10. des. 2007 : Námskeið fyrir flóttamannafjölskyldur

Haldin hafa verið tvö námskeið undir yfirskriftinni „Að setjast að í nýju landi,” fyrir flóttamannafjölskyldurnar sem komu til landsins í haust. Farið var yfir það hvernig best er að takast á við hugsanir og tilfinningar sem fólk upplifir þegar það flytur í annað land.

Það getur verið flókið að koma sér fyrir í framandi menningarumhverfi og oft fylgir því mikið tilfinningalegt álag. Að flytja til annars lands er erfið reynsla sem getur valdið kvíða og álagi og jafnvel verið áfall fyrir viðkomandi. Markmiðið með námskeiðunum var að auðvelda fólkinu aðlögun að íslensku samfélagi.

23. nóv. 2007 : Í Kólumbíu er allt nýtt af nautinu

Tvö ár eru síðan Jeimmy Andrea Gutiérrez Villanueva kom til Íslands eftir að hafa flúið frá heimalandi sínu Kólumbíu til Ekvadors. Jóhanna Ingvarsdóttir smakkaði nautalifur og jólabúðing að hætti Kólumbíumanna. Greinin birtist í Morgunblaðinu þann 16. nóvember 2007.

17. okt. 2007 : Flóttafjölskyldurnar frá Kólumbíu aðlagast nýjum heimkynnum

Kólumbíska flóttafólkið sem kom til landsins fyrir rúmri viku er nú hægt og rólega að byrja í aðlögunarferlinu sem stendur í eitt ár. Nýlega byrjaði fullorðna fólkið íslenskunám í Alþjóðahúsi og börnin eru að hefja nám í leik-, grunn-, og framhaldsskólum Reykjavíkur.

Flóttamannaverkefnið er samstarfsverkefni stjórnvalda, Rauða krossins, Reykjavíkurborgar og Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna. Reykjavíkurdeild Rauða krossins hefur umsjá með framkvæmd móttkunnar fyrir hönd Rauða krossins og höfðu starfsfólk og sjálfboðaliðar á vegum deildarinnar meðal annars standsett íbúðir á vegum borgarinnar sem biðu flóttafólksins. Rútufyrirtækið Guðmundur Jónasson ehf. sá um að aka flóttafólkinu til hinna nýju heimkynna eins og það hefur alltaf gert síðan 1956 þegar fyrstu flóttamennirnir komu til Íslands.

9. okt. 2007 : Flóttamenn koma til landsins í dag

Í dag koma 27 kólumbískir flóttamenn til landsins í boði íslenskra stjórnvalda. Alls taka stjórnvöld á móti 30 kólumbískum flóttamönnum í ár, en ein þriggja manna fjölskylda var áður komin til landsins. Um er að ræða konur og börn.
 
Flóttafólkið kemur hingað til lands frá Ekvador, en fólkið hafði flúið ofbeldi, stríðsátök og ofsóknir í heimalandi sínu Kólumbíu. Vegna sérstakra aðstæðna fólksins í Ekvador fór Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna fram á það við íslensk stjórnvöld að fólkinu yrði veitt hæli á Íslandi.

Flóttafólkið mun setjast að í Reykjavík og munu Reykjavíkurborg og Rauði krossinn sjá um móttöku þess. Það mun taka þátt í sérstöku tólf mánaða aðlögunarverkefni sem felur meðal annars í sér að Reykjavíkurborg útvegar því húsnæði, félagslega ráðgjöf, og íslenskunám og samfélagsfræðslu. Börn og ungmenni munu sækja leik-, grunn- og framhaldsskóla í borginni. Börnin fá sérstakan stuðning í skólum og móðurmálskennslu.

28. sep. 2007 : Litháen hefur tekið við hælisleitendum í tíu ár

Í þessum mánuði eru liðin tíu ár síðan Litháen hóf að veita hælisleitendum viðtöku og vernd. Í september árið 1997 fékk fyrsti flóttamaðurinn hæli í Litháen á grundvelli flóttamannasamnings Sameinuðu þjóðanna frá 1951.

 

26. sep. 2007 : Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna fagnar átaki félagasamtaka á Norðurlöndum

Tuttugu félagasamtök á Norðurlöndum standa fyrir átakinu „Keep Them Safe“ eða „Veitum þeim öryggi" sem miðar af því að styrkja og bæta vernd í löndunum fimm fyrir þá einstaklinga sem sótt hafa um hæli eftir að hafa neyðst til að flýja heimalönd sín vegna ofbeldis og alvarlegra mannréttindabrota.

„Norðurlöndin eru á margan hátt öðrum ríkjum til fyrirmyndar og hafa reynst Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna drjúgur stuðningur í málefnum flóttamanna," segir Hans ten Feld yfirmaður svæðisskrifstofu Flóttamannastofnunar fyrir Norðurlönd og Eystrasaltsríkin. „Sem stendur er hins vegar það kerfi sem alþjóðleg vernd byggir á ekki alltaf vel til þess fallið að tryggja fólki vernd sem flýr almennt og útbreitt ofbeldi í heimalöndum sínum. Ekki einu sinni á Norðurlöndum, þrátt fyrir að jákvæð þróun hafi orðið í þá átt í sumum Norðurlandanna."

25. sep. 2007 : Knúið á lokaðar dyr?

Guðrún er framkvæmdastjóri Mannréttindaskrifstofu Íslands, Jóhanna er framkvæmdastjóri Íslandsdeildar Amnesty International og Kristján framkvæmdastjóri Rauða kross Íslands. Þau skora á stjórnvöld að efla alþjóðlega vernd flóttafólks.

 

11. sep. 2007 : Öflun sjálfboðaliða sem stuðningsfjölskyldur fyrir flóttafólkið hefur gengið vonum framar

Nú líður senn að því að flóttamenn frá Kólumbíu komi til Íslands en þeir munu setjast að í Reykjavík. Í nógu hefur verið að snúast hjá sjálfboðaliðum Reykjavíkurdeildar Rauða kross Íslands sem hafa unnið ötullega að því að standsetja íbúðir fyrir fólkið.

Öflun sjálfboðaliða sem stuðningsfjölskyldur fyrir flóttafólkið hefur gengið vonum framar og munu tæplega 60 stuðningsfjölskyldur starfa við verkefnið næsta árið. Þetta er í annað sinn sem Reykjavíkurdeildin starfrækir stuðningsfjölskylduverkefnið og sýndi reynslan árið 2005 að þessi stuðningur við fólkið hefur haft mjög jákvæð áhrif.

10. sep. 2007 : Leiðbeiningarskjal Flóttamannastofnunar um hvernig beri að meta þörf einstaklinga frá Írak á alþjóðlegri vernd

Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna hefur gefið út leiðbeiningarskjal um hvernig eigi að meta þörf hælisleitenda frá Írak á alþjóðlegri vernd.

31. ágú. 2007 : Skyndihjálparnámskeið fyrir hælisleitendur

Hælisleitendur sem bíða hér málsmeðferðar var boðið að taka skyndihjálparnámskeið í vikunni en skyndihjálparkennsla hefur verið eitt meginverkefni Rauða kross Íslands frá upphafi.

28. ágú. 2007 : Forseti Alþjóðaráðs Rauða krossins heimsækir Kólumbíu

Forseti Alþjóðaráðs Rauða krossins, Jakob Kellenberger, hóf í gær þriggja daga heimsókn til höfuðborgar Kólumbíu til að kynna sér aðstæður í landinu. Hann mun ræða við forseta landsins, Alvaro Uribe Vélez, utanríkisráðherra Kólumbíu, Fernando Araújo Perdomo, og varnarmálaráðherrann Juan Manual Santos Calderón.

Viðræðurnar munu að öllum líkindum snúast að mestu um starfsemi Alþjóðaráðs Rauða krossins í Kólumbíu og mannúðarmálefni, svo sem fjölda flóttamanna innan landamæra Kólumbíu og alþjóðleg mannúðarlög sem gilda í þeim innanlandsófriði sem hefur geysað í Kólumbíu í meira en fjóra áratugi.

8. ágú. 2007 : Alþjóðaráð Rauða krossins og störf þess í þágu flóttamanna

Alþjóðahreyfing Rauða krossins og Rauða hálfmánans hefur aðstoðað flóttamenn og aðra sem neyðast til að yfirgefa heimili sín síðan á ofanverði 19. öld.

2. ágú. 2007 : Tækifæri til að ná langt í lífinu

Viðtöl við Jeimmy Andrea Gutiérrez, Björgu Sigríði Hermannsdóttur, Atla Viðar Thorstensen og Karen H. Theodórsdóttur vegna komu flóttafólks frá Kólumbíu í september. Greinin, eftir Þórunni Elísabet Bogadóttur birtist í Fréttablaðinu 29. júlí.

27. júl. 2007 : Nýr yfirmaður svæðisskrifstofu Flóttamannstofnunar Sameinuðu þjóðanna í Stokkhólmi

Hans ten Feld hefur verið skipaður yfirmaður svæðisskrifstofu Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna (UNHCR) í Stokkhólmi frá og með 1. júlí 2007. Hann tekur við starfinu af frú Machiko Kondo sem fer nú á eftirlaun eftir að hafa starfað hjá stofnuninni í tæpan aldarfjórðung.

Hans ten Feld er 52 ára gamall hollenskur ríkisborgari sem hefur starfað fyrir Flóttamannastofnun víða um heim síðan 1981. Hann hefur til að mynda starfað í höfuðstöðvum Flóttamannastofnunarinnar í Genf og á svæðisskrifstofum í Nýja Sjálandi, Myanmar, Þýskalandi, Indlandi, Kambódíu og í Zambíu. Hann er með meistaragráðu í alþjóðalögum frá háskólanum í Utrecht í Hollandi. Hans ten Feld er giftur og á tvö börn.

Svæðisskrifstofa Flóttamannastofnunar í Stokkhólmi vinnur með málefni flóttamanna sem tengjast Norðurlöndunum fimm ásamt Eystrasaltsríkjunum þremur Eistlandi, Lettlandi og Litháen. Rauði kross Íslands er umboðsaðili Flóttamannastofnunar á Íslandi.

19. júl. 2007 : Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna lýsir yfir ánægju með ályktun fulltrúaþings Bandaríkjanna um aukna aðstoð við flóttamenn í Kólumbíu

Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna (UNHCR) lýsti á þriðjudag yfir ánægju með ályktun sem nýlega var samþykkt á fulltrúaþingi Bandaríkjanna sem mælir fyrir um aukna aðstoð við kólumbíska flóttamenn í Kólumbíu.

6. júl. 2007 : Stofnanir Sameinuðu þjóðanna hvetja til ráðstafana til að draga úr dauðsföllum á höfum úti

Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna (UNHCR) og Alþjóða Siglingamálastofnunin (IMO) hafa snúið bökum saman til að stuðla að auknum aðgerðum til að koma í veg fyrir dauðsföll meðal flóttamanna sem fara á smábátum yfir Miðjarðarhaf, Aden flóa og önnur hættuleg hafssvæði.

„Það er mjög fjölbreyttur hópur sem ferðast á bátum með þessum hætti, flóttamenn og hælisleitendur á hrakningi undan ofsóknum eða átökum, en einnig fólk í leit að betri lífskjörum. Fólkið er oft á mjög lélegum bátum og í bráðri lífshættu. Ferðirnar eru oft skipulagðar af glæpahringjum sem enga virðingu bera fyrir mannslífum," segir Erika Feller, sem stýrir aðgerðum Flóttamannastofnunar til að vernda flóttamenn og hælisleitendur.

21. jún. 2007 : Málefni flóttamanna kynnt í Reykjavík og á Akureyri

Alþjóðadagur flóttamanna var haldinn um allan heim í gær 20. júní. Hér á Íslandi var vakin athygli á málefnum flóttamanna með sérstakri dagskrá bæði í Reykjavík og á Akureyri.

Í Reykjavík var reist tjald á Austurvelli þar sem Rauði kross Íslands í samvinnu við Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna stóð að kynningu á málefnum flóttamanna heima og heiman ásamt samstarfsaðilum. Fulltrúar frá Rauða krossinum og Reykjavíkurborg kynntu flóttamannaverkefnið í Reykjavík, en tekið verður við hópi 30 flóttamanna frá Kólumbíu síðar á árinu.

20. jún. 2007 : Fjöldi flóttamanna eykst í fyrsta skipti í fimm ár

Fjöldi flóttamanna í heiminum hefur aukist í fyrsta skipti í fimm ár, aðallega vegna ástandsins í Írak að því er Flóttamannahjálp Sameinuðu þjóðanna (UNHCR) skýrði frá í gær. 

22. maí 2007 : Breytingar á lögum um íslenskan ríkisborgararétt

Þann 16. mars 2007 samþykkti Alþingi breytingar á lögum um ríkisborgararétt frá 1952. Rauði kross Íslands fékk tækifæri til að gefa álit sitt á frumvarpinu og skilaði umsögn til allsherjarnefndar.

14. maí 2007 : Samningur um móttöku flóttamanna 2007-2008

Í mars síðastliðnum ákvað ríkisstjórn Íslands að bjóða árlega hópi flóttamanna öruggt skjól á Íslandi í samvinnu við Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna, Rauða krossinn og sveitarfélög á Íslandi. Með ákvörðuninni er Ísland komið í hóp annarra Norðurlandaþjóða sem einnig bjóða flóttamönnum skjól með þessum hætti.

Rauði krossinn hefur, ásamt móttökusveitarfélagi, haft lykilhlutverki að gegna í móttöku flóttamanna og þann 10. maí síðastliðin var gerður samningur vegna flóttamannaverkefnisins milli félagsmálaráðuneytisins og Rauða kross Íslands.

13. apr. 2007 : Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna óttast um öryggi þúsunda flóttamanna í Kólumbíu

Þúsundir hafa flúið heimili sín í Narino-héraði í Kólumbíu undan átökum stjórnarhers og herja uppreisnarmanna. Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna (UNHCR) hefur kallað eftir að óbreyttum borgurum í landinu verði veitt vernd og skorar á þarlend stjórnvöld að veita þeim sem lenda á milli í þessum átökum aðstoð.

Á síðustu tveimur vikum hafa yfir sex þúsund manns flúið til bæjanna El Charco og La Tola sem eru í norðurhluta Narino, að sögn Ron Redmond talsmans Flóttamannastofnunar.

30. mar. 2007 : Flestir hælisleitendur koma frá Írak

Írakar sem flúið hafa frá stríðshrjáðu heimalandi sínu voru fjölmennastir í hópi hælisleitenda í iðnríkjum heimsins á síðasta ári, en ríkin eru 50 talsins.

19. mar. 2007 : Ríkisstjórnin samþykkir að taka á móti flóttamönnum ár hvert

Rauði kross Íslands fagnar ákvörðun ríkisstjórnarinnar um að taka árlega á móti hópi flóttamanna hingað til lands. Ákvörðun um þetta var tekin á ríkisstjórnarfundi að tillögu utanríkisráðherra Valgerðar Sverrisdóttur í framhaldi af yfirlýsingu hennar og Magnúsar Stefánssonar félagsmálaráðherra frá 15. febrúar síðastliðnum um vilja til að renna styrkari stoðum undir reglulega móttöku flóttamanna hér á landi og samvinnu við Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna, UNHCR.

-Ákvörðun ríkisstjórnarinnar nú er mikilvægt skref í að bæta fyrirkomulag Íslendinga við móttöku flóttamanna, segir Kristján Sturluson framkvæmdastjóri Rauða kross Íslands. -Við hjá Rauða krossinum teljum að ferlið verði skilvirkara nú þegar búið er að tryggja samfellu í móttöku flóttamanna.

6. mar. 2007 : Flóttamannastofnun gerir samning við Rauða kross Írlands um sameiningu flóttamannafjölskylda

Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna hefur gert samning við Rauða kross Írlands um samstarf við að sameina flóttamannafjölskyldur á Írlandi.

26. feb. 2007 : Samningur um móttöku flóttamanna

Undirrituð var þann 15. febrúar yfirlýsing, af Valgerði Sverrisdóttur utanríkisráðherra og Magnúsi Stefánssoni félagsmálaráðherra, sem er ætlað að renna styrkari stoðum undir reglulega móttöku flóttamana hér á landi og samvinnu við Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna, UNHCR.

19. jan. 2007 : Nýtt verkefni með hælisleitendum gengur vel

Hópur sjálfboðaliða í Hafnarfjarðardeild Rauða krossins hefur frá því í nóvember heimsótt hælisleitendur sem dvelja í Njarðvík á vegum Félagsþjónustunnar í Reykjanesbæ.

10. jan. 2007 : Flóttamannastofnun SÞ: Írakar sem flýja land verði viðurkenndir sem flóttamenn

Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna hefur ítrekað beiðni sína til allra landa um að viðurkenna þá sem nú flýja frá Mið- og Suður-Írak sem flóttamenn samkvæmt flóttamannasamningnum frá 1951. Í þessum landshluta er bæði mikið um ofbeldi og mannréttindabrot.

4. jan. 2007 : Ungversku jólabörnin á Íslandi

Aðfaranótt aðfangadags 1956 komu 52 ungverskir flóttamenn til Íslands. Tæpur helmingur þeirra varð íslenzkir ríkisborgarar og enn lifa 14 þeirra hér á landi. Freysteinn Jóhannsson rifjar upp komu þessa fyrsta flóttamannahóps til Íslands. 

2. jan. 2007 : Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna fagnar stuðningi Norðurlanda og Eystrasaltsríkjanna

Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna (UNHCR) lýsir yfir ánægju sinni og þakklæti í garð ríkisstjórna og almennings á Norðurlöndum og í Eystrasaltsríkjunum vegna stuðnings við störf Flóttamannastofnunar í þágu flóttamanna í heiminum.

„Við erum mjög þakklát fyrir langvarandi pólitískan stuðning frá Norðurlöndum og Eystrasaltsríkjunum,“ segir António Guterres yfirmaður Flóttamannastofnunar.