafa aðgang að tölvum og Internetinu á heimilum sínum. ?Það er mikilvægt við íslenskunámið, því bæði geta hinir fullorðnu nýtt tölvurnar við fjarnám og börnin þurfa ekki lengur að vinna öll sín verkefni á tölvustofum skólanna eins og verið hefur. Jafnframt á fólkið auðveldara með að halda sambandi við ættmenni erlendis og fylgjast með fréttum frá fyrri heimaslóðum. Þessi gjöf frá Microsoft á því eftir að reynast kærkomin.?
Flóttafólk sest að í Reykjavík
Flóttafólk sest að í Reykjavík